120. Epinal, "ný áhöfn um borð"

 

Áhöfnin mætt Margrét systir komin um borð, Sigurður tók myndina.

Eitthvað tókst mér að rugla með dagsetninguna í síðasta pistli en ég skrifaði 22. ágúst í stað 23. ágúst.

Hvað með það því föstudaginn 24. ágúst byrjuðum við á að fara með þvott í sjálfvirka þvottahúsið sem við vorum búin að fá upplýsingar um. Þetta var þó nokkur spotti að fara, um hálftíma gangur hvora leið með taupokana. Það var gestkvæmt á köflum í þvottahúsinu og þar var eigandinn, maður frá einhverju arabalandi, sem virtist eiga hvert bein í fólki sem kom þarna til að láta í vél eða láta hann þvo fyrir sig, en hann tók það líka að sér. Elskulegur og hjálpsamur karl. Við þurftum að bíða meðan vélarnar þvoðu, taka svo út og flytja í þurrkarana og bíða eftir þeim. Góða stund sátum við inni í þvottahúsinu og fylgdumst með mannfólkinu sem var í sömu erindagjörðum. Við hlið mér sat eitt sinni kona með lítinn telpuhnokka sem varð mjög forvitin þegar hún heyrði okkur tala saman, sem endaði með því að hún hallaði sér að mömmu sinni og hvíslaði einhverju að henni. Leit konan síðan til okkar og spurði á ensku hvaðan við værum og sögðum við henni það "from Iceland". Skömmu síðar vatt sú litla sér að okkur og sagði til nafns á ensku og spurði hvað við hétum. Þegar við höfðum sagt henni það sagði móðirin að sú litla talaði eingöngu arabísku og ensku og vildi augsynilega þjálfa sig í enskunni, því hún vildi tala aðeins meira við okkur, sem var sjálfsagt.

Einnig skruppum við út og gengum um nágrennið meðan vélarnar voru að vinna sitt verk en um hádegisbilið var þvottastandinu lokið og fórum við nú af stað með tauið til baka. Mig hafði lengi vantað að kaupa lengri vatnsslöngu en þá sem við höfðum, til að taka drykkjarvatn á bátinn, en ekki er alltaf gefið að maður fái legupláss það nærri vatnskrana að slangan mín næði, enda stutt. Ákvað ég því að fara í byggingavöruverslun, sem ég var búinn að fá upplýsingar um og ná í lengri vatnsslöngu, og í leiðinni að koma við í stórmarkaði til að kaupa inn, meðan frú Lilja væri að ganga frá þvotti og hreinu á rúmin.

Frá byggingavöruversluninni gekk ég hróðugur með mína nýju slöngu, niður í stórmarkað, náði mér í kerru og setti fyrst slöngina í og svo vörur. Þegar að kassanum kom til að borga var þar Norski vinur okkar á undan mér í röðinni og þegar að mér kom vildi kassadaman ólm fá slönguhönkina upp á færibandið til að "skanna" hana inn, en ég neitaði og sagðist hafa keypt hana annarsstaðar. Bágt áttum við með að skilja hvort annað, hún með frönsku en ég með ensku, og reyndi ég að gera henni skiljanlegt að þau seldu ekki einu sinni slöngur í þessari verslun, en hún gaf sig ekki. Norðmaðurinn stóð hjá og brosti að uppákomunni. Loks tóks mér að grafa upp kassakvittunina frá byggingavöruversluninni og sýna kassadömunni og þá gaf hún sig, en með miklum tortryggnissvip, sem hún mátti hafa fyrir sjálfa sig. Röltum við Norsarinn svo saman niður í bátana, ég með mín slöngu, matvæli, bjór og hvítvín en hann sagðist vera í góðum málum búinn að ná í vín og vodka.

Margrét systir og Sigurður hringdu í okkur undir hádegi daginn eftir og voru þá lent í Basel. Sögðust þau ætla að taka leigubíl til okkar og báðu um adressu hafnarinnar til að geta sagt leigubílstjóranum. Sögðust þau koma eftir 1 til 2 klukkutíma sem stóðst. Urðu því fagnaðarfundir þegar þau komu til Epinal skömmu eftir kl. 2, 25. ágúst og eftir að þau voru búin að koma sér fyrir um borð var sest með smá vínlögg og ostabakka áður en land var lagt undir fót og þeim sýndur bærinn, eins og kostur var á þessum stutta tíma sem eftir lifði dags. Um kvöldið var svo farið á Le Capitainere og snæddur kvöldverður, en þar var á efri hæð mikil veisla og skemmti söngvari gestum á bryggjunni með söng og hljóðfæraslætti á skemmtara. Ekki þótti okkur mikið til koma en þarna var enginn stórlistamaður á ferð.

Daginn eftir var lagt í hann frá Epinal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband