Til Hamborgar (Wedel)

Hamburg Yachthafen

Við áætluðum nú að fara til Wedel, einnar af útborgum Hamborgar, föstudaginn 21. apríl og leystum því landfestar kl. 0930 um morguninn. Þetta var fallegur sólskinsmorgun og var ég búinn að skokka aðeins í bæinn í Brunsbuttel áður en við fórum. Eftir að við vorum búin að smokra okkur út fyrir stauravirkið fórum við á biðsvæðið fyrir slússurnar en sáum þá að rauð ljós loguðu á innsiglingarljósunum fyrir báðar. Kallaði ég í slússustjórnina og gætti mín nú að taka fram að ég vildi fá heimild til að fara út úr kanalnum og fékk svar um að bíða. Eftir skamma stund opnaðist önnur slússan og út kom flutningaskip sem hélt rakleiðis inn í kanalinn. Eftir að skipið var komið framhjá okkur fengum við hvítt ljósmerki um að halda inn í slússuna sem við gerðum og settum þar fast. Vorum við, eins og daginn áður, eina skipið í þesari stóru slússu og skipti engum togum að lokan að baki okkur lokaðist, við lækkuðum 2-3 m. niður, svo var opnað og við héldum út á Elbuna. Þrátt fyrir sólskinið var mistur í lofti þannig að vesturbakkin var illgreinanlegur en gott útsýni var til austursbakkans þar sem hótel-, frístunda- og glæsibyggingar standa í röðum með smábátahöfnum og bryggjum fyrir framan. Samkvæmt siglingareglum fórum við yfir í vestur hlið fljótsins og fylgdum svo grænum, númeruðum baujum upp eftir fljótinu. Við fyrstu baujuna sáum við, út frá streyminu við hana, að það var um 5 sjóm. straumur á móti okkur þannig að vélarnar voru settar á 3200 snúninga sem skilaði þó ekki nema 15 hnútum yfir botninn þótt sigldur hraði væri 20. Eftir því sem siglingunni miðað upp fljótið, frá einni bauju til annarar, merktu frúrnar við þær í kortinu jafnóðum og framhjá var farið. Siglingin upp fljótið var skemmtileg fyrir það að mikið var að sjá inn til landsins, mikil umferð skipa af margvíslegum toga og mjög líflegt um að litast. Umhverfið var allt orðið með öðrum brag en þegar við Örn sigldum þessa leið margsinnis fyrir rúmlega 40 árum en þá var allt grárra og fátæklegra umhorfs með fljótinu og enn sjáanlegar rústir mikilla kafbátabyrgja eftir hina miklu styrjöld sem lagði stórann hluta Þýskalands og aðra hluta Evrópu í rúst. Þær voru nú hvergi að sjá. Þegar við fórum að nálgast Hamburg Yachthafen, sem er í Wedel, þyngdist bátaumferðin og auðséð var að við vorum á leið inn í vaxandi “siglingameningu”.  Við slóum af skömmu áður en við komum að höfninni, sem er við austurbakka Elbunnar, og sigldum rólega síðasta spölinn. Framundan á bakborða voru tvö hafnarmynni að höfninni og bátar að sigla út og inn, bæði skútur og vélbátar. Eftir að hafa skoðað aðstæður vel og fullvissað sig um að innsigling okkar yrði ekki trufluð af stærri skipum var stefnan sett á ytra hafnarmynnið, en ekki var hægt að sjá inn í höfnina vegna hæðarinnar á hafnargörðunum. Þéttur skógur af siglutrjám skútanna sem þar lágu leyndu því þó ekki  að um var að ræða mjög stóra yachthöfn. Sigum við nú inn fyrir garðana og þá blöstu herlegheitin við, hver bryggjan af annari 100 – 150 m. langar í þéttum röðum, trúlega 5 til 6 hektarar af bátum af öllum stærðum og gerðum, þó flest seglskútur (sjá meðfylgjandi mynd). Víða var fólk að dytta að, snuddast í kringum og dedúa við fleyin, bátar á ferðinni fram og aftur, út eða inn og miklar byggingar fyrir þjónustu á bakkanum. Á vinstri hönd sást slippur og stór verkstæðishús. Þegar inn var komið beygðum við inn með garðinum á stjór og komum fljótlega augu á bryggju með laust pláss upp með endanum sem að okkur snéri auk þess sem laust pláss var milli tveggja báta innar með bryggjunni. Bað ég nú samferðafólkið að setja út fendara á stjórnborðssíðu og vera klárt að setja þar upp landfestar, um leið og ég beygði upp með bryggjunni og ætlaði að leggjast í auða plássið milli bátanna framundan. En þá heyrði ég sagt með hvassri röddu af afturdekkinu þar sem frú Lilja Ben stóð “nei, nei ekki þarna legstu bara að hérna út við endann, það er miklu meira pláss hér”. Af margþjálfaðri hlýðni við þennan tón, þegar honum er beitt, setti ég vélarnar í bakk, þar sem við vorum aðeins komin upp með bátnum sem ég ætlaði að leggast fyrir aftan, og stöðvaði bátinn. Ætlaði ég síðan að bakka skáhallt upp að bryggjunni þar sem frú Lilja Ben bennti en þegar hornið á bátnum var við það að koma að kom skyndilegt straumkast sem sneri bátnum frá þannig að aðra atrennu þurfti til að leggja að og gekk það vel. Var ekki laust við að skipperinn væri lítilsháttar móðgaður að vera ekki treyst til að leggjast milli bátanna fyrir framan miðað við fyrri fimleika við bryggjur, skápa og slússur. Annars lærði ég þarna, og átti eftir að kynnast betur, að þegar stærri skip sigla framhjá skemmtibátahöfnum við fljóts- og kanalbakka fylgir þeim mikið straumkast sem fer um hafirnar eftir því hvaða leið skipin sem fara hjá eru á sigla. Var nú báturinn bundinn og tengdur við rafmagn og var kl. ekki nema 1245. Siglingin hafði tekið 3 tíma og 45 mínútur.

 

Var nú farið að leita að hafnarskrifstofunni og fannst hún fljótt og var gengið frá legugjaldi og lyklar fengnir að höfn og þjónustumiðstöðvum, 12 evrur sólahringurinn. Komin var þörf fyrir að komast í þvottavélar og kom í ljós að þær voru i þvottamiðstöð upp í bæ, um hálftíma labb. Þangað þurfti einnig að fara á járnbrautarstöðina til að komast inn í Hamborg og ákváðum við að eyða því sem eftir lifði dagsins við að kíkja í borgina heldur en þvotta. Var þeim slegið á frest þar til daginn eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband