4.6.2006 | 21:27
Kaupmannahöfn til Vordingborgar?
Föstudaginn 7. apríl var komið besta veður hæg gola af suðvestri og bjart svo ákveðið var að halda af stað um kl. 1100. Var ljóst að gestir okkar Lonnie og Örn Egilsson voru spennt að kynnast siglingaþætti skemmtibátalífsins. Eftir að búið var að leysa landfestar var sigið út úr skápnum og kanalmótin notuð til að snúa bátnum til að fikra sig út kanalana. Ekki er ástæða til að fjölyrða um siglinguna út Kaupmannahöfn þar sem innsiglingunni var gerð þokkaleg skil. Þegar komið var út úr Lynettuhlaupinu var stefnan sett í fyrsta leiðarpunktinn og hraðinn stilltur á 18 hnúta. Báturinn rann nú ljúflega frá einum leiðarpunkti til annars, suður með Amager og var nú mikil og góð breyting á öllu því áhöfnin var nú orðin fjórir í stað tveggja. Létti það mikið við brottförina og gafst nú tækifæri að skipta um sæti við stjórnvölin og ákváðum við Örn að skiptast á um að manna þau hálftíma í senn. Þegar komið var vel suður fyrir Dragör, sem er á suðaustur Amegereynni, fast við Kastrupflugvöll var stefnt inn í Kögebugtina til að njóta landvarsins og útsýnis til landsins. Höfðum við fram að þessu siglt þétt með grænu baujunum sem varða leiðina með austurströnd Amager en nú var stórskipaleiðin yfirgefin og farið samkvæmt settri áætlun. Allt gekk nú eins og í sögu, sól skein í heiði, skip skriðu framhjá á hinum ýmsu leiðum auk þess sem smábátar vor hér og þar við veiðar og varð að gæta þess að fara ekki of nærri þeim vegna frákastsins frá Lilju Ben sem er nokkurt á þessari ferð. Þá varð alltíeinu allt vitlaust. Það byrjaði með því að fyrst heyrðist sakleysislegt flaut frá stjórnborðinu og var Örn við stjórnvölin. Nú er það svo að DECCA staðsetningartækið sendir frá sér flaut þegar s.k. keðja dettur út og kviknar þá rautt ljós á því. Einnig varar það við með flauti ef spenna á rafgeymunum verður of lág eða of há eða annað það er að gerast sem gerir varasamt að fara eftir því. Hélt undirritaður fyrst að þaðan kæmi hljóðið en ekkert var rauða ljósið á tækinu og það í eðlilegu standi. Þá rak ég augun í að rautt ljós sem sýnir að stjórtæki vélanna séu tengd var slokknað fyrir bakborðsvél og snúningshraði hennar fallinn niður í 1500. Allt var að sjá í lagi með stjórntæki stjórnborðsvélar og gekk hún með óbreyttum hraða. Var nú reynt að ná stjórntökum á bakborðsvélinni bæði í stjórnklefa og einnig á Fly Bridge, en allt kom fyrir ekki rauða tengiljósið kom ekki og hún hélt sínu striki 1500 snúningum. Með þetta í stöðunni var ákveðið að snúa við og halda til Dragör sem nýlega var farið framhjá. Var það gert og haldið þangað með minnkaðri ferð, 9 hnúta hraða. Þegar komið var í innsiglingamerki Dragörhafnar var ákveðið að drepa á bakborðsvél og fara inn á stjórnborðsvélinni einni og var það gert, snúningshraðamælirinn féll að sjálfsögðu á 0 og innsiglingunni var haldið áfram. Skammt undan hafnarmynninu var báturinn enn á 9 hnúta hraða svo draga varð úr með því að hægja á stjórnborðsvélinni. Þótt hægt væri á vélinni fékkst hún ekki til að ganga hægar en 1500 snúninga og var þá ljóst að hún var einnig stjórnlaus og er það Guði einum að þakka að við vorum ekki komin inn í höfnina á þessum hraða með stjórnausar vélar. Var snarlega snúið frá og siglt út úr innsiglingunni að grænni bauju sem markaði ystu mörk hennar. Sáum við nú að við höfðum ekki möguleika á að stjórna bátnum þar sem stjórntæki vélanna voru kexrugluð. Hringdi undirritaður nú í hafnarstjórann í Dragör og tilkynnti honum tíðindin og óskaði eftir að fá bát út til að draga okkur til hafnar. Tók hann vel í það og kvaðst koma innan stutts tíma, eftir að hann hafði verið upplýstur um stærð og þunga Lilju Ben. Bað hann okkur að koma til móts við sig þegar við sæjum hann koma út úr höfninni. Var nú beðið skamma stund en þá kom dráttartrilla hafnarinnar út um hafnarmynnið og var stefnan sett til móts við hana. Þegar komið var í námunda við hafnartrilluna var slökkt á stjórnborðsvél, en hvað nú. Allir mælar stjórnborðsvélar sýndu að hún væri stop en ekker gerðist, vélin gekk áfram. Uppgötvuðum við þá að sama var með bakborðsvélina hún hafði þá gengið áfram allan tímann þrátt fyrir að mælitækin sýndu stop. Nú varð að hafa snör handtök, snúið var frá í snarhasti og enn haldið út og ætla ég ekki að reyna að lýsa furðusvipnum á hafnarstjóranum um borð í dráttartrillunni þegar hann sá okkur bruna frá. Næst hentist undirritaður frá stjórnvelinum aftur á dekk, reif upp hlerann niður í vélarúmið, þar sem báðar vélar rumdu sinn söng eftir að hafa gefið frat í allt stjórnkerfi, og skrúfaði fyrir olíurennslið til vélanna. Skömmu síðar dó á báðum vélum og dráttartrillan tók okkur í tog og lagst var að bryggju í Dragör. Þegar þessu ævintýri öllu var lokið tilkynnti hafnarstjórinn að drátturinn og hafnargjöldin í Dragör myndu ekkert kosta því þetta hefði verið alveg einstakt havarí eins og hann kallaði það. Í næst pistli Dragör mun ég segja ykkur frá hvað kom í ljós að olli þessum glundroða.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.