13.6.2006 | 21:04
Með vindmyllur á bæði borð.
Föstudaginn 14. apríl, föstudaginn langa, var enn vestan hvassviðri sem samkvæmt leiðsögubókinni boðar krappann sjó í sundinu milli Lollands og Fehmarn eyjar í Þýskalandi. Hins vegar leit út fyrir að veðrið ætti að ganga niður aðfararnótt laugardagsins svo von var ti þess að geta siglt daginn eftir. Fann ég að samferðarfólkið var orðið hundfúlt að hanga í Gedser í kulda og trekk með lítið fyrir stafni. Var tekin smá törn í að þrífa bátinn að utan þótt kalt væri, en afturendinn var orðinn nokkuð sótugur eftir vélavandræðin sem við lentum í fyrir Hundested og Dragör. Andinn var þó góður um borð og kvöldum eytt við spjall og spil. Nú vaknaði spurningin hvort svona snekkjufólk þurfi að uppfylla öll þau formlegheit sem fylgir siglingum stærri skipa milli landa? Samkvæmt leiðsögubókum er skylt að tilkynna væntanlega komu í lögsögu komulandsins, og áætlaðan komutíma í höfn. Tilkynna þarf fjölda og nöfn þeirra sem eru um borð, tollskyldan varning og bíða eftir klareringu inn í landið o.s.frv. Þar sem nú var að koma að frumraun okkar í millilandasiglingu datt mér í hug að rölta yfir til þýsku skútunnar sem lág fyrir aftan okkur og taka skipperinn þar tali, en þetta var auðsynilega vant fólk í flakki milli landa. Sagði ég honum að við áætluðum að sigla daginn eftir yfir til Travemunde og spurði hvaða ráðstafanir við þyrftum að gera gagnvart þýskum yfirvöldum. Ráðstafanir, tilkyningar? hváði hann hissa. Hreint ekki neitt, þú siglir bara yfir sundið og inn í þá höfn sem þig lystir og meldar þig við hafnarvörðinn, alveg eins og hér. Þetta er þá mun einfaldara og þægilegra en búist var við og veittum við því athygli, eftir að komið var til Þýskalands, að hafnarstjórar skemmtibátahafnanna sem komið er í eru flestir með skilti utan á skrifstofunum sem þýðir að þeir eru viðurkenndir af lögreglu og tolli sem umboðsmenn þeirra til passaskoðunar og tollafgreiðslu, enda allar hafirnar lokaðar.
Um kvöldið var gerð siglingaáætlun yfir til Travemunde eftir þeirri leið sem hafnarstjórinn hafði kynnt mér og eftir huggulegt kvöld var gengið til náða. Morguninn eftir var einu sinni enn litið til veðurs og því miður smokkurinn á stönginni stóð stífur eins og áður svo svipur áhafnarinnar dapraðist nú heldur betur. Enn var gengið upp að hafnarskrifstofunni og veðurkortin grandskoðuð, jú veðrið á að vera gengið niður. Kl. 1000 fór að verða merkjanlegt að brot fór að koma í vindpokann svo kl. um 1030 var tekið af skarið við siglum. Farið var í að undirbúa siglinguna eins og áður hefur verið lýst. Kl. um 1130 færðum við bátinn að olíutanknum í höfninni til að fylla á og var kortinu rennt í sjálfsalann, slangan tekin og stúturinn settur í sponsið og byrjað að dæla. En viti menn næstum strax stöðvaðist dælan og kom í ljós að tankurinn var tómur, og fengum við aðeins 14 lítra. Ekki setti það þó strik í reikninginn því eldsneyti var nóg á bátnum fyrir tvöfalda þá vegalengd sem áætlað var að sigla og var því sett í gang, sleppt, bátnum snúið og haldið út úr höfninni. Þegar komið var út úr hafnarkjaftinum var stefnan sett á bauju skammt undan og þaðan beint í vestur, 270°. Voru vélar stilltar á 2.800 snúninga og brunaði nú báturinn á 19 hnúta hraða mót vindi og smáöldu sem hvítaði í. Áttum við að koma að næstu bauju eftir 15-17 mínútur og stóðst það og þá var beygt þvert á bak í hásuður. Vorum við nú óðfluga farin að nálgast vindmyllurnar 79 sem gnæfðu við himinn suðvestur og vestur af okkur. Samhliða lægði vind og var nú komin hæg gola af suðvestri. Eftir 2.5 sjóm. siglingu var stefnu breytt á austur-enda Fehmarneyju norð-vestan við Lubeckflóann. Framundan var vindmylluskógurinn sem hækkaði og stækkaði óðum eftir því sem við nálguðumst en rétt er að geta þess hér að vindmyllur framleiða um 15% af allri orkunotkunn Danmerkur. Engin vindmylla virtist vera beint í stefnunni en nokkuð var ógnvekjandi, en um leið glæsilegt að stefna inn í þessa fylkingu turna með risaspöðum sem við hvern snúning virtust sveiflast rétt yfir sjávaryfirborðinu. Reyndin er, sagði hafnarstjórinn í Gedser mér, að þegar spaðarnir eru næst sjó eru þeir í 40 m. hæð, því þyrftum við ekki að vera hrædd um að þeir rækjust í okkur þótt nærri væri farið. Á bakborða kom í ljós bátur við einn turninn. Var opin hurð á palli sem byggður er neðst á vindmylluturnunum og menn þar á stjákli, trúlega við viðhald og eftirlit. En skyndilega var vindmylluskógurinn að baki og opið haf fyrir stafni. Komið var logn og framundan sáust kaupskip á ferð til vesturs eða austurs, enda sundið framundan aðal flutningaleiðin til og frá hinum annasama Kilarskipaskurði.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.