93. Frá Duisburg til Kölnar um Dusseldorf

Hafenbild~1  Höfnin í Köln með dómkirkjuna í baksýn

Eftir að hafa fyllt af olíu í Duisburg og hlustað á aðvörun hafnarstjórans að fara ekki um Dóná niður í Svartahaf vegna mafíunnar í Búlgaríu og Rúmeníu, lögðum við af stað til Dusseldorf kl. 0920 þriðjudaginn 15. maí. Var veður hið fegursta og siglingin tíðindalaus upp til Dusseldorf og komum við þangað eftir rúmlega 3. klst siglingu og bundum í "Yachthafen Dusseldorf" kl. 1325. Ákváðum við strax að liggja þar í tvær nætur og skoða okkur um. Þegar við ákváðum skömmu eftir komu að ganga til borgarinnar var okkur bent á að best væri að ganga með fljótsbakkanum meðfram feikna miklum garði og inn í borgina, en að það væri nokkuð langt eða um 4 km. Ekki settum við það fyrir okkur, enda álíka langt og göngutúrarnir sem við tökum reglulega heima, en hitinn og sólskinið var meira en við áttum að venjast þar. Var nú lagt í´ann og gengið sem leið liggur upp með Rínarbakkanum með hið fegursta útsýni yfir fljótið og nutum við gönguferðarinnar vel. Þegar komið var inn í borgina eftir tæplega klst. göngu vorum við orðin svolítið dösuð af hita og sól svo við vorum fljót að setjast við glæsilegan veitingastað á bakkanum og kasta mæðinni í smá skugga yfir hvítvínsglasi. Eyddum við síðan því sem eftir lifði af deginum við að rápa um götur Dusseldorf og átta okkur á borginni sem er mjög skemmtileg og lífleg. Ekki nenntum við að ganga til baka og tókum leigubíl því heim í bát.

Deginum eftir eyddum við svo í að skoða borgina betur, en nokkuð snarpar rigningaskúrir gerðu það að verkum að oft þurfti að leita skjóls þegar "hellt var úr fötunum".

Fimmtudaginn 17 maí yfirgáfum við svo Dusseldorf og héldum áfram upp til Kölnar sem var næsti áfangastaður, 3. klst. sigling og komum þangað kl.1215. Var ég búinn að hringja á undan okkur og panta pláss í Rheinau Sporthafen Köln og var mér þá sagt að ég yrði að hafa samband við göngubrú sem liggur yfir hafnarmynnið að Lindt súkkulaðisafninu í Köln, um 20 mín. fyrir komu, til að fá hana opnaða fyrir mig. Reyndi ég að hringja í uppgefið númer en án árangurs svo ég hringdi í höfnina og bað þá að hringja í brúnna og tilkynna komu okkar, sem þeir lofuðu að gera. Ekkert var spurt um hæðina á bátnum svo ég hélt að brúin hlyti að vera alveg niður undir vatnsborðinu. Nú nálguðumst við sundið sem liggur inn í höfnina, þar sem þetta fræga súkkulaðisafn stendur og gat ég ekki betur séð en að brúin væri a.m.k. 4 m. há svo að við myndum auðveldlega sleppa undir hana. Héldum við því áfram inn í þetta "trikky" hafnarmynni, undir brúnna og inn að langri bryggju með boxum á bæði borð. Ekki leist okkur allt of vel á því bryggjuboxin voru auðsýnilega mjög gömul, ryðguð og illa við haldið, en í Köln vildum við stoppa þannig að eitt box var valið og bakkað inn í það. Eftir að hafa bundið og athugað aðstæður vel kom í ljós að hlífðarbiti sem liggja átti með bryggjustubbnum í boxinu var farinn af helmingi bryggjunnar og stóðu festingarjárnin frá honum út til stór hættu fyrir bátinn og bættum við nú fendurum á bb. síðuna til að varna því að nokkur snerting gæti átt sér stað við þessi járn. Í Köln áttum við svo skemmtilega heimsókn og lágum þar til mánudagsins 21. maí.

Köln er fjórða stærsta borg Þýska sambandslýðveldisins eftir Berlín, Hamborg og Munich. Saga borgarmyndunarinnar byrjar á Rómartímanum 30 fyrir Krist og er borgin viðurkennd innan Rómverska heimsveldisins 50 eftir krist. Yfir 30 áhugaverð söfn eru í borginni þ.á.m. hið fræga Lindt súkkulaðisafn, sem okkur fannst lítið til koma eftir að hafa skoðað það. Íbúar Kölnar eru um síðustu áramót 986.168 auk þess sem mikill ferðamannastraumur er til borgarinnar. Í fyrstu gönguferð okkar var ekki laust við að við yrðum fyrir hálfgerðu menningasjokki yfir mannfjöldanum á götum borgarinnar en miðborgin minnti á mannfjöldann sem maður upplifir á mótum Brodway og 42. strætis New York borgar eða Picadilly í London á háannatíma ferðamennskunnar. Föstudaginn 18. maí var einhverskonar vínsmökkunarhátíð í borginni og mikill manngrúi í öllum götuveitingahúsum auk þess sem tjöldum var komið fyrir um torg og götur þar sem kneyfað var hvítvín í hverju horni. Hljómsveitir með ýmsum gleðilátum skemmtu svo fólki og var mikið fjör í bænum. Á laugardeginum og sunnudeginum völdum við að ganga í miðborgina eftir Rínarbökkum og ekki var minna um að vera þar, allstaðar manngrúi að skemmta sér og eiga náðuga stund og allt að sjá með gleði og góðum anda, enginn vitlaus eða með áreiti, annað en maður á að venjast á gleðistundum á Íslandi, sem því miður fara fyrir lítið oft á tíðum fyrir asnaskap þátttakenda.

Við heimsóttum hina miklu Kölnardómkirkju laugardaginn 19. maí og var það hátíðleg stund. Við fréttum í ferðinni að Anna Bjarnadóttir, samstarfsmaður og vinkona frú Lilju til margra ára væri látin eftir áralanga baráttu við krabbamein og tendraði frú Lilja kerti til minningar um hana í Kölnardómkirkjunni og bað fyrir sálu hennar. Kirkjan er stórfenglegt listaverk, enda var hún 600 ár í smíðum og var byggingunni ekki lokið fyrr en um miðja 19. öld. Eins og gerðist með mörg fleiri byggingarlistaverk varð kirkjan fyrir sprengjuárásum í seinni heimstyrjöldinni, en endurbyggingu er lokið. Í heildinni má sjá á byggingastíl og framkvæmdum í borginni að hún varð fyrir miklum skemmdum í loftárásum styrjaldarinnar, en eina sem þær skila til langs tíma er dauði, örkuml og eyðilegging mannanna verka. Þessi sár og það sem á eftir hefur gengið lýsir berlega hversu langt mannkynið á í land með þroskast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband