10.6.2007 | 20:01
Emmerich til Duisborgar
Vatnalöggan og Gauji í Duisborg
Enn var haldið úr höfn, fimmtudaginn 10 maí kl. 0840 og þrætt sundið út á Rín. Þegar í fljótið kom gerði ég eins og lög gera ráð fyrir og hélt þvert yfir að hægri bakkanum (miðað við þá sem eru að fara upp fljótið) áður en ég beygði upp og jók ferðina. Nokkur umferð var af flutningalegtum og farþegaskipum og aðeins ofar var lögreglubátur frá Wasser Polizei að dóla úti á fljótinu. Þegar við fórum framhjá honum skömmu síðar kom einn lögreglumaðurinn út á dekkið og bandaði höndunum þannig að við skildum það bæði að hann vildi að við færum nær bakkanum og frá umferðinni, sem strax var hlýtt. Skömmu síðar skipti engum togum að löggubáturinn setur á fulla ferð á eftir okkur og rennir fram með og löggan á dekkinu myndar sig við að kalla yfir svo við drógum strax úr ferð og stöðvuðum næstum til að heyra hvað hann væri að segja. Heyrðist hann kalla að við ættum að fylgja sér og gaf ég honum merki um að það yrði gert. Setti löggubáturinn nú stefnuna á litlu höfnina í Emmerich, sem frá er sagt í síðasta pistli, og renndi þar að bryggju, og við í humátt eftir. Komu tvær löggur upp á bryggju og bentu okkur að leggja fyrir aftan löggubátinn og tóku þeir við enda og hjálpuðu frú Lilju að binda. Þegar því var lokið og búið að drepa á vélum fór ég upp á bryggjuna og heilsaði þeim. Eftir kveðjur spurði löggan sem hafði orð fyrir þeim hvort við værum með talstöð í bátnum og hvort við hefðum réttindi til að nota hana. Svaraði ég honum því að við værum með VHF talstöð og ég með alþjóðleg STCW skipstjórnarrétindi AII/1 og AII/2 og að talstöðvarréttindi væru þar innifalin. Kom á óvart að hann virtist ekkert þekkja til STCW alþjóða skipstjórnarskírteinisins, sem er þó orðin krafa fyrir stjórn á farþega- og flutningaskipum á alþjóðasiglingaleiðum um allann heim frá árinu 2001. Þessi krafa nær þó ekki til skemmtibáta og fiskiskipa, en hafi maður STCW skírteini nær það yfir þau einnig þar sem þau eru mun hærri. Bað hann mig að framvísa skírteininu og öðrum skipspappírum og fór ég sótti það sem beðið var um og báðu þeir mig að koma með gögnin um borð í löggubátinn. Þegar þangað var komið hitti ég yfirmanninn, sem sat við skrifborð með tölvu fyrir framan sig og heilsaði þegar ég kom inn. Var mér nú boðið sæti og skírteinið og skipspappírarnir tekinir og byrjaði yfirmaðurinn að skrá upplýsingar úr þeim í tölvuna. Meðan á því stóð spjallaði hin löggan við mig um hvaðan við kæmum og hvert ætti að halda, hvort að við kæmum alla leið frá Íslandi o.s.frv. Svaraði ég honum öllu sem hann spurði og skyndilega var mér rétt mappan með skipspappírunum ásamt STCW skírteininu og sagt með brosi á vör að þar með væri þetta búið, við gætum haldið áfram. Reyndar sagði löggan þegar ég ætlaði að standa upp og benti um leið á LILJU BEN ".Sigluljósið á bátnum þínum er of lágt og lendir á bakvið radarloftentið hjá þér svo við sjáum það ekki héðan". Sá ég strax hvað hann meinti en tók ekki sénsinn á að móðga hann með því að segja að hann þyrfti ekki annað en að standa upp, þá sæist það yfir radarloftnetið. Málið er að við vorum svo nærri löggubátnum, fyrir aftan hann, að í sitjandi stöðu var sjónarhornið hjá löggunni beint upp undir radarloftnetið og hefði hann séð ljósið ef hann hefði staðið upp og er ljósgeirinn niður að haffleti framan við bátinn alveg löglegur. En síðan kom rúsínan í pylsuendanum frá þeim þegar ég kvaddi þá því þá sagði hann í hálfgerðum afsökunartón. "Nú er sumarumferð skemmtibátanna ("the summer season") að hefjast fyrir alvöru á fljótunum og þá þyrpist hér inn allskonar fólk í mismunandi ástandi og sumt með engin eða vafasöm réttindi, á fjölda báta og þegar við sáum þennan ókunna fána vakti það forvitni okkar svo við máttum til að athuga ykkur frekar". Voru nú þessir heiðursmenn kvaddir og komu þeir og hjálpuðu til við að leysa og héldum við áfram för, en þeir höfðu tafið okkur um 50 mínútur. Var nú siglt áfram upp Rín í hinu yndislegasta veðri og ræddum við nokkuð á leiðinni um þetta skemmtilega tilvik. Vorum við sammála um að þetta hefði verið hið besta mál, með þessu værum við ábyggilega komin á skrá í tölvukerfi þýsku Wasser Polizei þannig að aðrir löggubátar sem á vegi okkar yrðu myndu geta flett okkur upp og séð að við værum OK. Hvort sem það er rétt eða ekki þá fengum við bara vinsamlegt vink frá þeim löggu bátum sem við sigldum frammá eftir þetta.
Á leiðinni upp í Duisburg fórum við framhjá bæunum Rees og Wesel, sem helst ber að nefna og komum að innsiglingunni í Duisburg um kl. 1500. Var nú gott að hafa leiðsögubókina með kortunum því að höfnin er langt inni í bæ. Var beygt inn í þrönga innsiglingu á bb. út úr fljótnu og siglt 2.5 km. langt sund inn í bæinn framhjá iðnaðarsvæði fyrst og síðan íbúðahúsum, görðum, markaðstorgi og beint inn í hjarta borgarinnar. Þar tók við hin glæsilegasta yachthöfn, nýbyggð og snyrtileg og kom Hafni til móts við okkur á bryggjunni og leiðbeindi okkur á legupláss og hjálpaði til við að binda. Þegar því var lokið benti hann á yachtina sem lá við hliðina á okkur og sagði með stolti á svipinn, "this is my ship". Strax fannst mér að ég kannaðist við svipinn á kalli og skyndilega rann upp fyrir mér að hann væri nauðalíkur manni sem er kallaður Gauji (heitir Guðjón) og er vinur sonar okkar. Eftir það kölluðum við hann alltaf okkar á milli Gauja og reyndist hinn almennilegasti og skemmtilegasti kall sem síðar verður sagt frá.
Í Duisburg ákváðum við að liggja fram á mánudaginn 14 maí og fá tæknimann til að skipta um loftsíur, olíu og olíusíur á vélunum og pöntuðum við hjá Gauja að fá þá þjónustu daginn eftir, á föstudegi.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.