5.7.2012 | 23:26
Vornótt á Vatnsendahæð
Þegar purpurarauður kvöldroðinn kyndir
kyrrlátan eldinn um himinsins djúp
og í fjöllunum flökta skuggar og myndir
sem fannhvítur Jökullinn steypir í hjúp.
Þá blundar hún borgin í vornætur blænum,
undir blámóðu himinsins óræða geim
og fjöllin í fjarska þau speglast í sænum
með fyrirheit til þín um friðsælan heim.
Á tjörnunum teygja sig fannhvítir svanir
og tipplar í hólma heimarík önd,
en vargfuglar sveima yfir varpinu vanir,
þótt verjist þeim kríur, sem námu þar lönd.
Í lofti þær leika á vængjunum sínum
þá list sem að bar þær norður um haf
og þú starir í furðu frá fótstalli þínum
á fegurð þess lands sem að drottinn þér gaf.
Við bryggjurnar liggja bátar og rugga,
um bakkana lækurinn liðast svo hljótt
og þú heyrir úr húsi stúlku að hugga,
harmþrungið barn sitt sem er ekki rótt,
en á steini í brekkunni sitja og kela
sælastir allra, ástfangið par,
og róna ræfill með vínlögg í pela
ráfar um götur sem útbrunnið skar.
Já farðu á Vatnsendann vinur og sjáðu
í vornætur húmi þessa sofandi borg,
sem frægir þá heppnu en fordæmir smáðu,
allt fólkið sem býr við þær götur og torg,
sem hagsæld því veitir og örlög þess vefur
en vægir þeim ekki sem eiga ei vörn.
Hennar tilvist er fögur, en hún tekur og gefur,
og hún typtar eða elskar sín sofandi börn.
Guðjón Petersen
Um bloggið
Gauji Pet
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.