23.11.2007 | 17:12
111. Fólk að "gera hitt" og gúrukarl í Pompey
Eftir gott stopp í Metz og mastursæfinguna þar var kominn tími til að halda áfram för og leystum við landfestar kl. 08:10 þann 17. ágúst og héldum af stað áfram upp Moselle til bæjarins Pompey. Þar eru mót tveggja leiða. Önnur liggur í sérstakan Canal til borgarinnar Nancy og þaðan eftir vestur hluta Rínarcanalnum inn í Canal des Vosges, til bæjar sem heitir Richardmenil, en segja má að við þann bæ byrji Canal des Vosges. Hin leiðin liggur áfram upp Moselle og þaðan inn í Canal des Vosges við iðnaðarborgina Neuves Maisons. Þegar komið er um 15 km. upp eftir fljótinu á leið til Pompey breytir um því að þá verður siglingin að mestu eftir hliðarcanal meðfram Moselle og eru fimm slússur á þessari leið.
Samkvæmt upplýsingum sem hafa mátti úr leiðsögubókunum var enga eldsneytisstöð að sjá á næstunni, nema hér í Longeville - lés - Metz, sem er í útborg Metz og ákvað ég því að fylla þar upp. Við fikruðum okkur út sundið og nú með rauðar baujur á bakborða en grænar á stjór og þegar við komum inn í fljótið var beygt áfram upp Moselle. Höfnina þar sem eldsneytisstöðin er sáum við fljótlega á stjórnborða, en í ljós kom að til að komast inn þurfti að skríða undir brú sem er aðeins í 2.5 m. hæð yfir vatnstborðinu þannig að við gátum afskrifað strax að við kæmumst þar undir. Var því borin von að við fengjum olíu þar og því haldið rakleiðis áfram. Um km. lengra er önnur skemmtibátahöfn sem mér fannst lofa góðu með eldsneytistöku, þótt það væri ekki merkt í leiðsögubækur og sigldum við því þar inn til að athuga málið. Enga olíustöð var að sjá svo við beygðum frá og héldum áfram förinni. Rétt ofan við höfnina kvíslast áin og á nesrana sem liggur á milli kvíslanna er útivistargarður með bekkjum meðfram fjlótinu. Á einum bekknum var par og þegar nær var komið sást að þau voru að "gera hitt", eins og Þórbergur Þórðarson kallar það, og voru þar mikil tilþrif og hið besta "life show" fyrir áhöfnina, en ég missti af þessum leik að mestu því að sinna þurfti stjórninni meira en sexsýningu í landi.
Á leiðinni var að venju farið framhjá fjölmörgum sveitaþorpum, hverju með sinn sjarma, og einnig fórum við í gegnum borgina Pont - á - Mousson. Eftir um sjö tíma siglingu og fimm slússur komum við svo til borgarinnar Pompey. Samkvæmt leiðsögubókinni er ein bryggja við fljótsbakkann í Pompey og nokkuð góð að sjá á myndum sem bókinni fylgja. Kom hún fljótlega í ljós á stjórnborða þegar komið var inn í borgina, en hálf fannst okkur hún lítilfjörleg. Var nú lagst þarna og byrjuðum við á að leita að rafmagnstengi sem hvergi var sjáanlegt. Ekki var heldur að sjá neina hafnarskrifstofu eða þjónustubyggingu, en samkvæmt upplýsingum í leiðsögubókinni er öll þjónusta til staðar, rafmagn, vatn, sturtur og salerni.
