25.5.2006 | 13:51
Frumraun til Ebeltoft
Í síðustu færslu sagði ég ykkur frá kaupum okkar á skemmtibátnum LILJU BEN og fyrstu skrefum við að undirbúa hana fyrir þann nýja lifstíl sem við tókum okkur. Nú kemur áframhald sem ég kalla frumraun til Ebeltoft. Rétt er að taka það fram að svona lífstíll krefst skipstjórnarréttinda a.m.k. 30 tonna og er auðvelt að afla sér þeirra t.d. hjá Fjöltækniskóla Íslands. Ég er hinsvegar það heppinn að hafa ótakmörkuð réttindi. Eftir því sem ferðasöguni vindur fram mun ég ræða meira um ýmsa þætti þessa nýja ífsstíls.
Þriðjudaginn 28. mars yfirgáfum við svo bústaðinn og fluttum um borð í hreinan og hlýjann bátinn og fannst okkur strax við vera komin heim. Um sama leiti þiðnaði ísinn í höfninni svo við ákváðum að leggja í fyrsta áfanga ferðarinnar frá Ebeltoft til Kaupmannahafnar þar sem vinahjón okkar slóust í för fyrstu vikurnar. En nú kom upp vandamál enga brennsluolíu að fá, olíutankurinn í höfninni tómur og verður ekki fylltur fyrr en í maí. Eftir nokkra eftirgrennslan komst ég að því að einhver slatti var til á olíutanki í Ebeltofthöfn sem ég tryggði mér aðgang svo Ebeltoft varð fyrsti áfangi ferðarinnar. Þetta vandamál átti eftir að endurtaka sig oftar svo næst var eftirfarandi regla sett.
Fylltu alltaf af olíu þegar hana er að fá, þótt lítið þurfi, því engu er að treysta um aðgang að olíu þótt hún eigi að fást.
Öer-Havn við Ebeltoft er lokuð skemmtibátahöfn sem ekki er hægt að komast inn í eða út nema í gegnum s.k. slússu, sem skýra má sem þrep í skipastiga. Höfnin er mjög rúmgóð innan slússunnar og fékk ég heimild hafnarstjórans til að sigla um höfnina og æfa mig í stjórntökum bátsins áður en lagt var í hann. Tilkynti ég honum að brottför yrði föstudaginn 31. mars kl. 1000 og bað um að vera hleypt út um slússuna þá, sem var auðsótt. 31. mars kl. 1000 var svo lagt af stað og sigið í átt að slússunni sem búið var að opna. Þetta var kaldur morgun með SA brælu sem ekki lofaði góðu fyrir jómfrúartúrinn en miklar grynningar eru í kringum Ebeltoft og innsiglingarennur þröngar og varasamar. Slússuhjónin Merete og Flemming stóðu á bakkanum og tóku við festum þegar við lögðumst að. Fyllt var á ferksvatnstankinn meðan beðið var eftir að vatnsborðið í slússunni lækkaði niður í sjávarhæðina fyrir utan og síðan lagt í hann út þrönga rennuna með lítilsháttar svita í lófum og hjartslætti um 90. Þegar rennan var að baki fékk ég fyrsta tækifærið til að gefa vélunum inn og byrjaði á 2000 rpm. sem gáfu 11 hnúta, síðan var farið í 2500 sem gáfu 15 og við 3000 rpm. var komið í 21 hnút sem var látið duga þótt nokkuð væri eftir því hámarkshraði bátsins er 33 hnútar. Á leiðinni voru nú reyndar ýmsar stefnur m.t.t. vind- og öldustefnu til að kynnast viðbrögðum bátsins og kom í ljós að hann var eins og flest skip erfiðastur með ölduna skáhallt undir skutinn. Þá veltur hann mest og rásar illilega. Þetta má þó forðast með því að velja hentuga stefnu ef svigrúm leyfir. Þótt leiðin lengist þá vinnst oftast tími með betri hraða og minna rási. Einnig fann má komast fram úr ölduhraðanum með auknum hraða og breyta þannig áfallshorninu úr skáhallt aftanundir í skáhallt framanundir. Við þessar tilraunir varð frú Lilju Ben ekki um sel því hún sat þögul og hélt sé fast en löng þögn er ekki hennar aðalsmerki. Ég var nýlega búinn að útnefna hana sem 2. vélstjóra eftir að hún hafði fengið nokkra stirða mæla í mælaborðinu til að sýna rétt með því að berja þá til hlýðni. Þegar komið var í landvar innan við nesið sem afmarkar Árósflóann að NA voru gerðar frekari athuganir sem sýndu að báturinn planaði á 12 hnúta hraða. Síðar kom í ljós að hann planar á 15 hnútum fullur af olíu og vatni en heldur planinu fulllestaður niður í 12 hnúta eftir að því er náð. Z drifið á skrúfunum er notað til að trimma stafnhallann eftir að plani er náð en hægt er að stilla skrúfurnar þannig að þær þrýsti sjónum frá 5° niður fyrir lárétt allt að 30° upp fyrir láréttann flöt. Best er að keyra bátinn upp á plan með því að hafa skrúfurnar um 10° ofan við lárétt en setja þær síðan í 5° undir lárétt þegar planhraða er náð. Með flöpsunum er stafnhallann síðan fínstilltur og nýtast þeir einnig vel við að rétta af hliðarhalla frá vindi og sjó eða ójafnri þungadreifingu.
Eftir um 40 mínútna siglingu var komið að því að taka fyrstu höfnina, Ebeltoft, en þar eins og við Öer-Höfn er mikið af grynningum og innsiglingarenna löng. Varð það nú hlutverk frú Lilju, eins og eftirleiðis, að sjá um fendara og enda til að setja fast við landtöku, enda eini hásetinn um borð. Reyndar náðum við svo góðri þjálfun í þessu eftir því sem leið á ferðina að undirritaður náði að renn að, aftengja skrúfurnar og hendast upp á bryggju til að taka við endum þegar enginn var í landi til þess. En nú var lagst að bryggju undir olíutanknum í Ebeltoft þar sem hafnarstjórinn tók á móti okkur. Var fyllt af olíu og ákveðið að liggja til næsta dags áður en haldið yrði til Kaupmannahafnar. Eftir að hafa farið yfir þessa fyrstu siglingareynslu á LILJU BEN vorum við sammála um að hættulegt var að fara um dekkið fram eftir bátnum vegna lélegs halds og var því næsta regla sett.
Það er stranglega bannað að fara um þilför bátsins á siglingu nema í björgunarvesti.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.