22.6.2006 | 12:30
Travemunde til Holtenau við Kiel
Nú átti að breyta heldur betur um stíl, hætta að sigla um sjó, í bili, en fara inn á fljót og skipaskurði Evrópu, frá Lubeck til Marseille. Ætluðum við að fara beint inn í Lubeckerkanal sem tengir Lubeckflóann við stórfljótið Elbu rétt innan við Hamborg. Hins vegar var mér sagt á hafnarskrifstofunni þegar ég var að gera upp reikninginn vegna viðgerðanna miðvikudaginn 19. apríl að slússa í kanalnum væri skemmd eftir vatnavexti sem rekja mátti til mikilla rigninga í mið- Evrópu fyrir nokkrum vikum. Vegna þessa breyttum við um áætlun og ákváðum að fara til baka út Lubeck flóann, gegnum Fehmarnsund, vestur með Holsteinlandi og í Kielarskipaskurðinn, eins og hann er almennt kallaður, en hann heitir reyndar Nord-Östesee Kanal, sem þýða má Norður- Eystrasalts skurður. Kl. um 1030 voru landfestar leystar og siglt að olíutökustöðinni í Travemunde og fyllt af olíu og kl. 1130 var haldið út í Lubeckflóann sömu leið og við höfðum komið fyrir fjórum dögum. Settum við stefnuna aðeins vestar og stefndum beint á fyrsta leiðarpúnkt fyrir sundið milli Fehmarnseyjar og lands, undir hina glæsilegu Fehmarnbrú (sjá meðfylgjandi mynd) sem ég sagði frá í Hvar er himinn og hvar er haf? Að venju var stillt á 18 hnúta hraða og var hægur andvari af suð-vestri og skýjabakki sýnilegur yfir landinu, en veðurspá var góð. Þegar við beygðum á bak inn í Fehmarnsundið blasti brúin við framundan í mikilfenglegheitum sínum og um leið varð ljóst að nokkuð þurfti að hafa fyrir siglingunni í gegnum sundið. Það var bullandi vesturfall (þ.e. harður straumur til vesturs), á móti öldunni svo nokkuð erfitt var að hemja bátinn á stefnunni auk þess sem krökkt var af smábátum við skak og sjóstangarveiði og voru flestir undir brúnni og vestur af henni. Framundan var auðséð að skyggnið minnkaði vegna rigningar, auk þess sem vindur fór að vaxa lítilsháttar af suð-vestri. Þegar við komum vestur úr sundinu hafði ég hugsað mér að taka stefnuna beint á mynni Kielarfjarðarins en breytti nú vegna vaxandi vinds og regnskúranna sem voru framundan og fór grynnra með Holsteinlandi til að njóta landvarsins. Á bakborða fórum við framhjá Heligenhafen einu varahöfninni sem við áttum núna mögulega á leiðinni til Holtenau. Ferðin gekk eins og í sögu og það eina sem þurfti að gæta að, auk tækja bátsins, voru bátar og skip sem nóg var af á leiðinni. Þegar við komum svo inn í Kielarfjörðinn jókst traffikin að mun og vorum við nokkuð montin þegar við skriðum frammúr hverju skipinu á fætur öðru á leið okkar inn fjörðinn. Vindin lægði og það hætti að rigna svo nú fóru borgarbyggingarnar í Kiel að sjást framundan og á stjórnborða kom í ljós innsiglingin að stóru skipaslússunum inn í Kielarskurðinn, en þar sem við vorum ákveðin í að liggja við biðkæjann í Holtenau um nóttina og heimsækja borgina Kiel, sem ekkert okkar hafði komið til, lögðumst við að yachtbryggjunni í Holtenau kl. fjögur eftir stórgóða ferð. Eftir að búið var að binda var svipast um eftir hafnarskrifstofu en hana var enga að sjá, en skömmu síðar kom hafnarvörður á bíl og rukkaði hafnargjaldið, 6 evrur, og lét mig fá kort og leiðbeiningar yfir ljósasystemið sem gildir fyrir umferðina að og frá slússunum og í skurðinum. Eftir það lögðum við land undir fót og skelltum okkur til Kielarborgar í skoðunarferð. Framundan var fyrsta kanalsiglingin og hún í gegnum stórskipaskurð.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.