Færsluflokkur: Lífstíll

127. Margrét og Sigurður kveðja í Gray

Haust 2007 208 Margrét stendur á slússubrúnni og bíður eftir að Sigurður setji upp endann. 

Enn þurftum við að sjá á eftir góðum gestum (áhöfn) því Margrét systir og Sigurður hennar maður fóru áleiðis heim laugardaginn 1.september, en þau flugu frá Lyon í gegnum Kaupmannahöfn. Vorum við því orðin að tveggja manna áhöfn í stað fjögurra manna aftur og munar um minna. Kunnum við þeim og Erni og Lonnie, sem deildu líka með okkur erfiðasta kafla leiðarinnar bestu þakkir, því aldrei hefði okkur gengið eins ljúft í gegnum Canal Des Vosges ef þeirra hefði ekki notið við. Daginn áður, eftir að við vorum búin að færa bátinn, hjálpaði Sigurður mér að reisa upp mastursgrindina, sem Örn felldi með mér þegar við komum inn í Canal Des Vosges (pistill 113), eftir æfingu í Metz (pistill 110), þar sem við vorum nú komin í gegnum allar hæðarhindranir á vegi okkar gegnum Evrópu. Var nú MY LILJA BEN orðin eins og hún átti að sér.

Eins og venja er við svona kaflaskipti var ráðist í þvott á rúmfötum sem og öðru sem var orðið óhreint þannig að við lágum róleg í Gray yfir helgina. Mánudaginn 3. sept. varð ég var við leka við kælivatnssigtið á bakb. vélinni, þegar ég var að prufukeyra eftir stoppið og fór því í viðgerðarverkstæði og fékk Volvo mann til að líta á það, sem hann gerði og lagaði. Það sem var hins vegar gott í þessu öllu var að á viðgerðarverkstæðinu var lítil "yachtverslun" þar sem ég fann þennan líka fína, passlega krókstjaka fyrir okkur í stað þess sem við töpuðum í Thionville (pistill 106). Má segja að það hafi verið nokkuð síðbúið því við vorum búin með allt sússukraðakið þar sem skylt er að hafa krókstjaka samkvæmt reglum, en betra er seint en aldrei.

Við fórum svo frá Gray kl.08:55 þriðjudaginn 4. september áleiðis til Pont Ailler Sur Saone. Nú var létt sigling framundan og brunuðum við áfram niður fljótið, framhjá ánnum Soufroide, Echalonge, Vingeanne, Ognon sem allar renna í Saone fljótið og auka stöðugt við stærð þess, breidd og dýpt. Einnig fórum við framhjá bænum Mantoche og þar sem Canal De La Marne kemur inn á Saone, en eftir honum má fara t.d. til Parísar. Komum við svo til Pont Ailler Sur Saone kl. 12:15 og fengum þar sóma legupláss í fallegri höfn, við vinalegt þorp, samnefnt. Veðrið var gott, hlýindi og sól en svolítill gustur svo við tókum daginn rólega við smá þrif á bátnum, sem er fastur liður. Var þjónustan í landi jafnframt notuð og skroppið í göngutúr á bæinn. Nokkur trafik var af gestabátum þarna, bæði inn og út, stórt viðgerðarverkstæði og yachtbúð, en auðséð var að bátaviðgerðarstöðvum og yachtverslunum var nú að fjölga eftir því sem sunnar dró í Frakklandi og umferð skemmtibáta jókst. Daginn eftir var svo áætlaður lokaleggurinn til Saint Jean De Losne, þar sem við ætluðum að freista að fá vetrarlægi fyrir MY LILJU BEN.


126. Gray, stjórnlaus hryllingur á hættulegum stað.

 

Haust 2007 207 Áhöfnin seilist í spottann að setja fast. 

Eins og sagði í síðasta pistli þá lögðumst við að í Gray kl. 16:30, fimmtudaginn 30. ágúst s.l. Ákváðum við að leggjast í Port Connoisseur sem tilheyrir bátaleigu með sama nafni því þar er öll þjónusta t.d. böð sem við höfðum ekki komist í síðustu tvo daga. Þarna er bátum þétt lagt, með skut að bryggju og stefni út í fljótið og var okkur ekki skotaskuld úr því að koma okkur þannig fyrir, enda flestu orðin vön. Hins vegar kom babb í bátinn þegar við sögðumst vilja liggja þarna fram á sunnudag því að daginn eftir, á föstudeginum, þá er skila- og útleigudagur á bátum hjá bátaleigunni þannig að þá eru þeir allir í höfn og ekkert pláss fyrir gestabáta. Við yrðum því að rýma plássið strax næsta morgun. Létum við okkur hafa það þar sem skammt fyrir neðan er almenningslegukantur við miðbæinn svo við yrðum ekkert ver sett þar, nema að óvissa var um rafmagn.

