14.6.2006 | 14:19
Hvar er himinn og hvar er haf?
Í logninu sléttist sjórinn ótrúlega hratt en þó var lítilsháttar undiralda, smá og meinlaus. Himininn var heiður en með mistur í lofti svo að skil milli himins og hafs urðu ógreinilegri með hverri mínútunni sem leið. Kaupskipin framundan, bæði á stjór og bak, gáfu þó sína viðmiðun við óskýran sjóndeildarhringinn og fylgdumst við grannt með þeim sem stefndu fyrir okkur. Ekki þurfti að breyta stefnu þeirra vegna og þegar siglt var í gegnum kjölrákina frá þeim ókyrrðist sjór og tilbreytingaleysið var rofið með lítilsháttar ruggi og róli. Skömmu síðar voru þau að baki og var engu líkara en að siglt væri í mjólkurhvítu tómi þar sem spegilsléttur sjórinn og mjólkurhvítt mistrið rann í eina heild. Tekið var fram snarl til snæðings og rúmum klukkutíma eftir að vindmyllunum sleppti fór smámsaman að móta fyrir dökkri rönd framundan, strönd Fehmarneyjar. Þegar nær dró var stefnan sett inn Mecklenburgerflóa og áfram inn Lubeckflóann. Á hægri hönd birtist nú Fehmarnsundið, milli eyjarinnar og meginlandsins, með sinni miklu og glæsilegu bogabrú sem er mikið stálgrindarmannvirki og gnæfir yfir sundinu. Siglt var grunnt með þorpunum Dahme og Kollenhausen og þaðan beint á mynni Travefljótsins. Samkvæmt leiðsögubókinni mun hinn 36 hæða skýjakljúfur, sem hýsir stærsta hótelið í Travemunde, verða mest áberandi kennileytið fyrir sæfarendur sem koma inn Lubeckflóann, en það stendur við vesturmynni fljótsins. Reyndust það orð að sönnu því það reis eins og einmana stólpi, á óvissum mótum hafs og himins, þegar við skriðum inn flóann. Á flóanum var mikil bátaumferð, kænur og stærri bátar við fiskveiðar eða á siglingu með túrista sem og skútur undir fullum seglum, þótt enginn væri vindurinn, þannig að flestar sem voru á hreyfingu yfir höfuð voru undir vélarafli. Þetta kostaði mikla árvekni og tíðar sveigjur og beygjur og varð stundum ekki hjá því komist að fara nærri sumum og þá að draga úr ferð vegna frákastsins.
Nú var komið að því að taka höfnina og voru umskipti mikil frá fyrri legustað í Gedser. Baðströnd var á stjórnborða með iðandi lífi af gangandi fólki og síðan var siglt inn með strangötu borgarinnar með veitngastöðum, verslunum, leiktækjum og síðast en ekki síst fjölmenni miklu að spóka sig í vorsólinni sem var hlý og mild. Mikil umferð var um höfnina af bátum, snekkjum, stærri skipum og ferjum á þönum fram og aftur. Það sem vakti þó sérstaka athygli okkar var ótrúlegur sægur af flugdrekum, af öllum stærðum og gerðum, sem sveimuðu um loftið, yst með strandgötunni og umhverfis skýjakljúfinn. Fréttum við síðar að hér var um alþjóðlega flugdrekakeppni að ræða. En ekki þýddi að glápa út og suður, það þurfti að einbeita sér að innsiglingunni og finna legupláss í skemmtibátahöfn BÖ skipasmíðastöðvarinnar, en þar höfðum við ákveðið að leggjast, enda með bilað klósett sem ráða þurfti bót á. Bennti allt til að bilunin væri í leiðslum frá úrgangstankinum. Þegar skemmtibátahöfnin kom í ljós var mikið kraðak af snekkjum og skútum út um allt og þar sem við vorum ókunnug var rennt inn í eitt af fyrstu leguplássunum sem sýilegt var og bundið þar.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.