Eftir að við vorum búnir að binda fórum við Örn að kanna aðstæður og gengum í land. Um 20 til 30 m. ofan við bryggjuna var lítið hús eða skúr á bakkanum og á honum tvær dyr sem báðar voru læstar. Aðalgata bæjarins lá svo þar fyrir ofan, en ofan við hana tók bærinn við upp eftir brattri hlíð. Skammt innar með aðalgötunni sáum við lágreista og nýlega byggingu sem úr fjarlægð virtist vera einhverskonar skrifstofubygging með afgreiðslu þar sem nokkur umferð var af fólki og tókum við nú stefnu þangað. Þegar þangað var komið kom í ljós að þetta var afgreiðsla fyrir nýtískulega sundlaug svo við undum okkur þar inn til að spyrjast fyrir um aðsetur hafnarvarðarins. Ekki talaði afgreiðslukonan ensku en við vorum svo heppnir að kona sem var að fara í sund með tvær telpur gat túlkað fyrir okkur og vissu þær ekkert um hver sæi um höfnina en leiðbeindu okkur að fara á bæjarskrifstofuna og spyrjast fyrir þar. Lýsu þær leiðinni en húsið var aðeins ofar í bænum. Eftir skamma göngu komum við að "Hotel de Ville" og fórum þar inn í afgreiðslu þar sem falleg kona tók á móti okkur og tjáðum við henni frá komu okkar í höfnina og að við vildum ná tali af hafnarverði. Ekki vissi hún neitt um hann en fór inn í fundarherbergi þar sem lögregla bæjarins sat á fundi og þar fékk hún á miða heimilsfang hafnarvarðarins, sem var við aðalgötuna skammt frá þar sem við lágum. Þegar við Örn komum svo að reisulegu húsi við aðalgötuna tók á móti okkur hundur með miklu gelti en eftir að við höfðum hringt dyrabjöllu kom gömul kona út í glugga og bað okkur að doka við þegar hún heyrði erindið. Skömmu síðar kom eldri maður (fæddur 1930 kom síðar í ljós) út um aðaldyrnar og leiðbeindi okkur að ganga með sér inn í kjallara hússins og þar gat heldur betur á að líta grúskverkstæði.
Fyrst var komið inn í bílageymslu þar sem stóð gamall Citroen bíll, algjör forngripur og nokkrar Vespur. Vélarhlutar og bílapartar voru þar út um allt. Síðan komum við inn í tvö stór herbergi og er ill mögulegt að lýsa því sem þar bar fyrir augu af gömlum útvarpstækjum, sjónvörpum, grammifónum, talstöðvum, mælitækjum allskonar og rafeindatækjum sem maður vissi hvorki haus né sporð á. Það sem var þó mest gaman var að allt var þetta 30, 40 eða 50 ára og eldra. Allt voru þetta "analogisk" tæki og er ég klár á að þarna fyrirfannst ekki eitt einasta digital tæki. Hver lófastór blettur í hillum, á borðum og bekkjum var svo fullnýttur undir hluta úr allskonar tækjum, verkfærum og guð má vita hverju, auk þess sem allir veggir voru þaktir ljósmyndum af gestgjafa okkar, frá fyrri tíð, þar sem hann var að störfum í einhverskonar rannsóknarstofum og skildist mér helst að hann hafi unnið við geimferðaáætlun Frakka á sínum yngri árum. Þarna hafði karlinn komið sér upp þessu margbrotna rannsóknarverkstæði, til tómstundagamans á efri árum. Þess ber líka að geta að þrátt fyrir að svona dót og verkfæri eru oftast ekki tengd miklu hreinlæti bar allt þarna vitni um einskæra snyrtimensku auk þess sem karlinn sjálfur var tandur hreinn með sitt silfurgráa hár og mikið í mun að sýna okkur myndirnar af sér þar sem hann var að störfum í hvítum sloppi í rannsóknarstofum einhversstaðar í Frakklandi.
Nú voru hafnargjöldin 8 gerð upp og minntum við karlinn á að við vildum geta tengst landrafmagni og komist í tæri við sturtur og salerni. Ekki var það mikið mál og gekk nú karl með okkur að gula skúrnum sem áður er nefndur á fljótsbakkanum og lauk upp annari hurðinni með lykli sem hann fékk okkur svo. Þar inni voru klósett og sturtur en ekki leist okkur beint vel á það enda stakk það í stúf við snyrtimenskuna í kjallara karlsins, allt í kongulófavef, kuski og rakablettum. Hvað rafmagnið áhrærði benti karlinn á rafmagnstengil við hliðina á vaskspegli og sagði mér að tengja bara bátinn við hann, snúran gæti svo legið undir hurðina.
Eftir að við vorum búnir að ljúka þessum formlegheitum fórum við að koma rafmagnskaplinum fyrir og sem betur fer er ég með um 70 m. langann kapal svo að hann náði að speglinum við vaskinn.
Deginum lukum við svo með bæjargöngu og um kvöldið höfðum við ekki undan að taka við og síðar að afþakka drullukökur sem stelpukrakkar voru að framleiða í stórum stíl við fjótsbakkann. Báru þær drullukökurnar fram í skeljum sem þær týndu í flæðamálinu.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.