Tekið á Trosa

 

219-001Alb Grumman Albatros, "TROSINN" 

Mér fannst hún ljót þar sem hún stóð fyrir framan mig í síðdegissólinni. Ekki aðeins ljót heldur líka þreytuleg, eins og það væri einhver depurð og umkomuleysi yfir henni þrátt fyrir þetta fallega vorveður. Hún var belgmikil, klunnaleg og brún á skrokkinn, en öll meira og minna hrukkót auk þess sem hún hallaði "undir flatt" til vinstri. Dökkur pollur var að breiðast hægt út á hlaðinu frá óþverranum sem lak niður úr henni. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ég staldraði við og leit til baka þegar ég gekk frá henni. Ég vissi að hún væri drusla, kraftlaus og óáreiðanleg enda orðlögð manna á milli fyrir að vera útjaskaður vesalingur og slitin. Hún léti ekki almennilega að stjórn, og næði illa fluginu. Hugsanlega sneri ég mér við vegna þess að bráðlega kæmi að því kveðja hana og þótt fuðulegt megi teljast með blöndu af söknuði og feginleika. Aðeins var eftir að koma henni heim, vonandi áður en henni tækist að drepa mig. Það var loksins búið að ganga nær henni en hún þoldi, hún myndi aldrei bera sitt barr framar.

Hún var önnur af tveim "Grumman Albatros" vélum sem fengnar voru frá Bandaríkjunum fyrr um árið til að prófa við gæsluflug við strendur Íslands, þar sem TF SIF Skymastervél Landhelgisgæslunnar þótti orðin of dýr og óhagkvæm í rekstri. Þær höfðu verið hirtar í flugvélakirkjugarði fyrir aflóga flugvélar sem búið var að leggja. Eftir að hingað kom tók við stanslaust stríð flugvirkja við að halda annarri í flughæfu ástandi m.a. með því að hirða varahluti úr hinni. Sem dæmi má nefna að upphengjurnar fyrir hliðarsýrið voru orðnar svo eyddar að stýrið skrölti laust og einhverntíma þegar farið var inn í stélið til að hirða eitthvað í varahlut kom í ljós að þar var fuglshreiður sem orðið hafði viðskila við búendur sína, eggin komin til Íslands en foreldrarnir í Arizona.

Strax frá upphafi bannaði Flugmálstjórn að vélarnar færu fullhlaðnar í loftið frá Reykjavík, nema á braut 310 en á þeirri stefnu er svo til strax komið yfir sjó og engin byggð í hættu. Flugmálastjórn vildi ekki sjá fulla bensíntanka koma fljúgandi niður í bæinn ef mótor myndi hiksta í flugtaki. Vélarnar voru nefnilega búnar auka bensíntönkum undir vængjunum sem átti að sleppa ef mótor bilaði eftir flugtak, áður en búið væri að ná hjólastellinu inn, en fullar fimmtán sekundur tók að hífa það ál- og járnarusl á sinn stað þannig að loftmóstaðan frá því hyrfi. Með alla tanka fulla og hjólastellið úti héldist hún ekki uppi á einum hreyfli eftir flugtak svo annað hvort varð að gera, henda "bensínbombunum" niður í bæinn eða dúndra vélinni með öllu t.d. í Tjörnina eða höfnina ef flugtak var til norðurs. Braut 310 kom ekki til greina, hún var einfaldlega of stutt til að þessi klunnalegi og vélvana sleði kæmist fulllestaður í loftið. Ráðið til að komast framhjá þessu var því að fara til Keflavíkur á hálf tómri vél, fylla þar af eldsneyti og fara þaðan í gæzlu. Þetta hefði verið í lagi ef það hefði ekki ítrekað gerst í lendingu á Keflavíkurflugvelli að bremsurnar lágu útí á hjólunum svo það kviknaði í hjóladraslinu með tilheyrandi neistaflugi og slökkvilið flugvallarins æðandi á eftir okkur, með bununa á logandi hjólið. Það var orðin vinnuregla hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar að koma á fullri ferð á bílunum samhliða okkur í lendingarbruninu, hvert sinn sem við lentum. Eftir að þetta var búið að gerast nokkru sinnum höfðum við með okkur "borgaralega" jakka til að geta farið úr einkennisjökkunum, áður en við færum inn í flugstöðina. Þá gátum við gengið flautandi frá vélinni og þóst ekki þekkja þetta skrapatól sem við vorum á.

Þær fengu fljótlega eftir komu viðurnefnið "Trosarnir" þannig að maður fór alltaf á Trosanum þetta eða hitt. Að breyta Albatrosanum í Trosa var réttnefni því aðbúnaður okkar um borð var jafn lítilfjörlegur og ómerkilegur og tros á diski. Þegar komið var inn um aðaldyrnar, sem voru aftarlega bakborðsmegin, tók við tómur belgurinn með þunnri vatteinangrun í hliðum. Örlitlar gluggaborur voru á hliðunum. Fremst stjórnborðsmegin í þessum belg var stóll og borð siglingafræðingsins með mælaborði fyrir framan, radarskjá og Loran A. Þar fyrir framan tók svo flugstjórnarklefinn við og var fellistóll fyrir miðju sem skipherrann sat í, aftan við og á milli flugmannanna. Hægra megin við dyrnar, aftur í rassi, var salernið með kamarfötu innst en svo var trekt í smellu á veggnum til að pissa í. Var trektin áföst gúmmislöngu sem lá beint út úr hliðinni á vélinni, fyrir pissið að renna út. Við byrjuðum að fljúga á þessu síðla vetrar þegar frost náði oft niður að jörðu. Eftir lendingu var því oft með ólíkindum að skoða hvernig hraðfrystir, hlandgulir taumarnir ásamt dreifðum dropaperlum gátu teiknað hinar fjölbreytilegustu kynjamyndir á bakborðssíðu flugvélarinnar. Þá var synd að fá þýðu. Beint undir vængjunum sitt hvoru megin voru svo tvö lítil göt á belgnum með leðurpjötlu fyrir sem þjónuðu mjög merkilegu hlutverki. Þar sem þetta er sjóflugvél líka var að sjálfsögðu krókstjaki um borð og var hann festur í smellum á annari hlið belgsins. Var það hlutverk mitt sem siglingafræðings að fylgjast með í lendingu hvort hjólastellið læstist ekki, en hjólastellið er margbrotið járn- og álvirki sem bögglast með miklum tilþrifum út úr skrokknum þegar hjólin eru látin út og niður. Ef svo myndi vilja til að hjólastellið læstist ekki í rétta stöðu var það hlutverk mitt að taka krókstjakann, reka hann út um gatið á hliðinni, pota í vissan stað á hjólastellinu og ýta svo hraustlega á. Þá áttu hjólin að læsast. Enfalt og öruggt?

Það var á fjórða degi útilegu okkar sem þessi tilfinning kom yfir mig þar sem ég horfði til hennar á flughlaðinu á Egilstöðum. Við vorum búnir að vera á gæslu fyrir Norður- og Austurlandi með aðsetur fyrstu tvær næturnar á Egilstöðum og nú síðustu nóttina á Akureyri. Eftir fyrstu nóttina á Egilstöðum fórum við í loftið kl. sex um morguninn og þegar við komum til baka um kvöldið vorum við hundskammaðir fyrir að hafa vakið alla bæjarbúa fyrir allar aldir með ærandi hávaða. Var fullyrt að mikil viðkoma myndi verða hjá Egistaðabúum níu mánuðum seinna, vegna þessarar ótímabæru ræsingar mannfólksins. Réttast yrði því að krefja Landhelgisgæsluna um meðlag með þeim börnum sem vitað væri að komu undir þennan morgun. Slysaðist þá út úr mér að það væri bara eðlileg krafa, við hefðum jú komist yfir þær allar í einu.

Þennan síðasta gæsludag Trosans fórum við í loftið frá Akureyri kl. sex að venju og átti nú að hrella breska togara sem "stigu línudans" á og innan við landhelgislínuna fyrir NA- og SA landi. Nú myndu þeir ekki sleppa, við vissum að þeir stunduðu að tilkynna milli togarahópanna þegar þeir sá okkur þannig að þeir gætu forðað sér útfyrir. Það var nístingskalt að koma um borð á Akureyri þennan síðasta gæsludag á Trosanum. Búið var að fylla alla eldsneytistanka svo að ekki myndi veita af allri brautinni til að ná flugtakshraða. Kuldinn var frekar til bóta þar sem loftið var þá ívið þéttara en ef hiti væri í lofti, en því miður var logn svo ekki var von á að vindur myndi hjálpa til við flugtakið. Í logninu var ákveðið að "taka af til norðurs", enda minnstur skaðinn ef henda yrði tönkunum í Pollinn á Akureyri, eða skrallast út í sjó við norðurendann, ef flugi yrði ekki náð þegar brautinni sleppti.

Stjórnkl Stjórnklefinn í "Trosanum"

Flugmennirnir keyrðu nú út á bláenda flugbrautarinnar og komu sér fyrir til flugtaksins, því ekki mátti einn meter af braut fara til spillis. Þegar þangað var komið var eldsneytigjöfunum ýtt alveg fram eins og þær komust, þrýst vel á eftir og fullur skurður settur á skrúfurnar með hjólabremsunar læstar. Þegar búið var að fá fullan kný á hreyflana var bremsunum fyrst sleppt. Í raun gerðist ósköp lítið í fyrstu. Hægt og rólega silaðist klunninn af stað og jók löturhægt hraðann. Mér fannst tíminn standa í stað meðan hver meterinn af brautinni rann undir án þess að alvöru hraða væri náð. Þegar vélin loks fór framhjá flugstöðinni fannst mér hraðinn vera orðinn ámóta mikill og í sunnudagsbíltúr í þéttbýli, en trúlega var hann orðinn eitthvað meiri. Brautarendinn nálgaðist óðfluga og þegar brautin var á enda varð vélin að fljúga hvort sem henni líkaði betur eða verr og einhvervegin druslaðist beyglan í loftið. Er ég viss um að hún var á lægsta mögulega hraða til að lyftast svona þung, en hún hafði það. Það leið því feginsandvarp frá brjósti þegar hjólin losnuðu frá brautarendanum, en svo var andanum haldið aftur í þær fimmtán sekundur sem tók að ná hjólfyrirbrigðinu inn, fyrr var ekki hægt að fara að anda eðlilega.

Þegar við vorum komnir út fyrir Oddeyrina, við voguðum okkur ekki að fara yfir hana, var farið að sinna venjubundnum störfum við gæsluflug. Farið var út Eyjafjörðinn og stefnan sett djúpt út af Melrakkasléttu og fyrir Langanes. Þetta var gullfallegur morgunn, lygn og bjartur. Þó vorum við búnir að frétta að þoka lægi með ströndinni frá Gerpi og suður undir Hvalsnes við Eystra Horn. Þegar við komum yfir Langanesið sást stór hópur breskra togara að skarka á og aðeins innan línunnar á Digranesflakinu en ekki nógu langt fyrir innan til að hefjast handa við töku. Þegar við flugum yfir voru þeir allir komnir á stefnu út fyrir eða frá línunni og héldum við því áfran suður með Austfjörðum til að skoða hóp Breta sem við vissum að voru að veiðum út af Stokksnesi við Hornafjörð. Var flogið "on top", þ.e. yfir þokunni, suður með fjörðunum og sáum við að hún náði eins og augað eygði til hafs séð úr þessari hæð en þegar Eystra Hornið kom í ljós var þokan aðeins á 4 til 6 sjóm. belti meðfram ströndinni og lá hún þétt upp að fjöllum, inn á víkur og firði.

Fyrir Lóni var engan togara að sjá en út af Stokksnesi var hópur að veiðum, allir skammt utan við línu auðvitað, enda togarahópurinn á Digranesflakinu örugglega búinn að tilkynna um ferðir okkar. Var nú flogið smá stund yfir togarahópnum með sannfærandi líkindalátum eins og við værum að mæla þá og stefnan síðan sett á Ingólfshöfða. Nú skyldu bansettir Bretarnir plataðir því við vissum að þeir myndu tilkynna hópnum á Digranesflaki hvert við stefndum. Þegar komið var vestur undir Hrollaugseyjar og úr sjónmáli togaranna var snarlega beygt inn yfir landið og flogið alveg upp að jökulröndinni, síðan austur með fjallshlíðum Suðursveitar og inn í Hornarfjörð þar sem við gátum horfið inn í þokuna og smeygt okkur svo inni í henni fyrir Stokksnesið. Grófar mælingar sem ég gerði á radar þegar við fórum fyrir Stokksnesið sýndu að enn voru Bretarnir ekki búnir að freistast til að fara innfyrir. Var nú ákveðið að skríða inni í þokunni norður með Austfjörðunum, sem næst landi, og koma Bretunum á Digranesflakinu að óvörum úr suðri. Þetta tókst og þegar við komum "skrúfuskellandi" yfir hópinn voru nokkrir komnir inn fyrir línuna og einn afgerandi innst. Það varð augsynilega allt vitlaust í togarahópnum. Allir tóku þeir stefnuna stystu leið út fyrir línuna og keyrðu með vörpurnar í rassgatinu sem mest þeir máttu. Herbragðið hafði heppnast. Sumir fóru strax að hífa þ.á.m. togarinn sem var innstur og var hann nú mældur ítrekað, staðarákvörðun sett út i kortið og togarinn kallaður upp til að tilkynna honum að hann hafi verið að ólöglegum veiðum og gefa honum fyrirmæli um að halda til hafnar. Samhliða kölluðum við í varðskipið Þór sem var við gæslu skammt frá Hvalsbaknum og báðum hann að koma okkur til fulltingis. Togaraskipstjórinn sinnti fyrirmælum okkar lítið sem ekkert en kláraði að taka vörpuna inn og færði sig svo útfyrir línuna. Nú voru góð ráð dýr, við vissum að við vorum komnir í bölvaða klípu.

Samkvæmt reglunum er skylt, ef skip er staðið að ólöglegum veiðum, að sá sem stendur viðkomandi skip að slíku, missi aldrei sjónar af því þar til það kemst í gæslu réttbærra yfirvalda í landi. Er það kallað "óslitin eftirför". Heimilt er að yfirvald skipti eftirförinni með sér, rofni hún ekki, svo ekki má hverfa frá eftirförinni fyrr en sá sem tekur hana yfir er kominn á staðinn og búinn að staðfesta að hann sjái viðkomandi skip og sé tekinn við eftirförinni. Klípan sem við vorum komnir í var að flugþolið var orðið takmarkað, rúmlega tveir tímar eftir, og því óvíst að við stæðum á tökunni. Þótt togarinn héldi beint til næstu hafnar, Seyðisfjarðar var a.m.k. 4 - 5 stunda sigling þangað, Þór gat ekki tekið við fyrr en í fyrsta lagi eftir 5 - 6 stundir og við vorum eins langt frá Reykjavík og hugsanlegt var til að fá aðra flugvél þaðan með gæslumann um borð. Ákveðið var að láta slag standa og kalla eftir aðstoð úr lofti frá Reykjavík. Nokkru síðar kom tilkynning um að Björn heitinn Pálsson sjúkraflugmaður vær tilbúinn með "Dúfuna" fulla af eldsneyti á Reykjavíkurflugvelli, sem hann ætlaði að fljúga til Þórshafnar með einhvern farm sem ég man ekki að nefna nú, og að stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, sem starfaði á skrifstofunni, væri að leggja af stað út á flugvöll til að fara með honum. Ekkert var fyrir okkur að gera úr þessu nema að fara í "holding" og hanga í hringflugi yfir togaranum þar til við yrðum leystir af, ef það tækist þá í tíma. Stilltu flugmennirnir vélina á hagkvæmasta hraða í biðfluginu og svo tók spennandi biðtími við. Við þurftum a.m.k. 20 mínútur til að klára okkur til Egilstaða eftir að við yrðum leystir af.

Eldsneytismælarnir fönguðu athygli okkar meir og meir eftir því sem tíminn leið. Dúfan var komin í loftið og þrumaði nú áfram beint yfir landið með stefnu til okkar. Það versta var að hún var hægfleyg og stóð því ekki undir nafni systra hinna, bréfdúfanna. Þegar eldsneytismælarnir voru komnir á rautt kom upp annað vandamál. Olíuþrýstingur á vinstra mótor var farinn að minnka ískyggilega. En nokkru síðar kom kall frá Dúfunni um að hún sæi okkur og rétt á eftir birtist hún fram með okkur hægra megin. Eftir að þeir voru búnir að staðfesta að þeir væru búnir að sjá togarann og taka við eftirförinni var stefnan sett beint á Egilsstaði. Ég held að mér sé óhætt að segja að við vorum ekkert of vissir um að ná til Egilsstaða því endsneytismælarnir voru farnir að vísa í brúnina á "E" sem þýðir víst "empty". Miðað við almennt ástand Trosans var spurning hversu réttir þeir væru. Hvað varðaði fallandi olíuþrýsting á vinstra mótor var hann ekki stórt áhyggjuefni, Trosinn myndi hanga uppi á öðrum hreyfli galtómur.

Aðflugið var gert úr norðri, engir aukahringir teknir, enda logn sem betur fer. Ég fylgdist með þegar hjólastellið böglaðist út úr skrokknum og féll í lás. Næst tók við snertingin við flugbrautina, reykur frá dekkjunum og hjóllastellið kipptist við. Eitthvað var snertingin vinstra megi dularfull með ókennilegu skraphljóði og titringi. Vélin hægði hratt á sér í lendingarbruninu en eitthvað var óvenjulegt við stöðuna. Hún hallaði undir flatt til vinstri. Demparinn á vinstra hjólinu hafði lekið vökvanum út svo að engin dempun varð í lendingunni. Hún hallaði svona því að hjólastellið vinstra megin var orðið styttra en hægra megin.

Ég fór síðastur frá borði því ég þurfti að taka saman og ganga frá siglinga- og skráningargögnum við togaratökuna. Það var grafarþögn í flugvélarbelgnum þannig að fótatak mitt á álplötum gólfsins, þegar ég gekk út, bermálaði í eyrum. Áður en ég sneri frá henni út á flughlaðinu, eftir að hafa snúið mér við til að horfa á hana, flaug í gegnum brjóst mér einhver reiðitilfinning sem hvarf þó jafnharðan. Það var ekki réttlátt að bölva henni upphátt, ég átti eftir að fljúga í henni heim.

Blessuð sé minning flugmannana sem voru við stjórnvölin í þessari ferð, þeirra Björns Jónssonar og Þórhalls Karlssonar, sem báðir fórust með TF-RÁN þyrlu Landhelgisgæslunnar í Jökulfjörðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband