6.12.2007 | 00:19
115. Farið um 93 slússur í Canal Des Vosges
Sjálfvirk slússa að fyllast. Á vinstri hönd er blá súla "sulumærinnar" of ef myndin er stækkuð og granskoðuð má sjá til næstu slússu framundan og að græna jlósið lýsir þar svo hún er tilbúin fyrir okkur að sigla beint inn.
Þá var komið að hasarnum, í næsta áfanga var ákveðið að sigla 30 km. leið til Charmes og á þeim spotta að fara í gegnum 16 slússur eða með innan við 2. km. millibili. Vorum við algjörlega að renna blint í sjóinn með þennan fyrsta hluta Canal Des Vosges og vorum klár á að varla myndi dagurinn endast til að komast í gegnum þetta allt, enda hámarkshraði í þessum þrönga canal aðeins 6 km./klst. Í heildina er Canal Des Vosges um 112 km. langur og í honum einum eru 93 slússur, fyrst upp frá Moselle að norðan verðu og svo niður í Saone fljótið að sunnan verðu. Hver slússa er með um 3 m. "þrepi" svo hæðarbreytingin í það heila er því 279 m. á þessari leið. Svo merkilegt sem það er þá liggur kanallinn þrisvar á brú yfir Moselle ánna, þar sem hún er ekki lengur skipgeng og tvisvar siglir maður í gegnum löng jarðgöng. Mestur hluti slússanna er sjálfvirkur og fá bátaskipstjórar fjarstýringu í hendur til að gangsetja ferlið í þeim. Reyndar eru sjálfvirku kerfin tvennskonar og verður hinu lýst þegar að því kemur. Þetta sjálfvirka kerfi virkar þannig að í 300 m. fjarlægð frá slússunni er box á staur á bakkanum og þegar maður kemur að því á maður að sjá ljósatöflu sem er við þann slússuenda sem er framundan. Nú beinir maður fjarstýringunni að boxinu og þrýstir á hnapp og þá blikkar gult ljós á því til merkis um að boðin séu móttekin. Á ljósatöflunni við slússuendann, sem að manni snýr eru þrjú ljósker á jafnarma þríhyrningsfleti. Lóðrétt eru tvö rauð ljósker en lárétt út frá neðra rauða ljóskerinu er grænt ljósker. Ef tvö rauð ljós loga samtímis er slússan biluð, ef eitt rautt logar er aðsigling bönnuð á meðan það logar. Logi eitt rautt og eitt grænt ljós samtímis þýðir það að slússan sé í vinnslu til að taka á móti manni. Græna ljósið eitt og sér er svo aðgangsljós um að sigla megi inn. Þegar inn í slússuna er komið eru svo tvær lóðréttar stangir eða súlur inni í rás í slússubakkanum, til að þær skagi ekki út úr honum og taki þannig pláss í slússunni. Önnur stöngin er blá en hin er rauð. Eftir að búið er að binda er tekið í bláu stöngina og henni ýtt upp og kemur þá bjölluhljómur og gul ljós fara að blikka fyrir ofan stöngina og á slússuhliðunum sem þýðir að ferlið er farið í gang. Þá lokast hliðið sem inn var komið og vatn byrjar að steyma inn ef maður er á uppleið en úr henni ef maður er á niðurleið. Þetta endar svo með því að slússuhliðin fyrir framan opnast, grænt ljós kviknar framundan og maður siglir út. Komi eitthvað fyrir er rauðu stönginni ýtt upp og sendir það neyðarmerki til slússustjórnarinnar. Að auki er svo beintengdur sími við slússuna til að ná sambandi við slússustjórnina, en sama stjórnstöðin er fyrir fjölda slússa. Það kom ávalt í hlut kvenpeningsins um borð að kippa súlunni upp og fengu þær því nafnið "súlumærin" sem það hlutverk höfðu með höndum.
Eins og að framan sagði vissum við auðvitað ekki fyrir út í hvað við værum að fara, hvort tíminn sem tæki að fara í gegnum hverja slússu mældist í klst. eða mín., en reynslan varð sú að þetta gekk svo hratt fyrir sig að meðaltíminn á slússu var um 15 mín.
Við leystum landfestar í Richardmenil snemma þennan morgun 20. ágúst, eða kl. 07:25 til að hafa daginn fyrir okkur. Byrjað var á að snúa bátnum og taka svo stefnuna suður canalinn sem teygði sig í smá bugðu inn í skógarþykkni sem lá alveg niður í bakkana beggja megin. Eftir tæpan km. kom fyrsta slússan (nr. 45) í ljós og þegar við vorum búin að binda til að láta lyfta okkur upp kom slússustrákurinn og rétti mér umrædda fjarstýringu (þeir telja slússurnar niður frá hæsta punkti þannig að þar sem við vorum á uppleið lækkuðu númerin). Nú vorum við sem sagt á eigin vegum með fjarstýringuna í höndunum. Við vorum einskipa enda snemma á ferð og framundan teygði sig canallinn, álíka breiður og þriggja akreina gata, þar til hann hvarf inn í þéttann trjágróðurinn. Þetta var þungbúinn dagur og rigningalegur í loftið, en það létti síðan til þegar á daginn leið. Það sem er svolítið einkennilegt er að þrátt fyrir að vélrnar urruðu í hægagangi niður í bátnum fann maður vel kyrrðina sem ríkti í þessu skógi vaxna sveitahéraði Frakklands. Skömmu síðar fór ég svo að keyra bara aðra vélina þar sem svo hægt varð að fara og naut maður þá enn betur sveitarinnar
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.