20.6.2006 | 14:24
Páskar og internettenging
Páskahátíðin í Travemunde fór vel og leið við skoðun á borginni auk þess sem nú í fyrsta sinn í ferðinni var verslað eitthvað að ráði þar sem komist var á útsölu í fjölbreytilegri fataverslun. Vorum við búin að veita því athygli í ferðinni að litaval okkar Íslendinga í úlpum og öðrum útifatnaði er ekki beint líflegt, svart, brúnt eða grátt svo dæmi séu tekin. Það sem einkennir hins vegar siglingafólk er skjólfatnaður í sterkum litum enda betra að vera vel sýnilegur ef eitthvað kemur fyrir. Annað sem þurfti að gerast var að komast á netið til útréttinga. Var nú fartölvan tekin og labbað í land, eins og áður hafði verið gert, til að komast inn í Hótel-lobby og nýta sér þráðlausa tengingu sem þar er oftast hægt að finna. Var nú stefnt á Maritime Strandhótel sem áður er talað um við innsiglinguna og komið þangað eftir tæplega klst. göngu. Móttökusalur hótelsins er stór og glæsilegur eins og búast mátti við, með verslanir, setukrókum með leðurhúsgögnum og lobby-bar sem var lokaður svo snemma dags þannig að ekki var hægt að setjast þar inn eins og önnum kafinn viðskiptamaður í tölvusamskiptum. Var því sest í einn setkrókinn í lobbyinu og tölvan ræst. Þráðlaust netsamband náðist strax en því miður, það þurfti að hafa aðgangsorð og leyniorð frá hótelinu til að komast inn. Fór nú undirritaður að gestamóttökunni og sagði, þegar elskuleg stúlka í móttökunni snéri sér að honum, sorry I was trying to connect my laptop to the internet but I need a password and login key. Oh svarði stúlkan let me call the Reception Manager for you og snérist á hæl. Fór að fara um undirritaðann sem bjóst nú við að verða rekinn út úr hótelinu en þá var managerinn kominn svo ekki tjóaði annað en að endurtaka það sama og sagt var við stúlkuna. OK sagði móttökustjórinn, let me show you into the businesscenter where you can have a computer, printer and all nessecary office facilities, and work in peace. Furðu lostinn vinkaði ég frú Lilju Ben að koma og vísaði móttökustjórinn okkur inn glæsilega skrifstofu sem var hljóðeingruð frá skarkala hótelmóttökunnar. Kveikti móttökustjórinn á tölvunni í skrifstofunni, setti upp internetsamband og sagði please og lokaði hljóðlega á eftir sér þegar hann gekk út. Var nú gengið frá öllum internetmálum í rólegheitunum, þakkað fyrir sig og kvatt að lokum. Aldrei var spurt hvort við værum gestir eða á einhverjum fundi í hótelinu heldur meðhöndluð sem slíkir. Hugsanlega vegna þess að orðspor þjónustunnar er mikilvægt út á við, hver sem á í hlut.
Nú er það svo, í nútímasamfélagi, að mjög mikið hagræði er af því að geta komist í netsamband á svona ferðalögum til að geta sinnt reglubundnum viðskiptum og fylgst með. Virðast símafyrirtæki vera að uppgötva þessa þörf í skemmtibátahöfnum og því hægt í mörgum þeirra að komast í samband fyrir tiltölulega lágt gjald, sé maður með þráðlaust tengimodem. Þegar tölvan er búin að finna sendi með opinn aðgang og búið er að tengjast honum kemur upp síða sem býður upp á skráningu í netþjónustu í sólahring, viku, mánuð eða ár. Þannig getur fólk sem færir sig títt á milli staða keypt sér dag í einu þar sem ekki er að treysta að sama símafyrirtækið sé með þjónustuna í næstu leguhöfn. Einnig er ekki gefið að það séu símafyrirtæki sem bjóði þessa tengingu heldur getur það verið eigandi hafnarinnar en flestar skemmtibátahafnir eru í einkaeign siglingaklúbba sem taka jafnframt við gestasiglurum.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.