Eftir að búið var að koma sér fyrir, ganga frá formlegum hlutum og fara í sturtu og súnna sig vel var farið í bæjargöngu, en Gray er frekar lítil en vinaleg borg með ágætis miðbæjarkjarna. Hluti bæjarins stendur á hárri hæð og létum við Sigurður okkur hafa það að klifra upp 100+ tröppur í gegnum húsasund til að heimsækja kirkju staðarins sem trónir við torg á toppi hæðarinnar þar sem jafnframt er ráðhús bæjarins og nýtískulegt dvalarheimili fyrir aldraða að sjá mjög vandað og huggulegt. Fúrnar slepptu þessu klifri og kíktu í búðir staðarins í staðinn. Það var orðið vel liðið á dag þegar við vorum búin að skreppa um borð svo við ákváðum að finna einhvern veitingastað til að snæða kvöldverð, en við vorum búin að sjá einn eða tvo við aðalgötuna sem okkur leist þokkalega á. Var nú land lagt undir fót og þeir heimsóttir en sá fyrri var mannlaus og ekki aðlaðandi að okkur fannst og næsti, sem er kínverskur, opnaði ekki fyrr en seinna um kvöldið svo ekki var um auðugan garð að gresja. Eftir að vera búin að þramma aðalgötuna á enda komum við að litlum bar þar sem sest var og pantaður bjór. Spurðum við vertinn hvort ekki væri hægt að finna veitingastað í nágrenninu, annað en skyndibitastað sem öllu tröllríður allstaðar, og benti hann okkur á stað sem stendur í almenningsgarði um 1.5 km. ofar með fljótinu. Eftir bjórglasið var því steðjað af stað og komið um tuttugu mínútum síðar að þessum fallega veitingastað í stórum opnum garði, við fljótsbakkann, þar sem kvöldsólin var að hníga í skógivaxnar hlíðarnar á hinum bakka fljótsins. Við vorum fegin að setjast til borðs enda orðin göngumóð eftir daginn.

Nú kom að því að panta matinn og kom matseðillinn eingöngu á Frönsku svo að nú var leitað upplýsinga um hina margháttuðu rétti hjá þjóninum, sem hann var allur að vilja til að útskýra. Mælti hann sérstaklega með fiski úr Saône fljótinu sem rann þarna utan við gluggann en var fljótur að setja upp afsakandi bros þegar hann sá viðbrögðin hjá frú Lilju Ben sem hryllti sig, enda búin að sigla fljótið endilangt og sjá hvað það hefur að geyma auk þess sem hún veit hvað við vorum búin að setja í vatnið og efalaust annað bátafólk. Annars er Saône fljótið vinsælt til veiða og fiskurinn snæddur um allt Frakkland við góðan orðstír. Ekki man ég hvað hvert okkar borðaði á þessum ágæta veitingastað en maturinn var góður og áhöfnin fór mett og sæl til skips.

Morguninn eftir var komið að því að færa að legukanti bæjarins, sem er rétt neðar í fljótinu, en fara þurfti í gegnum eina slússu sem er við gagnstæðan bakka við viðlegurnar. Frá bakkanum þar sem við lágum liggur svo stífla þvert yfir fljótið, að slússumannvirkinu, en fljótið er látið renna yfir þessa stíflu, yfir 3 m. hátt yfirfall, sem jafngildir þrepinu sem fara þarf niður í slússunni. Voru nú vélar og bógskrúfa ræstar og litið á stýrisvísinn til að sannreyna að hann væri miðskips og mannskapnum sagt að sleppa landfestum. Þegar taugarnar voru komnar inn var vélunum gefið rólega áfram og skipti þá engum togum að báturinn byrjaði að snúast í stjór svo að stýrinu var snúið hratt í bakb. auk þess sem ég gaf púst á bógskrúfunni á bakb. líka til að rétta hann af. Um leið sá ég að stýrisvísirinn var kominn miðskips svo ég hætti að snúa stýrinu, en þá uppgötva ég mér til hrellingar að stýrisvísirinn æðir strax í stjórnb. aftur. Nú voru góð ráð dýr, við komin út á fljótið á stjórnlausum bátnum þar sem straumurinn bar okkur hægt og bítandi í átt að stíflunni fyrir neðan. Varð mér nú að orði að við værum stjórnlaus, stýrið bilað, og er því ekki að neita að frúnum brá illilega en ekkert getur raskað ró Sigurðar, hann var búinn að koma sér fyrir til að setja enda upp í slússunni og lét sér fátt um finnast.

Þegar svona kemur fyrir fljúga allir möguleikar í stöðunni í gegnum hugann, þeir metnir í skyndi og ákvörðun tekin strax. Heyrði ég út undan mér, meðan ég var að yfirfara möguleikana, að sagt er fyrir aftan mig "hvað ætlar hann að gera" og svarað samstundis "ég veit það ekki" en svo var ákvörðunin tekin og ég sagði "við höldum áfam í slússuna, Margrét verði klár á súluna". Ég var búinn að finna út að ég kæmist yfir fljótið og að slússunni með því að snúa stýrinu stöðugt til bakb. og létta undir með bóskrúfunni með því að gefa gott púst öðru hverju. Alla vega gæti ég ef allt um þryti forðast stífluna, þótt við rækjum í átt að henni, með því að skrönglast að bakkanum ofan við slússuna og koma enda þar upp en í algjörri neyð með því að varpa akkeri, en það er hægt að gera við stjórnvölinn ef í haðbakkann slær. Tókst mér að þoka bátnum með skrykkjóttri stefnu að súlunni og svo áfram að slússunni, sem betur fer var opin. En rétt í þann mund sem búið var að "laina" bátinn upp til að fara inn í slússuna hrökk stýrið í lag og allt virkaði nú eðlilega. Endaði þetta því allt vel og þegar búið var að hleypa okkur niður og opna slússuna aftur lögðum við að legukanti bæjarins. Þess ber að geta að engin bilun hefur fundist í stýrisbúnaðinum, sem er glussadrifinn og höllumst við helst að því að aðskotahlutir hafi farið í drifin og snúið stýrinu þaðan því mjög mikið rek var búið að vera í fljótinu af gróðri og drasli.


Öflugt björgunarlið

Sennilega er Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins eitt öflugasta björgunarlið landsins. Með fullri viðingu fyrir öðrum er fagmenska í fyrirrúmi í fjölbreytileika úrlausnarefna liðsins við bruna, björgun, sjíkraflutniga, köfun, eituefnamengun o.fl. ofl. BRAVÓ.
mbl.is Eldur í geymslu fjölbýlishúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

125. Siglt um jarðgöng og óvænnt ur spíttaragangur

Haust 2007 214 Siglt inn í Saint Albin göngin, 

Þegar minnst er á jarðgöng í fjöllóttu og vogskornu landi stendur hugurinn eðlilega til bílvega gegnum fjöll eða undir sjó. Nú var hins vegar komið að því hjá okkur að sigla gegnum "fjall" um jarðgöng.

 

Þegar við fórum frá Scey kl. 08:55, eftir góðan nætursvefn, þrátt fyrir pirringinn daginn áður, byrjuðum við á að fara beint í fyrstu slússuna sem er rétt við höfnina. Frá henni var siglt þvert yfir Saone fljótið og inn í hjáleið um skurð sem liggur inn í fyrstu jarðgöngin sem við sigldum í gegn, Saint Albin göngin, 681 m. löng og 6.55 m. breið. Til að fá að fara inn í göngin þarf að kalla upp stjórnstöð og fá heimild (grænt ljós) því ekki er hægt að mætast í göngunum. Fengum við græna ljósið strax þegar við melduðum okkur og sigldum því rakleiðis inn. Því er ekki að neita að nokkuð fannst okkur sérstakt að sigla í gegnum jarðgöngin sem eru með bogamynduðu þaki og öll steinlögð að innan. Lýsing er í loftinu eftir endilöngum göngunum og neyðarsímar með festilykkjum til að binda við, með 100 m. millibili. Mikið mannvirki eingöngu byggt til að opna leið fyrir skemmtibáta í gegnum Frakkland. Göngin spara 7 km. vegalengd eftir Saone fljótinu, sem bugðast Suður fyrir hæðina sem göngin liggja um, en göngin liggja sem næst beint í Vestur. Í þessari bugðu Saone fljótsins er hæðarmunurinn um 3 m., sem leiðin um göngin "sléttir" út með slússum beggja vegna við.

Áfram var svo siglt niður Saone fljótið og haldið sig á löglegum 8 hnúta hraða og skiptumst við Sigurður mágur minn á að stýra LILJU BEN. Nú bar það til sem oftar að Sigurður mágur sat við stjórnvölinn þegar við sigldum undir eina af þeim mörgu og fallegu bogabrúm sem liggja yfir fljótið, en við hin í áhöfninni sátum eða stóðum aftur á dekki í góða veðrinu, að allt í einu þrumuðu báðar vélar á aukinn hraða og LILJA BEN lyfti sér á 20 hnúta planið eins og hendi væri veifað, um leið og við fórum undir brúnna. Kom nú flemtur á mannskapinn og datt okkur helst í hug að Sigurð hafi langað að "kitla pinnann" eins og sagt er og prufa að sigla á plani, en undirritaður snaraðist inn með orðunum "hey, hey, hvað er að gerast, ertu að spítta í"? Leit þá Sigurður til mín með furðusvip og sagði "ha, spítta í hvað", en greip svo í throttlurnar og dró hraðann aftur niður þegar hann sá hvað hafði gerst. "Nei" sagði svo Sigurður, "ég var að skoða tjakka sem Frakkarnir hafa sett undir brúnna til að spenna hana sundur, til að vega upp á móti sigi sem vill verða á hafinu á svona brúm. Hef sennilega rekið mig í throttlurnar þegar ég teygði mig fram til að horfa undir brúnna þegar við fórum undir". Sigurður Eyjólfsson mágur er nefnilega verkfræðingur og hefur hannað ófár brýr að mér skilst og þarna gafst fagmanninum færi á að skoða hönnunarúrlausn sem fangaði hugann um stundarsakir. Var skemmt sér mikið yfir þessari uppákomu sem var rúsína í rútínunni.

Enn kom að jarðgöngum að fara í gegnum, Savoyeux tunnael, sem er ívið styttri eða 643 m. og fengum við græna ljósið strax og við tilkynntum okkur. Hins vegar brá svo við að um leið og við komum út úr göngunum komum við að slússunni sem stjórnar vatnshæðinni í þeim og þá var komið hádegi svo kallinn sem stjórnar henni og umferðinni um göngin var farinn í mat svo ekki var annað að gera en að leggjast við steingarð utan við gangamunnann og bíða meðan hann kláraði sinn hádegismat. Það er ekki stressið að drepa menn á svona siglingu. Notuðum við tímann til að fá okkur snarl á meðan auk þess sem verfræðingurinn fékk sér smá göngu að skoða jarðgöngin nánar. Allt gekk síðan tíðindalaust fyrir sig og opnaði slússan skömmu eftir kl. 13:00 og var haldið áfram niður til bæjarins Grey þar sem við bundum kl. 16:30 eftir skemmtilegan dag.


124. Nýtt umhverfi, Saône með meiri hraða á köflum.

 Súlumærin Margrét Súlumærin Margrét grípur í súluna og setur í gang.

Gleðilegt ár kæru lesendur og þakka ykkur fyrir samfylgdina hér "UM SJÓ OG SUND MEÐ LILJU BEN".

Þótt komið sé nýtt ár er ég enn að fjalla um siglingu síðasta árs (123 pistlar komnir um áramót), með einstaka innskotum úr minningasjóði fortíðar, sem rifjast upp af gefnum tilefnum, sem og athugasemdum vegna umræðu sem fram fer á stundum.

Við fórum frá Corre kl. 08:50, miðvikudaginn 29. ágúst áleiðis til bæjarins Scey. Þótt við nú yfirgæfum Canal Des Vosges og hæfum siglinguna niður Saône fljótið þá er það svo bugðótt og grunnt á þessari leið að stundum er siglt inn í skurði sem leiða framhjá aðalfljótinu, í einstök slússuþrep, þar sem fljótið er heft með yfirfallsstíflum til vatnsmiðlunar og reksturs lítilla rennslisvirkjana. Því varð að passa upp á hraðann sem er leyfður 8 sjóm./klst. (15 km/klst.) á fljótinu sjálfu en 3.5 sjóm./klst. (6 km/klst.) á skurðunum, eins og í Canal Des Vosges. Við byrjuðum í Saône og var tilbreyting að fá að keyra þetta helmingi hraðar en búið var að gera dögum saman.

Ég gleymdi að segja frá því að í síðustu slússunni í Canal Des Vosges, sem er í bænum Corre, þar sem við náttuðum, var fjarstýringin fyrir slússurnar endurheimt af okkur því nú kom að nýrri tegund af sjálfvirkum slússum. Þessi tegund virkar þannig að í u.þ.b. 300 m. fjarlægð frá slússunni er siglt undir streng sem liggur yfir fljótið, eða skurðinn eftir atvikum og hangir niður úr honum, yfir miðju, mjúk stöng, nokkurskonar slanga, sem er siglt að, gripið í og snúið uppá, um leið og hún kemur afturmeð,. Fer þá í gang sama ferli og áður er lýst. Fékk nú súlumær áhafnarinnar aukið hlutverk, að grípa um súluna og snúa uppá auk þess að kippa bláu súlunni inni í slússunni upp.

Á þessum stutta siglingalegg, 50 km., bætast 13 þverár inn í Saône fljótið svo það stækkar stöðugt, breikkar og dýpkar, þannig að fljótið sjálft verður stöðugt meiri hluti siglingarinnar en skurðirnir minni, sem er til mikilla bóta. Það verður að játast hér að í eitt skiptið, þegar við vorum á fljótinu sjálfu, engin umferð annara báta í sjónmáli og við í dreifbýli, inni í þéttum trjágróðri, þá stóðst ég ekki mátið að sýna Margréti súlumær og systur, svo og manni hennar, hvernig er að vera með MY LILJU BEN "á plani" og gaf vélunum hressilega inn, við lítla ánægju nöfnu hennar frú Lilju Ben. Sigldum við nú skamma stund á 20 hnúta hraða og var tækifærið notað og vélarnar hlustaðar, titringur metinn, kjölrákin og kælivatnsflæðið skoðað og reyndist allt vera með eðlilegum hætti eftir lagnvarandi lull síðustu vikna. Því var fljótlega dregið af aftur niður á löglegan hraða og þar við látið sitja. Reyndar fukum við upp á plan daginn eftir en af allt öðrum ástæðum. Ástæðan fyrir óánægju frú Lilju Ben með svona spíttaragang er að skömmu áður en báturinn kemst á plan er álagið á vélunum mest og vill þá sóta úr púströrunum, sem kostar extra þrif á bátnum á eftir. Sé maður nógu fljótur yfir þennan álagskafla verður ekki svo mikið sót.

Ferði niður til Scey stóð til kl. 14:05 þegar við bundum þar við bryggju, eftir að hafa leitað fyrir okkur um stund að góðri bryggju. Höfnin, sem er einkarekin, er stór, í viki sem er útgrafið og stendur á eyju, Ile De Haut, sem er mynduð með skipaskurði á Suðurhönd en Saône fljótinu, sem bugðast um hana, á hinar þrjár hendur. Áður en komið er að höfninni, sem við lögðumst í, er siglt á Saône fljótinu sem síðan sveigir til hægri, umhverfis eyna, en við sigldum áfram í skurðinn, sem leiðir Sunnan eyjarinnar að höfninni. Reyndar hefðum við getað farið inn farveg fljótsins upp að miðbæ Scey, alveg að stórri stíflu sem þar er, því þar eru almenningsbryggjur fyrir gestabáta, sem við sáum og virtust mjög fínar og vel í sveit settar. Ástæða þess að ég valdi frekar einkahöfnina er að þar er rafmagntenging og sturtur, sem maður sækist sennilega of oft eftir. Alla vega voru það mistök að láta það ráða þegar upp var staðið. Eins og vant er við komu fór ég, eftir að við vorum búin að binda og tengja rafmagnið upp að hafnaskrifstofunni, sem er í viðbyggingu við sórt skýli í bátaviðgerðastöð sem þarna er. Þegar þangað kom var allt lokað þótt þar væri skilti sem segði að skrifstofan væri opin frá kl. 14:00 til 18:30. Einn mann sá ég á vakki fyrir utan skýlið sem ég veitti ekki frekari athygli en snéri frá. Að venju taldi ég víst að Hafni myndi koma og hafa samband þegar hann sæi nýjan bát í höfninni, svo við bjuggumst til landgöngu til að kaupa inn og skoða bæinn. Nokkur spotti er frá höfninni í bæinn og er gengið í gegnum stórt opið svæði á eynni, með bóndabýli á vinstri hönd. Þegar komið er að bænum er farið yfir fljótið á stórri brú með stíflunni á Saône á hægri hönd þar sem fjöldi svana spókaði sig á lóninu ofan hennar, en við brúarsporðinn er rennslisvirkjun sem nýtir rennslið í fljótinu. Þá var komið í bæinn og hann skoðaður. Þar sem nú var farið að líða að því að Margrét systir og Sigurður færu að kveðja var tækifærið notað og farið inn á ferðaskrifstofu sem við fundum opna og leitað ráða um lestarferðir frá Grey, þar sem stoppa átti næst, suður til Lyon, laugardaginn 1. september því frá Lyon áttu þau að fljúga sunnudaginn 2. Ekki vantaði að stúlkan á ferðaskrifstofunni leysti greiðlega úr möguleikunum á að komast með lest, en síðar kom í ljós að frá Grey ganga engar lestir, hvorki eitt eða annað. Segir þetta allt um ferðaskrifstofur smábæja í Frakklandi, ekki síst þar sem við fengum sjálf að reyna svipaða sögu síðar.

Til að kóróna þessa næturheimsókn okkar til Scey kom svo í ljós að þegar við komum um borð, var búið að aftengja rafmagnið til okkar og þrátt fyrir að enn ætti hafnaskrifstofan að vera opin fann ég ekki nokkurn kjaft til að ganga frá okkar málum, svo við lágum þarna frítt um nóttina.


123. Síðasti hluti Canal Des Vosges

Haust 2007 209 Margrét systir tekur í stjórnvölinn. 

Þegar við fórum frá Fontenoy Le Chateau kl. 09:00, þriðjudaginn 28. ágúst vorum við að leggja í síðasta hlutann af Canal Des Vosges, Canalsins sem við höfðum kviðið mest fyrir alla leiðina, áður en í hann var komið. Næsti áfangastaður var bærinn Corre, en þar tengist Canal Des Vosges fljótinu Saône, sem síðar rennur saman við stórfljótið Rhône, við hina fögru borg Lyon. Áin Le Coney sem legið hefur meðfram Canalnum frá því skömmu eftir að við yfirgáfum Epinal, sameinast einnig Saône fljótinu þar sem Canallinn endar.

Siglingin þennan morgun byrjaði á að farið var í gegnum þröngar skeringar, með hlöðnum steinveggjum á báðar hendur, inni í bæinum og lá hún með krappri beygju undir brú sem ég hafði gengið yfir daginn áður til að skoða þann hluta bæjarins sem er öndverti við þar sem við lágum. Þessar skeringar liggja þar sem bratti er mikill frá skuðbökkunum og eru yfirleitt alltaf með steinhlöðnum veggjum sem ná hátt yfir bátinn og halla aðeins út að ofan. Fleiri og mjög krappar bugður eru á Canalnum á þessari leið og þurfti því að sigla með mikilli varúð fyrir þær og sumstaðar var skylt að flauta fyrir horn. 12 slússur eru á þessari leið sem nú voru orðnar að rútínu. Blíðu veður var á og enn varð að takmarka hraðann við 6 km/klst. sem er hámarkið í skurðinum. Farið var framhjá þorpinu Ambievillers og bænum Selles og sumstaðar voru miklar þrengingar í Canalnum sem aðeins voru skipgengar einu skipi í einu svo gæta þurfti að því að engin umferð væri komin inn í þrenginguna áður en lagt var í hana. Ferðin suður þennan síðasta kafla Canal Des Vosges var að öllu leiti tíðindalaus og þegar við komum að Corre var nokkuð komið yfir hádegi.

Þegar komið er að höfninni í Corre er beygt inn í Saône fljótið, sem er ósköp lítið og ræfilslegt þarna, minna en skurðurinn sem við vorum búin að sigla eftir. Síðan er beygt svo til strax inn í hafnarmynnið á stjórnb. Um leið og við komum inn í hafnarmynnið blasti við bakki beint framundan, grasi vaxinn og var hægt að fara hvort sem er til hægri eða vinstri inn í höfnina en hún er tvískipt og farið um stutt sund að hvorum helmingnum sem vill. Á bakkanum framundan kom hins vegar í ljós skilti sem á stóð "visitors" og ör undir sem benti til vinstri svo við fylgdum henni. Þegar inn var siglt var fyrst farið undir göngubrú og síðan komið inn í innri höfnina með "skápum" á bæði borð, hægra megin með bryggjustubbum út frá aðalbryggjunni en vinstra megin með staurum utan við bryggjurnar sem húkka þarf á þegar bakkað er inn, miklu leiðinlegri legur. Því var nú skimað eftir plássi hægra megin og fannst fljótlega eitt milli tveggja báta, sem við bökkuðum nú inn í og bundum kl. 14:45. Vorum við nú þokkalega ánægð með okkur, komin á pláss og valið að sjá gott með stuttri gönguleið í þjónustubygginguna og skammt þar frá fallegan veitingastað sem við vorum búin að sjá þegar við komum í hafnarmynnið. Öndvert við okkur var svo hitt leguplássið, með stauradraslinu, langs með grasivöxnu eiði sem skilur að höfnina og Saôône fljótið.

Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir var ákveðið að leggja land undir fót og kanna bæinn. Var ég fyrst búinn að fara til hafnaskrifstofunnar til að ganga frá legunni en þar var þá ekki opnað fyrr en kl. 16:00 svo ákveðið var að ganga frá við Hafna þegar við kæmum til baka úr gönguferðinni. Við röltum því á veitingastaðinn og fengum okkur hressingu þar og spurðum til vegar í bæinn, því þótt við værum alveg við hann, var leiðin ekki sýnileg fyrir trjám og opnu svæði sem hægt var að fara um eftir fleiri en einni leið. Að hressingu lokinni var svo gengið í bæinn, hann skoðaður og er lítið um hann að segja, ekta franskt sveitaþorp, vinalegt og rólegt en án alls götulífs svo í sjálfu sér er litlu við það að bæta.

Þegar við komum til baka komu vonbrigði. Hafni var mættur og þegar ég kom til að ganga frá legunni upplýsti ég hann um hvar við lægjum, eins og venja er ef manni er ekki vísað beint á pláss. Sagði þá Hafni að þarna gætum við ekki legið, við yrðum að fara yfir að hinni hliðinni þar sem staurarnir séu. Var því ekki um annað að gera en að hlíta því og færa yfir á hina hliðina og binda þar. Þar sem nýja áhöfnin Sigurður og Margrét höfðu ekki verið við þær aðstæður fyrr, að húkka á staura meðan farið væri framhjá, var því fyrst farið yfir það með þeim, en Hafni kom niður á bryggju til að taka á móti svo að allt gekk vel þetta fyrir sig, þrátt fyrir spælinginn. Enduðum við við daginn á að fá okkur góðan kvöldverð á veitingahúsinu við höfnina, ein gesta því engin umferð var á þessari höfn, aðeins einn ferðabátur utan okkur, hitt að sjá eingöngu heimamenn eða langlegubátar. Það sem ekki skemmdi fyrir er að gönguleiðin til og frá veitingastaðnum sem og í þjónustubygginguna var ekki síðri frá þessum stað sem nú var legið, því göngubrúin sem minnst er á fyrr í pistlinum tengir byggingarnar við þennan hluta hafnarinnar.


122. Fontenoy Le Chateau og loksins eldsneyti.

 

Landganga Skipstjóri og yfirstýrimaður ganga í land í Fontenoy Le Chateau 

Við stoppuðum bara blánóttina í Forges D´Uzerman og lögðum í hann á slaginu kl. 09:00. Fyrr þýddi ekkert að fara af stað því sjálfvirku slússurnar eru ekki í gangi milli kl. 21:00 á kvöldin til kl. 09:00 að morgni, en fyrsta slússa blasti við höfninni þar sem við lágum. Var ákveðið að fara í þessum áfanga aðeins niður til Fontenoy Le Chateaue þótt stutt væri, þar sem þar var loksins eldsneyti að fá. Á staðnum er ein stærsta skemmtibátaleiga Frakklands "Crown Blue Line" með mikil umsvif og víðtæka ferðaþjónustu. Framundan var 16 slússu ferð sem nú þótti orðið lítið og enn lá Canal Des Vosges samsíða ánni Coney sem rennur í Saone fljótið sunnar. Við eina slússuna var ekki notast við sjálfvirka kerfið heldur var þar þjónusta, end þurfti sá sem starfrækti slússuna að sinna fleiru. Aðeins neðan við slússuna var gönguflotbrú yfir skurðinn og þegar slússumaðurinn var búinn að opna fyrir okkur hliðin á slússunni til að við gætum siglt út "brenndi" hann á hjóli niður að hliðinu, losaði annan endann og sneri síðan brúnni með sveif svo við kæmumst framhjá. Ekker sérstakt bar til tíðinda á þessari ferð nema ef nefna skyldi að ein slússan var biluð þegar við komum að og var alveg sama hvernig hamast var á fjarstýringunni, alltaf loguðu bæði rauðu ljósin og ekkert gerðist. Var því lagst að legukanti skammt frá, fyrir neðan fallegan veitingastað, þar sem var líka opið útivistarsvæði fyrir gesti og gangandi. Fór Sigurður niður að slússunni til að kanna aðstæður og sá hann ekki neitt athugavert nema ef vera skyldi að trjágrein var föst á milli vængjanna í slússuhliðinu svo að nokkuð streymdi inn í hana af þeim sökum.

Var nú ákveðið að fara í beintengdan síma sem er við slússurnar og hringja í stjórnstöðina til að tilkynna bilun og þegar ég kom að var maður að koma hinu megin frá, sem líka beið á bát til að komast upp og var hann frönskumælandi svo að við sammæltumst um að hann hringdi. Sagðist stjórnstöðin senda mann tafarlaust og stóð það á endum að skömmu eftir að ég kom aftur um borð sáum við bíl koma brunandi og mann snarast út sem síðan setti allt í gang. Gekk nú allt eins og í sögu og komum við til Fontenoy Le Chateau kl. 14:25.

Við byrjuðum á að leggjast við legukant rétt neðan við þjónustumiðstö bátaleigunnar "Crown Blue Line", mjög gott lægi við bakka skurðarins. Fyrir ofan hellilagðan legukantinn var trágarður, húsbílastæði og þjónustuhús fyrir sturtur og snyrtingar. Ofan við garðinn tók við brú yfir ánna Le Coney áður en komið var upp í miðbæ Fontenoy Le Chateau. Bærinn var reyndar beggja megin skurðarins og gegnt okkur teygði hann sig upp eftir bröttum hlíðum, mikið grónum. Við komu var byrjað á að ganga frá formlegum málum, hafnargjaldi o.þ.h. auk þess sem ég lagði drög að því að fá olíu á bátinn, loksins eftir siglinguna frá Neumagen í Þýskalandi. Til að spara pláss var bátum bátaleigunnar lagt þannig með garðinum, þar sem þjónustumiðstöðin er, að allir voru með skutinn að en stefnið út, þétt með hver öðrum. Fyrir neðan olíutankinn var hins vegar haldið opnu þröngu bili sem bakka þurfti inn í til að komast að honum. Einn bátur var að taka olíu þegar við komum og var mér sagt að ég væri næstur. Þessi bátur var búinn að vera samferða okkur hluta af leiðinni og vakti athygli okkar fyrir hvað honum virtist liggja á því hann brunaði framúr okkur af og til, eingöngu til að bíða okkar svo í næstu slússu. Fór hann ítrekað yfir leyfðan hámarkshraða í skurðinum. Um borð var fullorðinn maður með ungpíu sem ferðafélaga og auðvitað ímyndaði maður sér að þarna væri á ferðinni eitthvað átsarævintýri í leynum.

Ekki leist mér of vel á að bakka inn í þetta þröngt bil, en ekki var um annað að ræða og leystum við þegar hinn báturinn var búinn að fylla og fluttum okkur í olíutökuna sem gekk eins og í sögu. Á bátinn fóru 394 l. af olíu sem var ekki mikið miðað við hvað var búið að sigla mikið. Enn var tæplega hálfur tankur á honum fyrir tökuna.

Eftir olíutökuna var svo lagst aftur að legukantinum og dagurinn notaður til að skoða sig um í bænum, sem er dæmigert sveitaþorp á Franska vísu, rólegt og friðsamt. Eins og að venju var mikið um að fólk væri á skemmtigöngum með bátunum, enda hafnir yfirleitt vinsæl svæði til að rölta meðfram og skoða fjölbreytileikann sem liggur í mannfólkinu og skipum þess.


121. Farið um 34 slússur og hámarki loksins náð

 

Reynt að grilla með blautum kolum  Félagarnir að berjat við grillið 

Sunnudaginn 26. ágúst var komið að stóru stundinni, við ætluðum að fara í gegnum 34 slússur á 31 km. langri leið. Þéttast voru þær 14 á 4 km. leið enda varð það svo að Margrét systir, sem tók að sér að vera súlumær, hætti að nenna að fara um borð á þéttasta svæðinu og gekk hún á milli þeirra og tók á móti okkur með súludansi. Á þessari leið náðum við líka hámarkshæð 360.57 m. y.s. og því var loksins komið að því að fara niður og undan straumi, eftir alla siglinguna frá Brussel.

