30.7.2007 | 00:39
99 Lokaleggur til Neumagen Dhorn
Jæja þá var komið að lokaleggnum í þessari vorsiglingu, tími til kominn að koma sér heim í sumarið en ég var farinn að finna að frú Lija Ben var farin að þrá rúmið sitt og komin með heimþrá. Við leystum því landfestar í Trarbach kl. 0830 og færðum okkur að olíubryggjunni til að taka eldsneyti. Þurftum við að bíða aðeins eftir afgreiðslu en þegar henni var lokið héldum við enn af stað upp Mosel kl. 0930, þriðudaginn 28 maí. Að venju voru tvær slússur á leiðinni, hvor fyrir sig með 7 m. hækkun. Dagurinn var þungbúinn en fallegur, hlýtt í lofti og lygnt. Haldið var eftir fljótinu sem bugðast svo mikið að fyrst sigldum við í vestur, svo í norður, aftur í vestur og þá í suður o.s.frv., en með hverri mílunni sem sigld var þokuðumst við samt í heildina áfram til suð- vesturs, en eins og áður hefur verið sagt, enginn er að flýta sér eitt eða neitt. Eftir 20 km. vegalengd fórum við framhjá hinum fæga Bernkastel en stoppuðum ekki þar þótt freistandi væri, enda hægt að fara frá Neumagen þangað í skoðunarferð ef okkur lysti. Eftir að hafa siglt framhjá 25 bæjum og þorpum komum við til Neumagen Dhorn. Var nú farið með ýtrustu gætni inn um hafnarmynnið sem er frekar þröngt og mjög blint þannig hætta var á að maður sæi ekki smærri báta sem væru að koma út og því eins gott að vera viðbúinn að stoppa. Allt gekk þetta eins og í sögu og lögðumst við nú miðsvæðis í höfninni innan um fjöldan allan af bátum. Strax kom í ljós að hér er um glæsilega yachthöfn að ræða og aðstaða öll til mestu fyrirmyndar. Framundan var nú vikustopp því flugið heim frá Frankfurt Han var fyrirhugað þriðudaginn 5. júní.
Skemmtibátahöfnin í Neumagen Dhorn er í mjög fallegu umhverfi inn í lítilli vík sem grafin er í austurbakka fljótsins. Bryggur eru hvítskúraðar með stífmáluðum tengikössum fyrir rafmagnstengin, upprúlluðum slöngum fyrir drykkjarvatnstöku og eru stýristólpar bryggjanna skrautmálaðir með listrænu ívafi. Hreinlætisaðstaðan í landi er með þeirri glæsilegustu sem við höfum komið í, allt nýtt, fágað og fínt. Við hafnarbakkann er svo fallega rómantískur veitingastaður þar sem tveir hommar ráða ríkjum og annar þeirra er svo fínn í dömulhutvekinu að þrátt fyrir að hann gangi á venjuegum skóm ber hann sig eins og prímadonna á pinnaháhæluðum skóm og sveiflast hann um sali með húlahreyfingum Pólienskra yndismeyja.
Eins og ég hef sagt áður þá myndast strax kunningjasambönd á milli bátafólksins meðan það dvelur í sömu höfn. Aldrei er gengið framhjá bát nema fólk heilsist, fólk býður hvert öðru góðan dag að morgni, stoppar og spjallar saman og svo fram eftir götunum. En eitt virðist vera megin regla, báturinn er "þinn kastali", enginn myndi ganga um borð óboðinn auk þess sem boð um borð, á milli báta, er ekki venja þótt það gerist í undantekningatilfellum. "Kunningjarnir" tala við þig frá bryggjunni þegar þú ert um borð og þú talar við þá af bryggjunni. Undantekning er auðvitað að sjái nágranni í höfninni eitthað vera að í þínum bát og þú ekki viðstaddur fer hann um borð og reddar málinu til bráðabirgða a.m.k. Það var þó nokkur umferð báta til og frá höfninni þessa viku sem við vorum um borð og því nýtt fólk að koma og fara alla daga. Einn daginn sem oftar kom bátur inn í höfnina og á honum voru tveir karlar. Lögðust þeir fyrir utan okkur svo þeir fóru alltaf framhjá okkur þegar þeir áttu leið í og frá landi. Annar þeirra var alltaf glaðlegur, heilsaði og brosti þegar hann gekk framhjá, en hinn sem var auðsjáanleg eldri var fekar fúllyndur og tók helst ekki undir kveðjur og hafði alls ekki frumkvæði að kveðjum fyrstu dagana. Svo gerðist það einn daginn að ég var á afturdekkinu þegar hann átti leið framhjá og heilsaði ég honum þrátt fyrir fýlusvipinn á honum. Alrei þessu vant stoppaði karl og leit á mig þungbrýnn og sagði. "Þegar við siglum til Bretlands er gerð sú krafa að við höfum Breska fánann í framstafni en ég sé ekki Þýska fánann í framstafni hjá þér". Kom þetta mér svolítið á óvart og sagði ég honum eins og var að byggingalag bátsins gerði ekki ráð fyrir flaggstöng á framstafninum, en svo rann allt í einu upp ljós fyrir mér. Breiddi ég úr Íslenska fánanum sem hékk niður frá afturstönginni og sagði "annars er þetta ekki Breski fáninn heldur Íslenski fáninn. Í báðum eru sömu litir en í þeim Breska eru skárenndur líka, ekki bara kross". Fyrst varð hann eins og spurningamerki í framan en síðan breiddist bros yfir andlitið og hann sagði "já Íslenski?". Eftir það heilsaði hann alltaf með brosi á vör þegar hann gekk framhjá. Datt mér í hug að þarna væri á feðinni gamall ungliði Nasista sem enn væri fúll út í Bretana, en hann hafði aldur til að geta verið það.
Við nutum verunnar í Neumagen Dhorn og unnum, milli þess að við rápuðum um bæinn, við að hreinsa, snurfusa, þvo þvotta og dytta að ýmsu áður en haldið yrði heim. Eiginmaður hafnastjórans bauðst til að keyra okkur á flugvöllinn í Frankfurt Han, sem við þáðum með þökkum og er um það talað að hann sæki okkur aftur út á völl við bakakomuna 7. ágúst n.k. Skömmu eftir að við fórum út á flugvöll varð svo sú tilviljun að fyrrverandi nemandi minn úr siglinganámskeiðinu síðasta vetur, Davíð Þór Valdimarsson, sonur vina okkar Valdimars Jónssonar og Jónu Margrétar Guðmundsdóttur, hjólað ásamt konu sinni niður að höfninni í Neumagen og sá hvar báturinn okkar MY LILJA BEN lá bundinn og yfirgefinn, og sendi hann mér þessa mynd af sér, sem kona hans tók. Hefðum við viljað vera um borð til að taka á móti þeim, en svona gerast tilviljarnar.
Valdimar Þór rekst á LILJU BEN
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.