18.6.2006 | 14:20
Travemunde í sól og sumri
Við lukum við að binda í Travemunde kl. 1555 og fundum út að leguplássið var ekki mjög vel valið því það var utarlega við bryggjuna og því vinsæll staður fyrir máfa að setjast á með tilheyrandi fuglaskít. Þar sem í fljótu bragði var ekki sýnilegt annað laust pláss var farið upp í klúbbhús á hafnarbakkanum, þar sem hópur fólks var að sötra bjór, og spurt til vegar að hafnarskrifstofunni og hvort við gætum fengið aðgang að klósetti, enda orðið mál eftir fjögra tíma siglingu með bilað klósett. Tvær huggulegar konur sem sátu á bekk í sólskininu sáu aumur á ferðalöngunum og lánuðu lykla að klósettunum og létti fólk því á sér. Gengið var svo samkvæmt ábendingu klúbbgesta að hafnarskrifstofunni og viti menn, þótt nú væri laugardagur fyrir páska, fundum við hafnarstjórann og aðstoðarmann hans sem gengu frá formlegum nauðsynjamálum svo nú höfðum við legu og lykla að öllum herlegheitunum, salernum, böðum, þvottavélum og hliðum hafnarinnar. Þegar við sögðumst þurfa að fá viðgerð á klósettgræjum bátsins vorum við minnt á að það væri enga þjónustu að fá fyrr en þriðjudaginn eftir páska og lögðum við inn gott orð um það.
Allt í einu vorum við komin í sumar og sól, í bæ með iðandi mannlífi svo stefnan var sett á gönguferð til að kynnast nánar staðnum. Örstutt var að hliði hafnarinnar og þegar komið var út um það tók við gata sem lá meðfram fiskihöfninni þar sem bátarnir lágu í raun við götubrúnina. Voru fiskimennirnir um borð að bjóða gestum og gangandi, vöru sína til kaups. Krökkt var af fólki að spóka sig í góða veðrinu, velta fyrir sér furðukvikindum hafsins og versla í soðið. Á hina hönd götunnar stóðu tjöld og skúrar þar sem boðið var uppá fiskirétti og annað góðgæti að gæða sér á að ógleymdum bjór og þýskum vínum og var ekki síður fjölmennt þar, þar sem fólk naut þess að sitja og horfa á mannlífið streyma fram og aftur að ógleymdum skipum og snekkjum sem stöðugur straumur var af, inn og út Travefljótið, en stóskipahöfnin liggur innar en aðalhluti bæjarins. Þegar fiskihöfninni sleppti var komið á mjög svo líflega strandgötu sem liggur með fljótinu endilöngu með hinum fjölbreytilegustu veitingastöðum, litlu Tívolí fyrir börn og fullorðna og verslanir af öllum toga. Nutum við þess nú að rölta um í mannmergðinni og góða verðinu eftir kuldann og fábreytnina í dönskum þorpunum sem við höfðum heimsótt.
Um kvöldið var snætt á veitingastað við sjávarbakkann, sem bar hið vafasama nafn Lúsífer og vorum við búin að lofa okkur að fyrsti rétturinn í Þýskalandi skyldi vera Winarsnitchel sem pantað var. Var það frekar misheppnuð máltíð svo bið varð á að það væri endurtekið. En þegar komið var um borð gerði undirritaður afdrífarík mistök. Vandræðin með klósettið voru ofarlega í huga og alltaf verið að reyna að finna út hvað gæti valdið. Var búið að fara margsinnis yfir leiðslur og krana í botni bátsins og þar með var einn krani sem hafði óútskýrt hlutverk og opnaði ég nú fyrir hann til að reyna að átta mig á hvort hann spilaði einhverja rullu fyrir systemið. Kom í ljós að svo var ekki en þá gerði ég afdrifarík mistök, ég gleymdi að skrúfa fyrir kranann aftur og segir í næsta pistli frá afleiðingum þess.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.