95 Inn í Mosel til Koblenz,

Koblenz  Mynni Mozel og borgin Koblenz. 

 Við héldum frá Bad Honnef miðvikudaginn 23. maí kl. 0940 og héldum áfram upp Rín, nú síðasta áfangann í því fljóti því nú var áin Mosel framundan. Þar sem Mosel rennur inn í Rín er borgin Koblenz og segjast borgarbúar vera á fegursta horni Þýskalands, enda talar meðfylgjandi mynd sínu máli og getur hver metið fyrir sig hvort það er sannmæli. Enn var sól í heiði og nutum við ferðarinnar upp Rín þótt mótstraumurinn væri orðinn harður um 5 km. á klst. Sveið manni helst olíueyðslan fyrir ekkert, sem straumurinn tók til sín, en von var á betra, lítill sem enginn straumur í Mosel aðeins 1-2 km. á klst. En nú tók annað við sem við þekktum svo sem ágætlega af fyrri kynnum en það voru slússurnar. Við vorum búin að sigla frá Willemstad í Hollandi 428 km. leið eftir Rín og kvíslum hennar mót straumi jafnhallandi landslags, án nokkurra slússa, en inn eftir Mosel eru slússur með 10 til 15 km. millibili.

Það voru mikil viðbrigði að beygja inn í Mosel á fegursta horni Þýskalands, í kyrrðina og lygnuna þar úr ölduróti og straumi Rínar með allri sinni traffik. Þegar við nálguðumst Mosel-mynnið sáum við annan bát koma á móti okkur, niður Rín sem fór mikinn en þar sem við vorum komin í mynnið á undan honum sló hann af og hélt sig í humátt eftir okkur inn í ánna. Miðborg Koblenz leið framhjá á bb. en úthverfi og háskólabærinn á stb. og framundan var fyrsta slússan sem taka átti okkur upp um 3 m. Var ég búinn að kalla í slúsunna og tilynna komu mína, en slússurnar eru tvær, ein fyrir skemmtibáta og önnur fyrir stærri skip, legtur og farþegaskip. Sagði ég slússustjórninni að við værum of breið til að komast í bátaslússuna og þyrftum því að fara í þá stóru. Þannig er að bátaslússurnar eru sjálfvirkar og stórna bátamenn þeim sjálfir en hinum er stjórnað úr turni þar sem stjórnandinn sér yfir aðsiglinguna báðum megin auk slússunnar sjálfrar. Þegar við nú komum inn sáum við að annar skemmtibátur var kominn á biðsvæði þannig að við vorum orðnir þrír sem biðum eftir stóru slússunni. Reglan er sú að skemmtibátarnir eru látnir bíða þar til stærri skip þurfa á slússunni að halda og fá þá að fljóta með frítt svo lengi sem pláss leyfir, en stóru slússurnar í Mosel eru 170 m. langar og 12 m. breiðar. Lögðumst við nú í biðröðina með hinum bátunum og vorum nr. 2 í bið. Eftir skamma stund opnaðist svo slússan og út kom stór legta sem var að koma niður "tröppuna" en ekkert skip var nú sjáanlegt á uppleið eins og við sem þarna biðum. Þá gerðist nokkuð nýtt fyrir okkur. Slússustjórinn kallaði í okkur bátana og bauðst til að taka okkur alla upp fyrir 4.50 € hvern og vorum við ekki seinir á okkur allir að þiggja boðið og fórum við hver á eftir öðrum inn og gekk nú eins og í sögu að láta lyfta okkur þessa 3 m. Á meðan slússan var að fyllast og bátarnir á uppleið fórum við upp í turninn og greiddum fyrir lyftinguna.

Þegar komið var inn fyrir slússuna var ekki laust við að maður fylltist lotningu og fyndist maður kominn í annan heim. Lygnt vatnsyfirborðið er algjör andstaða við Rín, bryggjur og bátar með öllum bökkum, fólk að róa kappróðrarbátum, kæjökum og skútur að dóla fram og aftur, sem var algjörlega óþekkt á efri part Rínar vegna straumsins.

Við dóluðum nú þarna inn ána og fundum skammt innan við slússuna höfn Sejler og Motoryacht Club Koblenz og lögðumst beint að bryggju sem lá út í fljótið og var merkt sem gestabryggja og var kl. þá ekki nema 1300. Enginn var við á hafnarskrifstofunni þegar við komum en okkur tjáð að Hafni væri væntanlegur innan tíðar sem stóðst að því leiti að hann kom ekki fyrr en um kl. 1500. Gengum við frá öllum formlegheitum, spurðum um leið hvar við fyndum næstu matvörubúð og ákváðum að heimsækja hana eftir leiðsögn hans, en hann lét mig fá ljósrit af borgarkorti þar sem hann merkti inn hvar við fyndum matarbúðir. Lögðum við nú í langa göngu upp í háskólahverfi Koblenz, en höfnin er við norðurbakka Mosel beint neðan við háskólann, og tókum stefnu á matarbúðirnar. Þrátt fyrir langa leit um allt svæðið þar sem matarbúðir átti að finna var ekkert slíkt sjáanlegt og snerum við um borð aftur, ekkert voðalega vonsvikin þrátt fyrir langan göngutúr, því nógur matur og drykkur var um borð svo við þurftum ekki að hafa áhyggjur. Heimsóttum við Klúbbhúsið á bakaleiðinni og settumst þar með öðrum gestum yfir glasi af hvítvíni og slöppuðum af. Þegar við vorum komin um borð aftur og sest í makindum í sófann á afturdekkinu við smá spjall og annað hvítvínsglas kom hins vegar Hafni niður að bát og sagði að 15 m. bátur hafi verið að tilkynna komu sína og til að hann gæti fengið nóg pláss bað hann okkur að snúa bátnum með hina síðuna að og fara eins langt og við gætum með framendann þannig að "spjótið" sem stendur frammúr bátnum okkar skagaði fram fyrir bryggjunna. Sagðist hann verða á bryggjunni og leysa, og taka aftur við enda eftir að við værum búin að snúa bátnm. Nú voru góð ráð dýr, ég á öðru hvítvínsglasi og "prinsipreglan" að hreyfa ekki bátinn ef glasi er lyft. Þar sem ég vissi að Þjóðverjinn myndi ekki taka þessa "prinsipreglu" gilda miðaða við eitt og hálft hvítvínsglas var sett í gang, leyst og sigldi ég út á ána, sneri og lagðist að með öndverða síðu og var nú bundið aftur.

Skömmu eftir að við vorum búin að leggjast aftur að kom Þýskur bátur og lagðist fyrir aftan okkur en hann var rekinn frá og fékk legupláss á öðrum stað. Voru hjónin á honum hundfúl að fá ekki að liggja kyrr, en eins og áður sagði, búið var að panta pássið. Síðan kom Norskur bátur sem lagðist á sama stað og var honum vísað á legupláss undir slippkrana hafnarinnar enda öll önnur pláss fullsetin. Voru Norsku hjónin ekki með neitt múður yfir þessu og þegar ég hitti þau síðar heilsuðu þau fagnandi því við höfðum hist í fyrra í Bad Essen (pistill Bad Essen 28.09.06) og átt þá tal saman. Þau voru að koma frá siglingu um mið Evrópu, höfðu farið upp til Basel í Sviss og voru nú á heimleið til Noregs. Var það fyrsta sem þau sögðu þegar þau hittu mig "voru það ekki þið sem voruð á leiðinni í Miðjarðarhafið, og eruð þið ekki kominn lengra"?. Þegar ég útskýrði fyrir þeim að við höfðum notað langan tíma í að flakka um Holland og Belgíu, og svo sett bátinn í vetrargeymslu í Brussel voru þau ekki hissa á hvar við vorum, enda bætti ég við "við erum ekkert að flýta okkur". Tóku þau i sama streng, þau voru ekkert að flýta sér heldur. Loks kom svo "réttur bátur" og lagðist fyrir aftan okkur.

Daginn eftir notuðum við til að skoða okkur um í Koblenz, þeirri fallegu borg. Koblenz á sér merkilega sögu allt frá því 8 BC en var frá þeim tíma og fram til 1890 mikilsverð virkisborg. Byggðist hún í þríhyrning sem myndast milli Rín og Mosel á tvo vegu og virkisveggjar sem byggður var milli þessara fljóta SA við gömlu borgina. 1890 fékk borgin leyfi til að vaxa út fyrir virkisvegginn og stendur aðaljárnbrautarstöðin nú á þeim mörkum m.a. Íbúar Koblenz eru 107.000 og spannar borgin 105 km².

Eins og ég sagði í upphafi eru bakkar Mosel þar sem hún liggur í gegnum Koblenz mjög líflegir sem og áin sjálf. Á bakkanum gegnt okkur var siglingaskóli og stöðugur straumur af unglingum og krökkum í róðraræfingum á fljótinu sem höfðu gaman af að róa upp að okkur og vinka til þessara óþekktu útlendinga, en rétt er að geta þess að Íslenski fáninn er langt í frá að vera þekktur í Þýskalandi og var alltaf fyrsta uppástunga heimamanna að við værum frá Noregi. Skútur sigldu líka fram og aftur og voru heimsóknir þeirra ekki færri. Sömu megin og við lágum var baðströnd, aðeins nær slússunni sem við höfðum farið í gegnum, með sölutjöldum þar sem seldar voru veitingar af öllu tagi, og allskyns drasl. Leiktæki voru þar líka fyrir börn. Á þessu svæði var mikill erill og margmenni, og var svæðið fagurlega skreytt með ljósum þegar kvöldaði. Gengum við þangað og heimsóttum stuttlega, annað kvöldið okkar í Koblenz. Þegar við komum inn á svæðið völdum við okkur að setjast við borð hjá einu veitingatjaldinu og fór ég að barborði tjaldsins og bað um tvo bjóra. Ekki stóð á því en þegar barstúlkan lét bjóglösin fyrir framan mig sagði hún "give me the tickets". Ekki sagðist ég hafa ticket en sagðist vilja borga minn bjór, enda svæðið opið og enginn inngangur með miðasölu. Það gekk ekki og sagði hún mér að ég yrði að fara að sölutjaldi, sem hún benti á og kaupa tvo miða á 10 € hvorn, að lágmarki, og koma með til sín, þá fengi ég bjórinn afgreiddan, en hún myndi krota á miðann magn þeirra veitinga sem við neyttum, meðan við stæðum við. Að því loknu fengjum við mismuninn endurgreiddann í miðasölunni gegn því að við framvísuðum miðanum og skiluðum glösunum þangað. Hér var skipulagsgáfu Þjóðverja rétt lýst, enda engin glös skilin eftir í reiðileysi á svæðinu, fólk skilaði þeim til að fá endurgreitt.

Groninchem 144   Groninchem 145

Annað skemmtilegt atvik átti sér stað seinna um kvöldið þegar við vorum komin um borð. Farið var að rökkva þegar lítll bátur með stromp upp úr miðjunni kom skríðandi alveg hljóðlaust og lagðist fyrir aftan okkur, en báturinn sem lá þar fyrir var farinn. Tveir menn voru um borð annar frekar fullorðinn og hinn yngri og fengum við að vita að þar færu feðgar. Þegar þeir voru búnir að binda fóru þeir beint í land til að fá sér að borða. Báturinn var hreint listaverk, ekki stærri en sexæringur, allur póleraður með skínandi kopargyllingu á slíkum málmflötum. Annar málmur var stíflakkaður svo stirndi á. Fyrir miðjum bát var lítill gufuketill með eldholi fyrir brennið sem notað var til að kynda hann. Um 30 cm. fyrir aftan ketilinn var svo gufuvélin, hreint undursamlega falleg, opinn svo að skoða mátti stimplana, sveifarásinn og gliderinn sem og annað kram, og allt gljáfægt.

Tók ég nokkrar myndir af bátnum en þar sem ég er ekki sá besti í þeirri grein tókust þær kannske ekki nógu vel, en læt ég þær samt fylgja.

Þegar þeir feðgar komu aftur um borð til brottferðar mátti ég til með að hæla þeim fyrir listaverkið. Sagði sá yngri þá að hann hafi alltaf haft gaman af bátum og þar sem hann stæði í barnauppeldi og tilheyrandi lífsbaráttu hefði hann ekki efni á að kaupa olíu á mótorbát og þvi valið að brenna bara spýtum til að komast áfram. Hvert sem sannleiksgildi þeirrar sögu var þá var hér á ferðinni eitt fallegasta handverk sem ég hef séð fyrr og síðar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband