11.6.2007 | 17:35
92. Viðhald í Duisburg og Mafía
Háhýsin við höfnina í Duisburg
Við ákváðum að liggja í Duisburg yfir helgina 11. til 13. maí, en halda áfram mánudaginn 14., sem átti eftir að breytast. Byrjuðum við morguninn á að fara í ágætis yachtbúð sem er í nágrenni hafnarinnar og fengum þar keypt auka slökkvitæki sem okkur vantaði til að standast íslenskar kröfur. Einnig keyptum við inn annað smálegt fyrir bátinn, en um hádegið kom vélvirki sem við höfðum pantað og fór að skipta um loftsíur, olíu og smurolíusíur á vélunum. Var það meira og seinlegra verk en við áttum von á og lauk hann því ekki fyrr en kl. að verða 1600. Verð ég að segja að það var ódýrari þjónusta en vænta hefði mátt í okurlandinu heima því að vinnan, nýjar olíusíur og 18 lítrar af smurolíu kostuðu ekki samanlagt meira en 255 sem jafngildir tæplega 22.000 kr. Hefði vinnan ein heima kostað mun meira. Gauji-Hafni var ógurlega stoltur af sinni fallegu höfn og var óþreytandi við að hjóla um allar bryggjur og fylgjast með að allt væri í röð og reglu á svæðinu og til marks um passasemi hans er að viðgerðarmanninum okkar varð á að missa þrjá eða fjóra olídropa á dekkið þegar hann var að fara með "sump oíluna" í land og varð hann að koma með sérstakt hreinsiefni og þrífa hvern dropa þannig að ekki sæist á hvítskúruðu dekki bryggjanna.
Það var spænu hvasst þennan dag í Duisburg þótt hlýtt væri og síðdegis kom í höfnina danskur skemmtibátur og lagðist að olíubryggjunni til að taka eldsneyti og átti hann í erfiðleikum með að leggjast að vegna veðursins. Fékk hann því leyfi til að liggja áfram við olíubryggjuna eftir að eldsneytistöku var lokið og bíða með að leggjast við bryggju í höfninni þar til lægði. Seint um eftirmiðdaginn lægði svo vind, svo að Daninn leysti landfestar og flutti sig, samkvæmt ábendingu Gauja-Hafna, að bryggju fyrir aftan okkur og kom sér vel fyrir þar. Þar sem veðrið var að dúra svona mikið spurði ég Gauja-Hafna hvernig spáin væri framundan og gaf hann ekki gott í skyn. Vegna takmarkaðrar enskukunnáttu sinnar (en hann er Franskur) lýsti hann veðrinu framundan meira með handapati og látbragði en orðum og gaf til kynna að framundan væri grenjandi rigning og þrumuveður, sem stóðst heldur betur. Eftir að við höfðum borðað kvöldverðinn í besta veðri sáum við að mikil og dökk ský hrönnuðust upp á vesturhimininn og skipti skömmum toga að yfir heltist sú svakalegasta rigningarskúr sem ég hef fyrr og síðar séð með logandi eldingum um allt, nærri og í fjarlægð. Hef ég oft upplifað djöflagang líkan þessum í hitabeltislöndum og í öskuskýjum eldgosa en þessi læti toppuðu það allt. Var rigningarskúrin svo þétt að um skamman tíma sáust ekki bátar sem lágu öndvert við næstu bryggju. Jafnhliða þessu byrjuðu sírenur að væla allt um kring og fréttum við síðar að eldar hafi kviknað vegna eldinganna. Ekki var ástæða fyrir okkur að hafa áhyggjur af eldingagangnum þar sem við lágum skammt undan þrem stórum skrifstofubyggingum sem voru mun líklegri til að draga eldingar til sín en að þeim myndi slá niður til okkar. En allt gekk þetta yfir á skömmum tíma, ekki meira en hálftíma og skyndilega var komið hið besta veður.
Laugardaginn 11. maí sáum við að mikið stóð til á þeim bakka hafnarinnar sem fjær var okkur, en þar var verið að setja upp feikna mikinn útimarkað og streymdi fólk að úr öllum áttum. Góð göngubrú er yfir á hinn bakkann og fórum við nú yfir hana og heimsóttum þennan mikla útimarkað og höfðum gaman af. Fórum við svo áfram í bæinn, en það er mjög stutt, og eyddum við tímanum við að skoða okkur um í Duisbourg, sem er mjög skemmtilegur bær og fallegur. Við höfum þann hátt á að borða um borð allflesta daga en gera okkur dagamun á laugardögum með því að borða úti og velja til þess þokkalega resturanta. Þegar við gengum frá legunni lét Gauji-Hafni okkur fá kort og bæklinga yfir það helsta sem hægt er að skoða í Duisburg og ákváðum við að borða á fínum veitingastað skammt frá þar sem við lágum. Þegar við komum þangað um kvöldið var allt fullt, en okkur lofað borði kl. 2000 og mættum við þá. Var okkur vísað til borðs og svo skemmtilega vildi til að við lentum við borð við hliðina á dönunum frá bátnum sem lá fyrir aftan okkur og hófust nú samræður okkar á milli um hvaðan menn kæmu og hvert ferðum væri háttað. Kom í ljós að þau voru að koma frá Lyon í Frakklandi, en þetta voru tvenn hjón, og á leið heim til Danmerkur. Þegar við sögðum þeim að við værum á öndverðri leið og ætluðum að fara upp í Mosel og í Saar kanalinn yfir í Rín aftur og þaðan inn í Rínar-Rhon kanalinn og eftir Rhon niður í Miðjarðarhaf sögðu þeir að ég gæti farið miklu auðveldari leið. Það er upp Mosel og úr Mosel inn í Saône kanal við Nancy í Frakkland og eftir honum til Lyon og þá værum við komin í Rhon. Spurði ég hann þá um hæðartakmarkanir á þeirri leið og sagðist hann hafa þurft að fella mastursgrindina eins og ég hafði ætlað mér líka að gera og þá væri þetta ekkert mál. Bauðst hann nú að lána mér allar leiðsögubækur yfir þessa ferð sem hann og gerði þegar við komum um borð síðar um kvöldið, enda hættur að nota þær í bili a.m.k.
Eins og ég var búinn að segja frá í fyrri pistlum vorum við búin að gefast upp á að fara í gegnum Þýskaland og Frakkland og ætluðum því að fara sjóleiðina suður með Frakklandi, til Spánar og suður um Portúgal en sem betur fer létum við okkur hafa vatnaleiðina eftir að við sáum að við gætum "troðið" okkur þar í gegn, því annars hefðum við lent í miklum töfum því vestanáttir eru búnar að vera ríkjandi í mislangann tima við vesturströnd Frakklands og á Biscayaflóa allt vorið. Leiðna um Dóná niður í Svartahaf, sem var í myndinni um tíma, vorum við búin að slá af vegna varnaðarorða frá áhöfnum báta sem við hittum, um mafíuna í Búlgaríu og Rúmeníu sem notfærði sér skemmtibátafólk með allskonar kúgunum. Höfðum við gaman af því þegar við vorum að spjalla við Gauja-Hafna einu sinni og þessar leiðir komu til tals, en eins og áður sagði átti hann erfitt með að tjá sig á Ensku. Sagði hann því þegar hann heyrði þessar vangaveltur hjá okkur "no, no, no, mafía mafía, first ask for your money then bom, bom bom" og mundaði ímyndaða byssu um leið.
Sunnudaginn 13. maí byrjuðum við á að komast þí þvottavélar og þurrkara hafnarinnar og var nú allt óhreint tau þvegið og gengið frá því. Var svo tekinn einn göngutúrinn enn um bæinn til að skoða það sem okkur fannst útaf standa. Fyrir kvöldverðinn fór ég svo að undirbúa brottför daginn eftir með því m.a. mæla olíu á vélum og starta upp, yfirlíta og reyna stjórntæki. Nú brá svo við að í ljós kom að kælivatn lak út um lítið rör ofan á stb. vélinni og var auðsynilegt að það hafði brotnað við að vélamaðurinn sem skipti um olíu og síur daginn áður hafði stigið á það og brotið óvart. Því varð það að við fórum ekki á mánudeginum því að fá þurfti viðgerðarmann aftur til að skipta um rör, sem þeir gerðu okkur að kostnaðarlausu, sögðu það vera innan ábyrgðar á síðustu þjónustu.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.