Áfram frá Dragör til Gedser

Krítarklettarnir við Mön

Þriðjudaginn 11. apríl var fyllt at olíu og haldið út úr höfninni í Dragör áleiðis til Nysted á Lollandi, en eftir að hafa skoðað kort og lesið leiðbeiningar um höfnina þar ákváðum við að stefna á Gedser á Falster, sem er á syðsta odda (jafnframt hluta) Danmerkur. Það var komin suð- vestan gola og bjart veður svo stefnan var sett yfir Köge Bugt, laust af Höjerup og þaðan yfir Fakse Bugt (já þeir eiga Faxaflóa líka þarna), fyrir Mön og suður með Falster, með stefnu fyrir Gedser Odde. Þetta var 85 sjóm. vegalengd og brunaði nú báturinn á 18 hnúta hraða suður með ströndinni. Þótt aðeins gáraði sjó þegar við vorum yst í Kögebugt annars vegar og Fakse Bugt hins vegar varð lítið vart við það um borð, en hreyfingar svona báts á þessum hraða er líkari hristing en velting. Í Köge Bugt var nokkuð af smábátum að veiða sem hafa þurfti gát á að rugga ekki of mikið með glannasiglingu en annars nutum við fegurðar hafsins, himinsins og landsins sem leið hjá í vorbúningi. Að baki var vindmylluskógurinn undan Amager og af og til sáust vindmyllur inn til landsins í þéttum “fylkingum” en því minnist ég á þær sérstaklega að margir telja þær vænlegri kost til virkjana en fallvötn. Get ég ekki fallist á það því að ekki spilla þær minna ásýnd lands þegar “þéttir skógar” af vindmyllum fanga augað. Við skriðum þétt undir hinum einstæðu kalk-klettum sem skaga mót austri á eyjunni Mön, en þeir eru krít- hvítir og kjarri vaxnir að ofan. Virkilega fallegt á að horfa en þetta er víst eina klettabeltið sem til er í Danmörku. Á ferðinni suður með austurströnd Falster skriðum við fram úr fallegri skútu undir fullum seglum og var þýskur fáni við hún. Vinkuðu áhafnir hverri annarri.

 

Þegar komið var að Gedser Odde var kominn stinningskaldi úr vestri og þar sem þarna við oddann er sterkt vesturfall ýfðist sjór nokkuð þannig að draga varð úr ferð og fór þá vel um alla. Gedser höfn er á bláoddanum og er þröng innsiglingarenna úr hásuðri inn að höfninni, sem er aðallega ferjuhöfn og fiskihöfn. Samkvæmt leiðsögubókinni er skemmtibátum bannað að leita hafnar í henni, enda er sérstök skemmtibátahöfn lengra upp með oddanum að vestanverðu. Ekki má sigla rennuna þegar ferjur eiga leið um, en við vorum ný búin að sjá eina fara út áleiðis yfir til Þýskalands, svo við lögðum í hana. Rennan er vel vörðuð af baujum, grænum á stjór og rauðum á bak, auk þess sem innsigilingamerki leiða inn hana. Þegar komið var alveg upp að hafnarkjaftinum tók við önnur baujuröð sem leiddi þétt upp með vesturströnd Gedser Odde, fyrir grunn sem þar er og inn að skemmtibátahöfninni. Þegar við renndum inn í höfnina sáum við fyrst eintóma “skápa” á vinstri hönd og fór hrollur um okkur við tilhugsunina að liggja í þeim, en sem betur fer kom síðan í ljós bryggja með öllum suð-vestur hafnargarðinum og var enginn bátur við hana, utan eins, sem var auðsynilega safngripur, gamall trébátur anno 194?, mjög vel við haldinn. Kl. 1400 þegar búið var að binda var farið að hitta hafnarvörð og ganga frá leguplássinu. Áætlun ferðarinnar var að liggja þarna næsta dag og halda síðan áfram til Lubeck í Þýskalandi, en nú gripu náttúruöflin í taumana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband