108. Til Metz og næstum í strand

Landganga í Metz   Promenaden í Metz, áhöfnin gengur í land.

Ég hef verið skammaður fyrir að vera latur að skrifa ferðapistlana. Annir hafa hins vegar tafið skriftir og lofa ég að bæta nú úr.

Við leystum landfestar í Thionville kl. 0855, eftir einnar nætur stopp og héldum áfram upp Moselle til borgarinnar Metz. Þegar svona langt er komið upp eftir fljótinu fer það að kvíslast nokkuð og vegna þess hversu það er á köflum grunnt hafa verið grafnir skurðir meðfram því til að auka skipgengi upp fljótið. Er maður því ýmist að sigla á fljótinu sjálfu eða meðfram því í skurðum (kanölum). Á leiðinni til Metz eru þrjár slússur sem fara þurfti í gegnum og gekk það tíðindalaust fyrir sig. Við byrjuðum á því að fara framhjá höfninni, þar sem við prófuðum að leggjast í fyrst, þegar við komum til Thionville, og misstum krókstjakann út af straumnum sem hrifsaði okkur út og suður. Þökkuðum við nú fyrir að hafa haft vit á að koma okkur burt úr því ömurlega straumbæli og velja okkur aðra legu.

Leiðin suður til Metz er mjög falleg auk þess sem veðrið lék við okkur á leiðinni. Meðfram bökkunum skiptust á akrar, skógar og vinaleg frönsk sveitaþorp. Þótt megin leiðin sé eftir skurðum, við hlið Moselle, þá er maður í fljótinu sjálfu þegar siglt er inn í Metz. Á vinstri hönd er borgin sjálf en útborgirnar Le Ban - Saint - Martin og Longeville - lés - Metz dreifa úr sér á hægri hönd. Við vorum búin að velja okkur höfn " Marina Societé des Régates" sem er við miðborgina, en fjórar aðrar yachthafnir eru í borginni, þar af þrjár of litlar eða þröngar fyrir okkar bát. Megin áll Moselle rennur á mótum Metz og útborganna og skilja þær að, en að auki liggja álar og síki í gegnum Metz sjálfa, sem mynda fimm eyjar sem hlutar af Metz standa á. Þegar komið var til borganna var farið í gegnum síðustu slússuna og síðan SV með ónefndri eyju á vinstri hönd. Við enda hennar beygðum við til SA og stefndum í sund á milli eyjanna Ille du Saucy og Ille St - Symphorien. Á Ille St - Symphorien er mikið útivistarsvæði með görðum og opnum svæðum, en þéttur trjágróður birgði alla sýn inn á Ille du Saucy. Þar eru hvort eð er óspennandi byggingar að sjá. Þegar komið er inn úr sundinu opnast stórt vik á milli eyjanna sem nær að meginlandinu framundan sem miðborg Metz stendur á og er skemmtibátahöfnin þar beint framundan við steinbakka sem er "Metz Promenade".

Þegar við komum inn úr sundinu og á opna svæðið sá ég strax rauðar baujur í röð sem lá að hafnarsvæðinu og leiðrétti ég strax stefnuna til að hafa þær á bakborða eins og lög gera ráð fyrir þegar um innsiglingu er að ræða. Um leið og við vorum að komast upp með fyrstu rauðu baujunni rak ég augun í aðra röð af grænum baujum, svo nærri landi að þær féllu inn í grænan trjágróðurinn og um leið tók ég eftir að dýpið minnkaði óðfluga. Í snarhasti leit ég í kortið og sá að mér hafði sést yfir að hér var öllu snúið á haus, grænar baujur áttu að vera á bak en rauðar á stjór. Fyrir vkið var ég næstum búinn að stranda MY LILJU BEN. Var ég því fljótur að breyta stefnu á fyrstu grænu baujuna og setja þá rauðu á stjór. Ekki kynnti ég mér hvers vegna röðunin á baujunum þarna er öfug miðað við alþjóðlega kerfið, en eftir að inn með þessari afmörkuðu leið var komið fundum við fljótlega gott legupláss við bryggurnar og lögðumst þar kl. 14:55, beint niður undan hafnarbarnum og skrifstofunum.

Metz Loftmynd af Metz. T.v. er sundið sem siglt er inn, undir hraðbrautarbrú og bátahöfnin er kægra megin í opna svæðinu.

Þar sem við lágum, skammt frá miðborginni var mikil umferð af gangandi fólki. Steinbakkinn meðfram síkinu sem höfnin er við er augsýnilega ein helsta skemmtigönguleið fólks í Metz og því mikið mannlíf sem ber við augu. Beint á móti okkur, hinu megin við bryggjuna var Þýskur bátur og á honum hjón sem við urðum brátt málkunnug og kom í ljós að þau voru ekki að koma til Metz í fyrsta sinni. Annars virtust þau vera mjög heimakær og fara lítið upp úr bátnum.

Nokkru eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir tók ég eftir bláum bát sem kom inn um sundið og stefndi hann eins og við höfðum gert með rauðu baujurnar á bak, en snarbeygði svo til bakborða og inn á rétta leið áður en hann strandaði. Sá hann líka grænu baujurnar sem betur fer í tíma. Þegar báturinn kom að bryggjunum kom í ljós að þarna var um að ræða norskan bát sem lagðist í næsta pláss fyrir innan okkur. Var Norðmaðurinn einn á ferð og áttum við eftir að kynnast honum frekar í ferðinni. Hérna var gott að leggjast og að vera svo við ákváðum strax að liggja í Metz í tvær nætur, sem síðar lengdust í þrjár vegna undirbúnings okkar við að "troða okkur í gegnum Frakkland".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband