Trausti er týndur

50_gu_jon_petersen_styrim_vi_vinnu.jpg

 Mynd: Höfundur fer yfir leitarfyrirmæli.

Um þetta leiti fyrir rúmlega 43 árum, 14. febrúar 1968 kom ég mér fyrir í sæti siglingafræðings um borð í Landhelgisgæzluflugvélinni TF SIF. Kl. var 0910 og við vorum að fara til leitar að MB. TRAUSTA ÍS 54 frá Súðavík, en síðast heyrðist til bátsins kl. 1630 daginn áður, 13. febrúar. Brast þá á bandvitlaust veður og lentu margir Vestfjarðarbátar í vandræðum en komust þó allir að landi nema Trausti sem ekki svaraði ítrekuðum köllum loftskeytastöðvarinnar á Ísafirði.

Það var svolítið óvenjuleg gangan út í DC 4 Skymester vélina okkar þennan morgun. Skammt frá blasti við stélið og hálfur skrokkur af annarri DC 4 flugvél, sem hafði hlekkst á í lendingu kl. 1952 kvöldið áður og húrraði framaf brautinni niður í fjöruna í Serjafirði, en brautin var flughál. Enginn fórst en einn meiddist lítilsháttar. Vélin sem var Bandarísk frá FAA var gjörónýt, en hún hafði verið hér við land til að mæla út aðflugskerfi á flugvöllum landsins. Þetta flak minnti mann á að hver ferð getur orðið fallvölt þótt til annars sé stofnað.

Eftir að hafa spennt mig niður í sætið setti ég heyrnartól á hausinn og stillti hlustunina bæði á „intercom“ og 118.1 Mhz. Síðan dró ég fram siglingakort í heppilegum mælikvarða fyrir verkefnið  og setti út þá punkta sem afmörkuðu leitarsvæðið sem okkur var úthlutað. Meðan ég var að því heyrði ég flugstjórann biðja flugturninn um heimild til að ræsa hreyfla og svar turnsins ásamt tilkynningu um QNH til að stilla hæðarmæla vélarinnar. Stillti ég hæðarmælinn hjá mér eftir því. Við vorum 12 í áhöfn í þessari ferð, flugstjóri, flugmaður, flugvélstjóri, skipherra sem var leiðangursstjóri, siglingafræðingur sem kom í minn hlut og loftskeytamaður. Einnig voru með sex útkikksmenn til að sitja við glugga vélarinnar sitt hvoru megin og rýna á hafflötinn til að reyna að sjá minnstu örðu ef einhver væri á sjónum. Þessir menn voru oftast fengnir frá björgunarsveitum eða nemar úr stýrimannaskólanum.

Leitarsvæðið sem okkur var úthlutað var með norðurmörkin út frá Galtarvita og 40 sjómílur til NW og suðurmörkin út frá Blakk, 70 sjómílur til NW. Grynnst áttum við að fara 10 sjómílur af landinu því að flugvél flugkappans Björns Pálssonar TF VOR átti að leita þar fyrir innan. Innan þessa fernings áttum við nú að fljúga sikk sakk, inn og út frá landinu með 2. sjómílna bili milli fluglína. Í raun átti þetta ekki að vera tiltakanlega erfitt, ef ekki hafi komið til  15 til 20 hnúta NA vindur næst landinu en 40 til 50 hnúta vindur á dýpsta hluta svæðisins. Þar sem þetta var vindur þvert á stefnulínurnar, var ljóst að gera þurfti ráð fyrir að beita þurfti vélinni 7ᴼ upp í vindinn vegna driftar næst landinu og auka svo driftina eftir sem vindurinn ykist á leiðinni út frá landinu upp í 17ᴼ yzt á svæðinu, miðað við 140 hnúta flogin leitarhraða. Á bakaleiðinni til lands yrði svo að snúa þessu við. Framundan var því brjáluð reiknivinna fyrir siglingafræðinginn næstu 10 klst. Ekki var til að dreifa neinu GPS, loran C, e.þ.h. þannig að besta staðsetningartækið í þessari fjarlægð frá landi yrði radarinn. Við útreikninga var notast við sérsniðinn reiknistokk fyrir flug, sem kallaður var „computer“ þótt hann ætti ekkert sameiginlegt við tölvur nútímans. En nú voru hreyflar komnir í gang og um leið og flugmennirnir hreyfðu vélina bókaði ég „blocktímann 0920 í dagbókina.

Framhald síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband