9.7.2013 | 21:18
Er eldur um borð?
Skymasterflugvélin TF SIF á Akureyarflugvelli.
Það er ónotalegt þegar grunur vaknar um að eldur sé um borð í flugvél, allavega þar sem hann á ekki að vera. Bruni í flugvélum á að vera einskorðaður við hreyflana því þar gerir hann sitt gagn. Í þeim rúmlega 200 ferðum sem ég fór sem siglingafræðingur eða skipherra í gæslu-, könnunar-, leitar- og/eða björgunaflug á tímabilinu 1965 til 1971 lenti ég þó tvisvar í þeirri reynslu að það kviknað í. Sennilega er það þó þokkalega sloppið, miðað við þess tíma verkfæri og öryggiskröfur, því það er ekki nema í u.þ.b. 1% ferðanna.
Í fyrra skiptið var í raun um brandara að ræða, sem við hlógum að þegar veruleikinn kom í ljós, þótt alvara væri við völd meðan ekki var betur vitað, en í síðara skiptið fúlasta alvara.
Við vorum að fara til landhelgisgæslu til að líta eftir lögsögunni frá Hvalbak út af Berufirði, vestur með suðurströndinni og vestur fyrir land. Það var á Skymasterflugvél Landhelgisgæslunnar TF SIF (fjögurra hreyfla DC 4), með sjö tíma flugþol og sex menn í áhöfn. Flugstjóri, flugmaður, flugvélstjóri, skipherra, loftskeytamaður og undirritaður sem var siglingafræðingur. Komið var fram í maí 1967 og vorið búið að vera afspyrnu kalt og hafísinn farinn að sækja að norðurlandi. Var sérstaklega tekið fram að fært væri minni bílum fyrir Hvalfjörð, Borgarfjörð og um Snæfellsnes, en bara fært um Dalsmynni milli Akureyrar og Húsavíkur. Þegar við fórum í loftið frá Vatnsmýrinni hinn 17. maí var stíf norðanátt og var klifrað á IFR flugleið R1 sem leiðir austur á Ingolfshöfða og fengum við úthlutað 10.000 feta fluglagi. Flugið austur yfir landið var tíðindalaust og fallegt í bjartviðrinu sunnan hálendisins, en skýjabreiðan sem sást norður af hálendinu sagði allt sem segja þurfti um fýluna norðan heiða.
Þegar radiovitinn á Skarðsfjöru var þvert á stjórnborða fengum við heimild flugstjórnar til að lækka flugið í átt að Ingólfshöfða og eftir það að beygja til suð-austurs niður í sjónflugshæð yfir sjónum suð-austur af landinu. Við gerðum ráð fyrir að mikil ókyrrð yrði sunnan við Öræfajökul og því flutti skipherran sig, sem venjulega sat aftan við flugstjórann, í eitt farþegasætið aftan við sprengjumiðarann, sem var enn í vélinni þó seinni heimstyrjöldinni væri löngu lokið, og batt sig þar niður. Skildi hann hljóðnema og heyrnartólin fyrir innanvélartalfærin (intercominn) eftir við sæti sitt og var þar með sambandslaus við okkur hina. Við sátum hins vegar kyrrir í vinnusætunum niður njörvaðir, með intercomminn á okkur og snerum baki í skipherrann sem lét fara vel um sig í farþegasætinu.
Vélin skókst nú til með miklum látum meðan við fórum í gegnum ókyrrðarbeltið sunnan við Jökulinn og allt í einu gaus upp megn brunalykt eins og þegar bruni verður í rafmagnstækjum og samtímis fór af stað hröð atburðarás. Loftskeytamaðurinn öskraði í intercomminn það er kviknað í og flugstjórinn, sem fann brunalyktina um leið, svaraði um hæl slökkvið tafarlaust á öllum rafeindatækjum sem við megum missa. Var nú mikið takkafjör þegar slökkt var á hverju rafeindatækinu á fætur öðru. Þegar ég var búinn að slökkva á öllu sem ég náði til leysti ég sætisólina til að standa upp og sækja slökkvitæki sem var rétt aftan við sætið mitt. En um leið og ég leit á skipherrann, þar sem hann sat hinn rólegasti í farþegasætinu, sá ég eldsvoðann. Skipherrann, sem var sambandslaus eins og áður sagði, var í mestu makindum að bræða munnstykkið á pípunni sinni með loganum frá Zippó kveikjara, þannig að frá því lagði bláa reykjarslæðu sem barst um alla vél með tilheyrandi brunasvækju. Hann var að horfa út um gluggann um leið og hann var að bræða munnstykkið og hafði ekki hugmynd um hamaganginn sem hann var búinn að setja af stað með bræðsluvinnunni. Þegar sannleikurinn var öllum ljós slaknaði fljótt á allri spennu og var hlegið að öllu.
Framhaldið var svo venjubundin gæsla og lent aftur 5 klst. síðar.
Ég ætla að segja frá næsta eldsvoða í næsta pistli.
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.