21.11.2007 | 15:59
110. Mastursæfing í Metz
Nú fór að líða að því að við myndum yfirgefa Moselle því bráðlega yrði hún ekki skipgeng lengra. Því yrði að fara inn í Canal des Vosges, sem liggur góðan spotta með Moselle og síðan inn í Saône fljótið sem rennur til suðurs. Saône sameinast svo Rhon við borgina Lyon í Frakklandi og rennur til sjávar í Miðjarðarhafinu um 50 km. fyrir vestan Marseille. Ens og áður hefur verið sagt er MY LILJA BEN of há til að komast undir lægstu hindranir á þessari leið sem eru 3.50 m undir göngubrýr sem eru við slússur á leiðinni. Því var kominn tími til að æfa hvernig ætti að "lækka" hana til að komast undir og var ég búinn að mæla út að hún myndi "skríða" undir með því að fella mastursgrindina. Efst á þessari mastursgrind eru loftnetin fyrir talstöðina, tvö GPS tæki og radarinn sem og flautan og sigluljósið, en sitt hvoru megin á grindinni eru svo hliðarsiglingaljósin, græna og rauða.
Mastursgrindin rís upp úr yfirbyggingunni og liggur í boga yfir bátinn. Á þaki yfirbyggingarinnar er annars setbekkur við stjórntæki til að stjórna bátnum úti (kallað "Fly Bridge") og þar fyrir aftan er lítið opið svæði fyrir fólk að liggja í sólbaði. Þar sem gert er ráð fyrir að fólk geti verið þarna uppi er auðvitað rekkverk sem mastursgrindin er áföst við og varð að losa það fyrst til að fella grindina. Var nú ákveðið að fresta siglingu um einn dag og fella mastrið í æfingaskyni til að læra bestu og fljótlegustu handtökin við það. Eiginkonurnar frú Lilja Ben og Lonnie Egilson tóku hins vegar þá staðföstu ákvörðun að vera ekki um borð, heldur fara í bæinn og skoða í búðir. Þær lýstu því yfir að ekki kæmi til greina að hlusta á þann munnsöfnuð sem hugsanlega gæti hrokkið upp úr okkur ef eitthvað gengi ekki eins og til væri ætlast.
Þegar þær höfðu yfirgefið skipið réðumst við Örn til atlögu við rekkverk og mastur vopnaðir skrúfjárnum, lyklum, töngum og borvél. Vel gekk að losa rekkverkið og taka það til hliðar, enda létt í meðförum. Var nú komið að mastrinu og þurfti vel að gæta að þeim leiðslum sem liggja upp í loftnet, flautu og sigluljós, að nægur slaki væri á þeim til að þær slitnuðu ekki. Þar sem mastrið er æði þungt var komið böndum á það svo hægt væri að láta það síga beint aftur með stjórn á öllu og gekk það ágætlega fyrir sig.
Þar sem ljóst var að einhverjir dagar myndu líða þar til að komið yrði í þrengslin ákváðum við að reisa allt aftur eftir æfinguna og varð það þrautinni þyngra vegna þungans. Jafnhliða því að mastursgrindin var hífð upp þurfti að gæta að því að allar leiðslur færu niður í sinn stað og klemmdust ekki á milli auk þess sem erfitt reyndist að stýra mastrinu í réttar skorður. Í þessu brambolti gerðist það svo að bakborðs hliðarljósið rakst í og losnaði hlífin með rauða glerinu af og auðvitað féll það beint í "sjóinn" og hvarf undir yfirborðið. Ljóst var að hér hafði orðið mikill skaði því ekki væri hægt að sigla áfram án siglingaljósa. Sáum við fram á að tafsamt gæti orðið að fá ný ljós fyrir bátinn sem pössuðu þannig að ljósgeirinn yrði örugglega beint fram og 112 og 1/2° á hvort borð. Nú vildi svo til að Örn karlinn var að stýra mastrinu þeim megin sem ljósið datt og varð hann nú alveg eyðilagður, enda maður sem ekki má vamm sitt vita í neinu. Auðvitað var missir ljóssins alls ekki honum að kenna því að átökin við mastrið og það að það skrallaði til var allt eins mér að kenna þar sem ég var að hífa það upp, e.t.v. hraðar en hægt var að hafa hönd á. Upp komst nú mastrið og var öllu fest aftur á sinn stað.
Um borð er lítill háfur með um 1.5 m. löngu skafti og fór ég nú að freista þess að slæða ljósið upp. Ljóst var að það hefði getað farið þó nokkuð út eða suður á leið sinni á botninn svo nokkuð þurfti að fara skipulega að slæðingunni. Fyrst kom í ljós að háfurinn náði ekki í botn svo að brugðið var á það ráð að "teipa" kústskaft við og var þá hægt að ná til botnsins. Byrjaði ég nú að renna háfnum eftir botninum hægt og rólega meðfram bakborðssíðu bátsins en ítrekað án árangurs. Upp kom botngróður, drulla, skeljar, full kókdós og ýmislegt annað drasl en ekki kom ljósið. Var ég orðinn úrkula vonar um að ná ljósinu upp og var Örn orðinn svo vondaufur að hann gekk afsíðis til að létta á sér spennunni eftir öll vornbrigðin. Áður en ég hætti ákvað ég að færa mig aðeins aftar með bátnum og reyna fyrir mér þar og allt í einu fann ég eitthvað koma í háfinn þegar ég renndi honum eftir botninum, eins og reyndar var búið að gerast áður. Upp kom háfurinn og innan um möl, drullu og drasl glitti í hvíta hlífina af ljósinu og rautt glerið. Ekki ætla ég að lýsa hversu ánægðir við vorum þegar búið var að þrífa hlífina og hún var komin á sinn stað.
Þegar þessu ævintýri var lokið var haft fataskipti og hringt í konurnar sem enn voru á bæjarröltion og mæltum við okkur mót við þær a aðlatorgi bæjarins.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.