26.9.2006 | 15:19
Aftur af stað
Eins og ég sagði ykkur í lok síðustu blogg færslu þá fórum við frú Lilja Ben til móts við m/s Lilju Ben í Hannover, 30. júlí s.l. til áframhaldandi siglinga um sjó og sund. Hugmyndin var að senda pistla að utan eftir því sem ferðinni yndi fram en tækifæri gáfust ekki vegna anna við að vera til, skoða, sigla og njóta tilverunnar. Netsambönd eru einnig fátíð á þessum siglingaleiðum. En nú erum við komin til að liggja í höfn næstu sex mánuði og mun ég á næstu vikum segja ykkur siglingasöguna eins og hún gekk fyrir sig vikurnar sem þessi áfangi varði. Við flugum frá Keflavík til Kaupmannahafnar og þaðan áfram til Hannover sunnudaginn 30. júlí og lentum ekki í Hannover fyrr en síðla kvölds. Ekki vildum við koma til skips umdir miðnættið, þreytt eftir langan dag svo við ákváðum að gista á Hóteli við flugvöllinn um nóttina og versla svo inn matar- og drykkjarkost í supermarkaði um morguninn til að taka með okkur um borð. Eftir undirstöðuríkann morgunverð mánudaginn 31. og innkaup í nálægum stórmarkaði var síðan tekinn leigubíll og haldið til Hannoverscher Motoryacht Club til móts við Lilju Ben. Þarna lá hún á sama stað og við höfðum skilið við hana fyrir þrem mánuðum. Á bryggjunni tóku á móti okkur Hafni (hafnarstórinn Herbert Wagner) og kona hans auk nokkurra yachtkafteina og kvenna sem við höfðum kynnst þegar við lögðum Lilju Ben í apríllok. Urðu fagnaðarfundir og sagði Hafni að vel hafi farið um M/s Lilju Ben þennan tíma, hann hafi farið um borð á fjögurra daga fresti og keyrt upp vélar til að halda þeim smurðum auk þess sem hann smíðaði “kryppu” undir yfirbreiðsluna á “fly bridginu” til að rigningavatn sem vildi safnast fyrir ofan á tjaldinu rynni af. Einnig hafði hann spúlað og sópað bátinn áður en við komum svo aðkoma öll var hin besta. Byrjuðum við nú daginn á að koma okkur fyrir um borð og setja hvern hlut á sinn stað en að því loknu fórum við upp á bryggju og settumst með Hafna, konu hans og fleiri gestum sem þar sátu að drekka bjór og buðum þeim upp á íslenskt bennivín og hákarl. Viti menn, þetta féll vel í kramið og gerðu menn hákarlinum góð skil (konurnar smökkuðu aðeins einu sinni og létu nægja) sem og brennivínsstaupunum og varð brátt nokkuð glatt á hjalla þótt enginn yrði ölvaður. Um kvöldið var svo grillveisla hjá Hafna og var okkur boðið í hana á hafnarbakkanum en á meðan á máltíðinni stóð voru alltaf að koma inn allra þjóða gestabátar þannig að oft þurfti að standa upp frá borðum og taka á móti spottum þegar þeir voru að leggja að. Stjórnaði Hafni því með mikilli röggsemi. Seint um kvöldið helliringdi með þrumum og eldingum sem leiftruðu um himininn en það var ekkert til baga og lögðumst við til svefns þreytt og ánægð eftir skemmtilega endurkomu um borð. Kóngulærnar byrjuðu nú að vefa sig um landfestar “rár og reiða” bátsins og urðu þær þessa sumardaga oftar en ekki baráttuefni okkar í túrnum en svo rammt kvað að þeim á köflum að allt var þakið í kóngulóavef að morgni dags.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.