 

Við lögðum frá Epinal kl. 09:35 eftir góða dvöl þar. Veðrið var yndislegt, sól, hiti og blíða. Siglt var sömu leið og við komum fimm dögum áður, út sundið "embranchement d´Epinal" og á brú yfir Moselle sem nú var kvödd, en samleið okkar með henni var þar með lokið, nú kæmu önnur fljót með suðlægar stefnur. Ekki veit ég hvaða tilfinningar bærðust í brjósti nýju áhafnarinnar þegar við komum að fyrstu slússunni þarna í morgunsárið en nú var komið að frú Lilju að kenna þeim þau handbrögð sem fylgja að leggja að slúsuveggjunum, binda, totta landfestar eða slaka, eftir því hvort farið var upp eða niður, spila á súlurnar, leysa og vera viðbúinn að fendara síðurnar ef báturinn ætlaði að rekast í veggina, í straumkasti. Með góðum leiðbeinanda eins og frú Lilju voru þau orðin fulllærð í þriðju slússu og gekk því allt eins og í sögu.

Eftir fyrstu 14 slússurnar vorum við komin í hámarkshæðina og varð nú friður með klst. siglingu sem notuð var m.a. til að setja hr. Sigurð í að læra að stýra MY LILJU BEN. Þarna liggur Canal Des Vosges í há-vestur. En þegar svo kom að fyrstu slússunni á niður leið beygir hann aftur í suður, en nú leyndu sér ekki fleiri breytingar. Fram að þessu höfðum við alltaf komið að slússunum með hliðin rísandi eins og ógnvekjandi vegg fyrir framan okkur. Þegar búið var að opna og við sigldum inn voru 3 m. háir veggirnir sitt hvoru megin, slímugir og blautir og hliðið sem lokaði fyrir vatnið hinu megin virkaði ansi lítilfjörleg vörn fyrir 3 m. háum vatnsveggnum hinu megin. Þegar svo var búið að loka hliðum og lokurnar voru opnaðar til að láta streyma inn í slússuna varð mikill straumkur og iðuköst inni í slússunni sem var eins gott að vera klár að mæta og var stundum nokkurt stríð við að halda bátnum kyrrum í þeim látum. Nú komum við hins vegar að slússunum í hástöðu þannig að hliðin sem að okkur veittu voru rétt yfir vatnsborðinu og mjög sakleysisleg að sjá og þegar siglt var inn var líkast því að farið væri inn í barmafulla sundlaug. Þegar svo var látið renna úr var allt með kyrrum kjörum því vatnið streymdi nú út í skurðinn fyrir neðan og það eina sem nú varð að passa var að slaka jafn óðum á spottanum, sem bundið var með, þar sem báturinn húrraði nú niður með veggjunum.

Annað sem breyttist líka var að nú vorum við komin yfir vatnaskil Frakkalands þannig að litla áin sem kom af og til í ljós til vinstri inn á milli tránna "Coney" rann nú samhliða okkur en ekki á móti eins og Moselle gerði. Það var léttir í mínu hjarta og vona ég að það hafi verið líka í hjartanu hennar frú Lilju. ´Við vorum komin yfir erfiðasta hjallann.

Kl. 16:54 lögðumst að bakka við áningarstað í litlu útskoti við Canal Des Vosges, í sveitaþorpinu Forges D´Uzerman, fyrir aftan Svissneskan bát sem þar hafði líka valið sér næturstað. Á leiðinni hafði ég haft stór orð um dásemd þess að grilla góða steik í lok ferðar og var nú grillið sett saman, kolin sótt í geymsluna aftan á bátnum, kveikjaragel og kveikt í. Trúlega vorum við búnir að hanga yfir kolunum í klukkutíma, við Sigurður, þegar við töldum orðið fulljóst að þau voru það rök að útilokað væri að fá þau til að glóðhitna. Fyrir bragðið endaði grillsteiknin sem pönnusteik og bragðaðist vel í kvöldkyrrðinni, en deginum var svo lokið með gönguferð í myrkrinu um sofandi sveitaþorpið.


Skipstjóri er ábyrgur fyrir siglingu skips

Ég tek undir það álit hafnarstjórnar Hornafjarðar sem kemur fram í fréttinni. Alveg óháð því hvað hafnsögumaður sagði eða ekki sagði þá er það frumskylda hvers skipstjóra að fullvissa sig um að skipið sé rétt í leiðarmerkjum t.d. réttum ljósgeira vita, hvar það er statt, áður en stefna er sett og að sú stefrna sem sett er leiði örugglega framhjá öllum hættum (boðum).
mbl.is Ábyrgðarleysi að varpa ábyrgð á strandi á hafnsögumann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband