96. Brodenbach, tvírukkun og tertusneið

Groninchem 156   Börnin fara til baka með tertudiskinn 

 Við lögðum í hann frá Koblenz og inn Mozel í áttina að Brodenbach kl. 0935. Hér var ekki mikið mál að fara úr höfn, leysa bara og byrja að sigla þar sem við vorum við fljótsbakkann sjálfan. Mosel er mjög bugðótt fljót svo að oft er maður að sigla svo til samhliða og öndvert við þá leið sem maður er ný búinn að sigla. Eftir um 20 km. siglingu var komið að Lehmen slússunni þar sem okkur var lyft og nú um 12 m. Á leiðinni tókum við frammúr legtu sem ég reiknaði með að þurfa að bíða eftir við slússuna til að fara inn með, sem stóð heima. Þegar við komum reyndar að slússunni var þar fyrir stór legta í bið, en tvær voru að koma "niður þrepið" og var búið að opna fyrir þær út þegar við komum. Var ég búinn að tilkynna komu mína og beið nú rólegur eftir að stóra legtan færi inn svo ég kæmist á eftir. Nú komu grænu ljósin og legtan fór að skríða inn í slússuna og við í hæfilegri fjarlægð á eftir. Gekk henni mjög hægt að koma sér inn og var afturendinn lengi að komast inn um hliðið og þegar mér sýndist vera orðið pláss fyrir okkur hélt ég áfram með stefnuna á slússuna. En skyndilega sagði frú Lilja "hey rauðu ljósin eru komin á". Snéri ég þá strax frá enda var legtan það stór að ekki var pláss fyrir okkur líka. Tók nú við bið eftir að þessi legta var tekin upp og að skipin sem væru fyrir ofan kæmu niður. Stóð það nokkuð á jöfnu að skömmu áður en slússan opnaði aftur okkar megin til að hleypa út skipunum á "niðurleið" þá kom legtan sem við höfðum tekið frammúr og fór í biðstöðuna með okkur. Meðan við létum reka fyrir framan slússuna fylgdumst við með listæfingum þyrluflugmans sem var að úða skordýraeitri á vínekrurnar í fjallshlíðinni við slússuna. Þarna voru ekrurnar í snarbrattri hlíð og teygðu sig langleiðina upp á topp. Lenti þyrlan á litlum grasbala á bakka Mosel, rétt hjá okkur og fyllti á tankinn. Síðan fór hún á loft og flaug upp og niður sitt á hvað eftir vínekrunum, með úðastrókinn niður undan sér og var það þó nokkur "akrobatik" hjá flugmanninum í þessum líka bratta.

Nú kom að því að okkur var hleypt inn í slússuna og að því loknu var haldið áfram upp fljótið, nú á vatnsyfirborði 12 m. hærra en áður, eða í 77.5 m. y.s. Þetta var eina slússan sem við þurftum að fara í gegnum á þessum legg og komum við til Brodenbach kl. 1340. Höfnin liggur innan við garð sem liggur samhliða fljótinu og er farið inn fyrir garðinn neðan straums. Myndar garðurinn um 800 m. ílanga vík meðfram fljótsbakkanum. Eru bryggjur beggja megin þ.e. með ströndinni innan við garðinn og með innri hlið garðsins sjálfs.Var ég búinn að hringja í uppgefið símanúmer hafnarinnar og fá þá leiðbeiningu að vegna stærðar LILJU BEN ætti ég að leggjast að einhverri lausri bryggju innan á garðinum en ekki við ströndina, þar væri aðeins fært fyrir smærri báta.

Sigldum við nú inn með garðinum framhjá bátum og lausum bryggjum og ætlaði ég að finna lausa bryggju sem innst við gaðinn til að stytta okkur sporin á snyrtingu og böð, því að þeir sem liggja við garðinn þurfa auðvitað að ganga inn hann fyrst til að komast inn fyrir víkina en þjónustubyggingin hlyti að vera á eða við ströndina. Legið var við innstu þrjár bryggjurnar þannig að við snérum við og þegar við komum að fjórðu bryggju, sem var laus, kom fólk sem var á bát við fimmtu bryggju og veifaði okkur að leggjast við lausu bryggjuna og gerði sig klárt að taka við enda. Settum við nú stefnuna á hana, þótt okkur þætti nokkuð þröngt á milli bátanna og bryggjan frekar hrörleg. Gekk eins og í sögu að leggjast að og tók fólkið á móti enda hjá frú Lilju. Bryggjan var nokkuð stutt, en aðeins var hægt að lggjast við enda hennar, þannig að fram- og afturendi okkar skagaði þó nokkuð út fyrir og varð því að taka landfestar að framan og aftan alla leið upp í garðinn sjálfan og binda í þar til gerða hringi sem finna mátti í grasinu. Þegar við vorum búin að binda spurði ég fólkið sem tók svo vel á móti okkur hvar hafnarskrifstofan væri og svöruðu þau til að þau hefðu ekki hugmynd, væru sjálf ný komin. Fór ég nú að kanna aðstæður þarna á garðinum og sá fljótlega að engin aðgengileg rafmagnstengi væru í boði, þannig að ég ákvað að ganga í land og reyna að finna hafnarskrifstofuna. Gekk ég nú upp garðinn og við enda hans, í botni víkurinnar var komið að viðgerðarstöð og slipp sem var afgirt og harðlokuð á alla kanta. Fylgdi ég göngustíg aftur fyrir hana og kom þá að aðalgötu bæjarins. Beint á móti mér, hinu meginn götunnar sá ég að var skrifstofubygging og fyrir utan hana fánar á flaggstöng í masturslíki auk þess sem á plani ofan við bygginguna mátti sjá nokkrar nýmálaðar baujur. Taldi ég víst að ef þetta væri ekki hafnarskrifstofan hlytu þeir sem þarna væru a.m.k. vita hvar hún væri, svo ég setti strikið beint á bygginuna. Eftir að hafa gengið upp nokkrar tröppur kom ég í opið andyri og skrifstofu þar sem ekki var nokkurn mann að sjá. Fikraði ég mig inn eftir gangi sem var framundan og kallaði hallo af og til og skyndilega kom maður fram á ganginn og svaraði köllum mínum. Spurði ég hann hvort þetta væri hafnarskrifstofan og þegar hann svaraði því neitandi og sagði þetta vera skrifstofu fljótaeftirlitisins spurði ég hann hvort hann viss hvar hafnarskrifstofan væri. "Já hann hélt að hann vissi hvar það væri" og benti mér að ganga um 300 m. lengra inn eftir götunni, en hann hefði bara grun um að höfnin væri farin á hausinn og að húsið væri til sölu. Jæja ekki var um annað að ræða en að ganga þangað og kanna hver staðan væri og þegar þangað var komið stóð það heima, söluskilti í öllum gluggum og enginn maður á svæðinu. Ekki var um annað að ræða en að fara aftur um borð og hringja í símanúmer hafnarinnar til að finna út hvernig ganga ætti frá málum. Þegar þangað var komið eftir 45 mín. labb hringdi ég í númerið og tjáði þeim sem svaraði að við værum lent við bryggju við garðinn eins og mér hafi verið sagt að gera og að við fynndum engan rafmagnstengil á garðinum. Sagði sá sem svaraði að aðeins einn rafmagnstengill væri á garðinum, sem væri opinn fyrir gesti og einnig að ég ætti að fara á Jacobsbar en þar gæti ég gengið frá hafnargjaldinu og fengið lykla að salernum og böðum.

Var nú farið að leita að rafmagnstenglinum og fanst hann um 200 m. utar á garðinum sem var of langt fyrir minn kapal, þótt langur væri. Ákvað ég því að gefa frat í rafmagnstenginguna og "lifa" bara á rafmagni bátsins. Eftir þetta umstang ákváðum við að fara bæði í göngu og finna þennan Jacobsbar, koma okkar málum á hreint og fá lykla af böðunum. Gengum við nú inn aðalgötu Brodenbach bæjar og fundumm Jacobsbarog settumst þar utandyra yfir glas af hvítvíni. Sögðum við vertinum hvar við lægjum og að við myndum bara stoppa eina nótt, en við vorum búin að fá nóg af aðstöðleysinu og vandræðaganginum í kringum þessa höfn. Vertinn var hins vegar hinn elskulegasti og lét okkur nú hafa lykla að böðunum og kvittun fyrir legugjaldinu, sem var eins gott.

Þegar við komum um borð aftur var orðið sigið á eftirmiðdaginn og fólk komið um borð í bátana fyrir framan okkur og var það búið að slá upp borðum á bryggjunni þar sem setið var yfir drykkjarföngum. Var okkur heilsað með virktum og spurð almennra tíðinda um ferðina og ferðatilhögun. Á bátnum fyrir aftan okkur voru hins vegar roskin hjón og önnur yngri með tvö börn, um 10 ára stelpu og 8 ára strák. Settumst við nú í makindum í góða veðrinu, á afturdekkinu, og létum fara vel um okkur áður en við myndum ganga einu sinni enn í land og nú í sturtu. Þegar við vorum búin að sitja nokkra stund kom "skipperinn" á bátnum sem var fyrir framan okkur, með kvittanahefti í hendinni og spurði hvað báturinn væri langur og hvað við ætluðum að stoppa lengi. Sagði ég honum það og sagði hann þá "12 Evrur takk". Ekki var ég nú ánægður með að rukka ætti mig tvisvar fyrir sama hafnargjaldið og sagði honum að mér hefði verið sagt að greiða gjaldið á Jacobsbar og rétti nú fram kvittunina. Rak vinurinn þá upp stór augu og sagði að þetta svæði heyrði undir Klúbbinn þeirra en að Jacobsbar sæi eingöngu um svæðið með ströndinni, en bætti við að hann myndi tala við þá um endurgreiðslu, við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af því.

Eftir að við vorum búin að fara í sturtu og borða kvöldverð kom fyrir skemmtilegt atvik. Við sátum eins og oft áður á afturfekkinu og nutum síðdegisblíðunnar en veður var hlýtt og sólskin frá ört lækkandi sól. Börnin á bátnum fyrir aftan okkur höfðu fengið að fara út á lítinn gúmmíbát sem þau voru með og róa umhverfis snekkjuna sem þau voru á. Eitt skiptið komu þau róandi alveg upp að afturendanum hjá okkur og sú lítla, sem hafði orð fyrir þeim, sagði við frú Lilju á þessari fínu ensku "ég heiti Marianne, hvað heitir þú"?  Lilja sagði henni eins og var að hún hétil Lilja og var sú stutta ánægð með það. Réru þau nú til baka að sínum bát og skömmu síðar komu þau róandi aftur með þessar líka tvær stóru og fallegu tertusneiðar á diski sem þau réttu fram til frú Lilju. Tók frú Llja við sneiðunum og bað þau, um leið og við þökkuðum fyrir, að doka við meðan hán sækti disk til að flytja sneiðarnar yfir á svo þau gætu tekið diskinn sinn til baka. Var gaman að sjá hvað þau voru glöð yfir að hafa fengið að gefa okkur kökusneiðarnar og vinkuðum við forleldrunum líka í þakklætisskyni. Kakan reyndist líka hið mesta lostæti og renna seint úr minni gefendur og kakan.

Um kvöldið settum við aðra vélina í gang og létum hana mala í hálftíma til að topphlaða geymana áður en við fórum að sofa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband