2.6.2006 | 18:21
Í Kaupmannahöfn
Dagana 5. og 6. apríl lágum við í Kaupmannahöfn og hreyfðum okkur hvergi vegna leiðindaveðurs. Það var sunnan og suðvestan stinningskaldi með hvössum kalsaskúrum svo okkur fannst ekkert spennandi að fara að sigla suður eftir. Á svona skemmtibátalífi er ekkert kappsmál að sigla eða eins og sagt er að flengja sjóinn út og suður heldur að njóta þeirra staða sem maður heimsækir og siglingarinnar þegar maður siglir þannig að fólki líði vel og geti notið útsýnis til landsins þegar það líður hjá.
Kupmannahöfn er sú borg sem flestir Íslendingar heimsækja og þekkja vel þannig að ekki er ástæða til að fjölyrða sérstaklega um hana í þessum pistli. Auk rétta nafnsins er hún þekkt undir hugtökunum fyrrum höfuðborg Íslands, borgin við sundin og Amsterdam norðursins vegna síkjanna sem einkenna þessar tvær borgir. Dagarnir fóru í að rápa og glápa um gamlar slóðir, sötra bjór á veitingastöðum við Straujið, sýna sig og sjá aðra, kíkja í búðir s.s. Nonnabúð (Magasin du Nord), til Ivar C. Weilback sem er virðuleg og þekkt verslun með áhöld og gögn fyrir siglingafræðinga og í rafeindaverslun til að kaupa á loftneti fyrir bátinn, sem var glatað. Etthvað kíktu konurnar á tuskur. Kaupmannahöfn sem við vorum búin að þekkja í yfir 40 ár, hefur breyst mikið og þótti okkur fúlt að komast að því að það er lífsins ómögulegt að fá serverað Dansk smörrebröd á veitngastöðum í miðbænum en allstaðar er hægt að fá hamborgara, pasta, núðlurétti, spagetti, Subway samlokur og langlokur, Club samlokur, pítur eða kebap. Þannig er útleskt ruslfæði að ryðja úr vegi venjubundnum þjóðlegum réttum hvar sem er í heiminum. Reyndar fundum við Dansk hakkeböff med lög sem borðað var með góðri lyst í staðinn fyrir eitthvað Ítalskt, Grískt eða Tyrkneskt gúmmulaðe. Verslunarmiðstöðin Scala við Vesturbrúargötu er í algjörri niðurnýðslu en þar stóð á okkar tímum stærsti skemmtistaður á Norðurlöndum National Scala þar sem Gullfyssingar áttu fastpöntuð borð annan hvern föstudag við mikinn gleðskap. Komu þar fram reglulega þekktir skemmtikraftar og listamenn hvaðanæva úr heiminum. En fortíð er það sem minnast má, nútið er það sem lifað er í og og framtíð það sem óráðið er. Framundan var næsta áætlun að sigla til Vordingborgar en ekki fer allt sem ætlað er.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.