Með fulla vasa af grjóti við Surtsey.

38_vi_surtsey_1963.jpgSurtsey séð frá skutþiljum Óðins

Lokafærsla í þessari sögurispu.

25 til 27. janúar var Óðinn sendur með forseta Íslands, ráðherra og listamenn til Ísafjarðar og til baka. Var snarvitlaust veður allan tímann og lenti skipið í vandræðum vegna ísingar en kláraði sig auðvitað af verkefninu. Eftir þá ferð slitnaði Óðinn frá Ingólfsgarði í Reykjavík, í ofsaveðri og 31. janúar var siglt í ofsaveðri suður fyrir land og á Norðfjörð til að flytja lækni í vitjanir til fólks á Austfjörðum. 2. febrúar voru lestaðir 10 símastaurar á Djúpavogi til að gera við símalínuna til Borgarfjarðar Eystri, sem hafði gefið sig í veðurofsa. 5. febrúar var Óðinn sendur inn á Mjóafjörð til að athuga með íbúa fjarðarins, en ekkert samband var búið að vera við Mjóafjörð í heila viku og því talið brýnt að athuga með íbúa þar. Þegar ljóst var að allt var í lagi með íbúana og búið að þjónusta fólk við að koma brýnum boðum frá þeim og til, um talstöð skipsins, var stefnan sett á Loðmundarfjörð til að athuga með fólk þar líka. Skipið var nú við ýmis störf við austur og suðurland, flutti m.a. mjólk til Seyðisfjarðar, sem var einangraður vegna snjóa, þjónustaði Breskan togara með læknisaðstoð frá Norðfirði og tók fjóra togbáta að ólöglegum veiðum út af Suð- Austurlandi. Skorið var veiðarfæri úr skrúfunni hjá nokkrum bátum, sjúkrflutningum sinnt á Vestfjörðum og nokkrir landhelgisbrjótar teknir.

Með fulla vasa af grjóti í Surtsey.

Surtsey var fast viðfangsefni frá því að gos það sem myndaði eyjuna braust út á hafsbotni í nóvember 1963. Eitt af þeim verkefnum sem oft þurfti að sinna var að flytja vísindamenn og búnað þeirra til og frá eynni. Það var kominn 2. apríl 1966 þegar Óðinn fékk það verkefni að flytja 10 vísindamenn, þ.m.t. rjómann af jarðvísindamönnum þjóðarinnar, frá Þorlákshöfn til Surtseyjar og til baka. Var fólkið tekið eldsnemma morguns í Þorlákshöfn og ferjað í land í Surtsey kl. 0645 á tveim Zodiac gúmmíbátum skipsins. Við landtökuna var nokkurt brim og vildi ekki betur til að öðrum gúmmíbátnum hvoldi í lendingunni en hinn bilaði þegar splitti gaf sig í skrúfunni. III stýrimaður sem fór fyrir bátunum féll í sjóinn í hamaganginum en varð þó ekki meint af volkinu. Í ferðum sem þessum var alltaf verið með aukasplitti í skrúfurnar á utanborðsvélunum og eftir að búið var að skipta um splitti í bilaða bátnum og setja hinn á réttan kjöl komust þeir aftur út í skip. Vísindamennirnir urðu eftir í Surtsey og var meiningin að bíða þeirra og flytja til baka þegar liðið yrði á daginn. Var fólkið í talstöðvarsambandi við Óðinn.

Kl. um 1700 var kominn suð- austan stormur og brim að aukast mikið á ströndinni og var það mat Óðinsmanna að ófært myndi orðið að lenda á ströndinni og sækja mennina þannig. Á hinn bóginn var ljóst að koma þyrfti einhverjum vistum til mannanna ef þeir ættu að dveljast mikið lengur í eynni, t.d. næturlangt. Var nú haldin ráðstefna með skipherra og stýrimönnum uppi í loftskeytaklefanum, hvernig ætti að bregðast við þeim vanda sem upp var kominn með 10 manna hóp vísindamanna fastan í eynni, skjóllítinn og matarlausan, í brjáluðu veðri. Haft var samband við Landhelgisgæsluna og hún beðin að athuga hvort hægt væri að fá flugvél til að henda út vistum fyrir fólkið, en menn treystu sér ekki til þess í þessu veðri, enda náttmyrkur einnig að bresta á. Taldi hinn merki flugkappi Björn Pálsson algjört óráð að reyna það við þessar aðstæður. Að fenginni þessari niðurstöðu var ákveðið um borð í Óðni að freista þess að sækja mennina og koma þeim um borð. Var ákveðið að Óðinn færi í eins mikið var og hægt yrði að finna norð- vestan við Eynna og að þar yrði vélbátur skipsins sjósettur ásamt gúmmíbát. Yrði vélbátnum siglt eins nærri brimgarðinum og hægt væri, með gúmmibátinn í eftirdragi. Þegar þangað yrði komið myndi línu verða skotið í land með línubyssu skipsins. Áttu „strandaglóparnir“ síðan að draga gúmmíbátinn með línunni, upp í fjöruna til sín jafnóðum og slakað yrði á tógi sem tengdi gúmmibátinn við vélbátinn. Síðan átti fólkið að fara í gúmmibátinn og leggjast niður í botninn og halda sér sem fastast í bönd sem strengd eru með hliðum bátsins, meðan vélbáturinn drægi þau út í gegnum brimgarðinn. Var nú þessum boðum komið til fólksins, gegnum talstöðina auk þess sem fyrirmælin voru skýrt skrifuð og sett í plastvasa sem síðan yrði festur við gúmmíbátinn.

9_orarinn_bjornsson_skiph_vs_ni_iii_1966.jpgAllt gekk þetta eftir, siglt var noð- vestur fyrir Surtsey, vélbátur og gúmmibátur sjósettur og farið upp undir brimgarðinn. Á vélbátnum voru yfirstýrimaður II. stýrimaður, bátsmaður og IV. vélstjóri. sá hinn sami og hrataði í sjóinn við björgun Wire Conquerer. Línunni var skotið í land, fólkið dró til sín gúmmibátinn, lagðist niður í hann og gaf merki um að draga út. Báturinn hvarf nokkrum sinnum þegar hann fór í gegnum brimskaflana en birtist alltaf aftur stútfullur af sjó með fólkið liggjandi holdvott í botningum. Þegar gúmmíbáturinn var kominn að vélbátnum var fólkið drifið yfir í hann og í skjól inni í yfirbyggingunni, meðan bátunum var siglt yfir að Óðni. Eitthvað fanst varðskipsmönnum þó torkennilegt við fólkið, sem búið var að bjarga með þessum hætti í gegnum brimið, það var mun bústnara en þegar það fór í land. Við nánari athugun kom í ljós að fólkið hafð safnað í alla vasa grjóti úr eynni og ekki nóg með það heldu troðið grjóti líka í úlpur sínar og bundið fyrir að neðan, til að missa það ekki. Þegar þetta var ljóst reiddist yfirstýrimaðurinn skyndilega og jós úr skálum reiði sinnar yfir fólkið. Bent hann á að ef eitthvað hefði farið úrskeiðis hefð hvert og eitt þeirra sokkið eins og „steinn“ og enga björg sér getað veitt frá tafarlausri drukknun. Allir komust hins vegar heilir um borð í Óðinn þar sem fólkinu beið næring, skjól og kostur á heitri sturtu.

Myndin er af Þórarni Björnssyni skipherra á Óðni,  þess tímabils sem færslurnar fjalla um.


Bloggfærslur 26. september 2010

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband