19.11.2007 | 15:01
109. Einmana Norðmaður, fyrsta hjálp um borð og hljómlistaverk í Metz
Komudaginn í Metz notuðum við til að kynnast borginni og rata um hjarta hennar. Var því um góða göngu að ræða um götur og torg, en Metz er mjög dæmigerð frönsk borg með miklu götulífi og skemmtilegu andrúmslofti. Eftir rannsóknarferðina var lífinu tekið með ró um borð og fóru konurnar í að undirbúa þvottadag því nú var meiningin að byrja morgundaginn á stórþvotti. Það var jú komin vikausigling svo óhreint tau var farið að safnast fyrir. Var spurst fyrir um nærliggjandi þvottahús með vélum til sjálfsþvottar og reyndist það í um ½ km. fjarlægð.
Aðeins fórum við að spjalla við Norðmanninn sem lagðist fyrr um daginn við hlið okkar og kom í ljós að hann var einn á ferð og búinn að sigla heiman frá Noregi, nákvæmlega sömu leið og við í gegnum Þýskaland upp Elbu, eftir Elbu sidekanal yfir í Rín og þaðan upp Mosel. Hann var hins vegar aleinn á ferð og útlistaði með mörgum orðum erfiðleikann við að vera einn á siglingu, sérstaklega á svæðum eins og á Rín þar sem langt getur verið á milli hafna og umferð svo mikil að aldrei má vikja frá stjórnvelinum. Sagðist hann ekki hafa komist á klósett eða lagað sér svo mikið sem kaffisopa tímunum saman, enda ganghraði bátsins lítill svo að oft skilaði hann ekki nema 2 til 3 hnútum upp í strauminn þótt vélin væri keyrð á fullu. Slússurnar voru svo kapítuli út af fyrir sig þar sem hann þurfti að vera einn í öllu, skipstjóri sem sigldi inn, lagði að og kom enda upp, sem hann varð svo að hanga í meðan fyllt var í og báturinn hækkaði upp í skipastiganum. Var hann á sömu leið og við niður í Miðjarðarhafið þar sem framtíðarsiglingin átti að vera.
Þar sem við sátum svo í rólegheitunum á afturdekkinu og létum sólina verma okkur bar að þrjár franskar unglingsstúlkur sem höfðu verið á göngu meðfram höfninni. Hafði ein þeirra dottið illilega við gryfju í gangstéttinni þar sem einhver viðhaldsvinna átti sér stað og hruflað sig þó nokkuð á öðrum fæti. Bentu þær á sárin og var auðskilið að þær voru að leita ásjár við að búa um þau svo að sjúkraliðinn Lonnie Egilson tók til óspilltrar fagvinnu við það, eftir að undirritaður var búinn að sækja sjúkrakassa bátsins. Voru stelpurnar þakklátar fyrir aðhlynninguna, en við það að rifja þetta upp man ég að endurnýja þarf birgðir sjúkrakassans eftir þessa aðgerð. Einhvern vegin hef ég á tilfinningunni að andúmsloft öryggis og hjálpsemi sé meira einkennandi þarna heldur en sú tortryggni og ótti gagnvart ókunnugum sem hér virðist vera vaxandi. Alla vega virtist þessum ungu stúlkum vera það eðlislægt og sjálsagt að leita aðstoðar útlendinga um borð í skemmtibát við að búa um sár sín og áttum við eftir að reyna síðar í túrnum að stelpukrakkar í drullukökubaxtri vildu endilega gæða okkur á afurð sinni þegar þær voru eftirlitslausar að leik við fljótsbakkann þar sem við lágum. Fannst mér þetta minna á það uppeldisumhverfi sem við áttum á 5. og fyrri hluta 6. áratugarins þegar maður sem barn taldi sig ekki þurfa að óttast saferðafólk sitt innlent eða útlent. Hvað hefur breyst hér hjá okkur?
Um kvöldið var setið við kertaljós á afturdekkinu og sötrað úr hvítvínsglasi áður en fara átti í háttinn þegar allt í einu kvað við hljómlist í létt klassiskum dúr sem hljómaði um alla höfnina og virtist koma úr skrúðgarði sem er ofan við hana, með fallegu vatni, síkjum og gömlum rústum utan í klettavegg sem girðir af gagnstæðan bakka vatnsins. Fyrsta hugsunin sem flaug í gegnum hugann var dæmigerð fyrir Íslendinga, "nú eru einhverjar fyllibyttur komnar með glymskrattann í botn. Það verður ekki mikill svefnfriður ef svona heldur áfram". Þar sem við vorum ekki búin að upplifa drykkjulæti af neinum toga frá því að við byrjuðum að sigla fannst okkur það ekki sennileg skýring en höfðum samt enga aðra á takteinunum. Ég hef alltaf verið haldinn forvitni og viljað reyna að finna eðlilega skýringu á hlutunum svo að ég ákvað að ganga í land og renna á hljóðið, enda hljómlistin af þeim toga sem frekar laðar til sín en fælir frá. Gekk ég því upp í garðinn, því þaðan kom hljóðið og þegar komið var í gegnum trjárunna sem skýldi garðinum frá okkur séð blasti við óvænt sjón. Með vatnsbakkanum framundan var fjöldi fólks samankominn og upp úr vatnsyfirborðinu gusu vatnsstrókar úr óteljandi gosbrunnum, upplýstir með marglitum ljósum. Risu þessir vatnsstrókar og hnigu, breyttu stefnu og sveifluðust í takt við hljómfallið og litadýrðin flökkti og breyttist eftir laglínunni auk þess sem upp úr vatninu stigu hinar ýmsu kynjaverur og dönsuðu á yfirborðinu, allt framleitt með samspili vatns, lita og ljósa. Ógleymanleg sjón. Flýtti ég mér til baka og sótti samferðarfólkið svo það missti ekki af þessum hljómleikum og sjónarspili. Bæði kvöldin sem við áttum eftir að liggja þarna var svona tóna- og sjónarspil í garðinum.
Miðvikudaginn 15. ágúst var farið með þvottinn í land og stefnan tekin á þvottahúsið. Fundum við það eftir smá leit og voru nú vélarnar hlaðnar og beðið meðan þær og þurrkararnir voru að vinna sín verk. Eitthvað rápuðum við um nágrennið á meðan og settumst yfir bjórglas til að drepa tímann. Þegar þessu var lokið var gengið frá þvottinum um borð og lagt til landgöngu og nú var borgin skoðuð almennilega. Einhver dýrlingahátíð var í gangi þennan fallega miðvikudag og því lítið af búðum opnar en ýmislegt að sjá og við að vera. Villtumst við jafnvel inn í hátíðarmessu í dómkirkjunni sem var merkilegur viðburður út af fyrir sig. Um kvöldið var svo tekin ganga um garðana sem prýða svæðið þar sem við lágum og endað með að hlusta og horfa á hljómlistaverkið í garðinum áður en farið var að sofa.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.