97. Með hland fyrir hjartað

 

Cochem  Glæsilegi virkiskastalinn í Cochem 

Maður nennir ekki að dveljast lengur en þörf krefur á stöðum eins og Brodenbach, þar sem aðstaða og öll þjónusta er léleg. Eins og fram kom í fyrra pistli var ekki hægt að tengjast rafmagni og ganga þurfti um 1.5 km. á salerni og í böð. Af þessum sökum dvöldum við aðeins eina nótt og fórum snemma, eða kl. 0825, laugardagsmorguninn 26. maí og var nú ákveðið að sigla til bæjar sem heitir Senheim. Á þessari leið eru tvær slússur með samanlagðri heildarhækkun upp á 13.5 m., sú fyrri 6.5 m. og sú seinni 7 m. Siglingin upp Mosel var notaleg að venju, margt að skoða og fylgjast með og myndavélinni brugðið upp af og til, til að fanga lítil augnablik. Eftir um 10 km. siglingu komum við að fyrri slússunni sem kennd er við bæinn Munden og varð ferðin upp það þrep tíðindalaus þar sem við hittum á flutningalegtu sem við gátum orðið samferða. Eftir að við vorum laus við þessa slússu héldum við áfram framhjá bænumTreis-Karden, sem stendur við fallega skógivaxna eyju úti í fjótinu og síðan Klotten og Cochem með sitt fræga borgarvirki og kastala, sem sést á myndinni í upphafi pistilsins.  Þegar leið að hádegi nálguðumst við seinni slússuna sem er kennd við bæinn "Bruttig-Fankel og stóð á endum að þegar við komum var verið að loka á eftir legtu og farþegaskipi sem bæði voru á "uppleið". Var ljóst að við yrðum að bíða meðan þessum skipum væri lyft og önnur látin síga. Áætlaði ég því a.m.k. 30 til 45 mín. bið. Þannig háttar til við slússurnar að frá slússuopunum liggur fljótsbakkinn annars vegar en leiðigarður að utanverðu hins vegar og eru bæði garðurinn og bakkinn yfirleitt klædd með stálþilum sem hægt er að leggjast að ef bíða þarf lengi og er þetta oft notað af legtum þegar margar eru að komast að samtímis, því að slússan tekur ekki nema eina legtu í einu, og oftast nokkra skemmtibáta. Til þess að skýra þetta betur fylgir hér mynd af þessari slússu sem nú um ræðir, tekin af "Google Earth" og ef þið stækkið hana með því að "klikka" á myndina, sjáið þið að þegar myndin var tekin var í henni ein legta og skemmtibátur, aftan við stb. megin, á "uppleið".

Slussa  Slússan í Bruttig-Frankel

Nú ákvað ég, þar sem þetta löng bið var framundan, að fara að stálþilinu stb. megin og binda þar. Frú Lilja Ben fór að taka til hádegissnarl til að snæða meðan við biðum. Setti ég upp einn "miðju enda" eins og oft er gert í svona skammtímalegu og var pollinn sem við bundum við í beina lárétta stöðu út frá festingunni á bátnum. Sagði frú Lilja að sér þætti þetta svolítið tæpt og að spottinn gæti húkkast upp af pollanum en ekki var ég sammála því, því engin hreyfing var til að kippa spottanum upp að mínu mati. Annað átti eftir að koma í ljós og hefði ég betur hlustað á frú Lilju. Slökkt var á vélum og bógskrúfu, stjórntækin aftengd og settumst við nú að snæðingi í rólegheitunum. Lítill skemmtibátur með fjórum eða fimm ungmennum hafði verið að reyna að komast í bátaslússuna sem er hægra megin við leiðigarðinn á myndinni, við stífluna, en þurft frá að hverfa út af einhverjum vandræðum sem ég vissi aldrei hver voru. Lagðist hann því um 50 m. fyrir aftan okkur við garðinn. Annar stór skemmtibátur kom nú líka og lét reka aðeins fjær. Framundan blasti lokað hliðið á slússunni og sáum við hvar skipin sem voru á leiðinni upp hækkuðu ört eftir því sem látið var renna í hólfið. Nokkru síðar hurfu þau út úr slússunni og ekki leið á löngu þar til við sáum að önnur tvö komu inn, 7 m. hærra en við vorum. Færi nú að styttast í að látið yrði renna úr hólfinu þannig að skipin kæmu niður og slússan síðan opnuð okkar megin til að hleypa þeim út. Þá fyrst kæmumst við inn og leikurinn myndi endurtaka sig, nú með okkur sem þátttakendur. Í okkar augum var þessi atburðarrás orðin hversdagsleg og eitthvað sem við fylgdumst með eingöngu til að vera viðbúin að fylgja okkar röð í þjónustunni. En svo gerast afbrigðin sem setja allt á annan endann með brjáluðu adrealinflæði.

 

Skyndilega sjáum við, þar sem við sitjum við hádegisverðarborðið, að undan slússuopinu kemur strókur af hvítfryssandi vatni og frá stróknum myndast 20 til 50 cm. há flóðbylgja sem æðir út með þilinu í átt að okkur. Þarna var verið að hleypa út vatnsmassa úr 170 m. löngu, 12 m. breiðu og 7 m. djúpu hólfi eða 14.280 m³ af vatni á ca. 10 mínútum, u.þ.b. 1.430 m ³ á mín. Það hlaut að ylgja frá því sem minna væri. (Auðvitað dregst særými skipanna sem voru í hólfinu frá vatnsmagninu, en í staðinn kemur samsvarandi þungi skipanna þannig að þrýstingurinn er sá sami). Um leið og við sjáum þetta hentist ég að stjórntækjunum og skipti engum togum að um leið og ég er að setjast í sætið skellur bylgjan og allur straumþunginn á okkur, báturinn tekur kipp og hvellur heyrist sem ég túlkaði þannig að spottin sem við lágum við hefði slitnað, en reyndin var hins vegar að hann húkkaðist uppaf pollanum. Báturinn var nú laus og rak beint afturábak í átt að litla bátnum sem lá fyrir aftan okkur með ungmennin um borð. Nú var beitt ýtrasta hraða við að ná stjórn á LILJU BEN. Tengitakkarnir fyrir stjórntækin flugu fram, viðvörunarflautið vældi, rauð ljós blikkuðu á báðum "throttlum", valtakkanum fyrir stjórntæki í brú var þrýst niður, vælið hætti og rauðu ljósin á "throttlunum" urðu stöðug, ræsilyklinum fyrir bb. vél snúið, hún í gang, ræsilykli stb. vél snúið, hún í gang, sleppt að tékka mælana en litið í skyndi á stýrisvísinn, stýrinu snúið hart í bak og stb. vél gefið 1500 rpm. afturábak, en enginn tími vanst til að ræsa bógskrúfuna.. Meiningin var að ná bátnum það vel frá kantinum að við færum fyrir utan litla bátinn og slyppum þannig við hann. Straumurinn var hins vegar sterkari og þrýsti LILJU BEN áfram að kantinum. Sá ég rétt í sviphendingu skelfingarsvipinn á krökkunum, þegar þau sáu hvert stefndi, áður en ég gaf hressilega áfram á stb. vél til að yfirvinna strauminn vitandi að ég átti á hættu að rekast harkalega á kantinn í stað þess að "rúlla yfir" litla bátinn. Þetta tókst og smá skellur varð þegar við lentum á ská utan í kantinn en með þeim hnykk náði ég að fá strauminn milli bógs og kants og ýta bógnum frá og gat nú stefnt út á fljótið. Litla bátnum var borgið og um borð hjá okkur var sviti í lófum, skjálfti í hnjám og góðum slurk af vatni rennt niður til að eyða munnþurrki. Þetta heitir víst "að fá hland fyrir hjartað". Skömmu síðar fórum við inn í slússuna með hinum skipunum og héldum síðan áfram upp Mosel og komum til Senheim kl. 13:55. Senheim er yndislegur staður og leist okkur svo vel á allt þar að við ákváðum að liggja yfir helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband