Wire Conquerer strandar í janúar 1966

Mynd af togurum við Vestmannaeyjar fengin af www.togarar.is

Togarar vi� Vestmannaeyjar

 Það gekk mikið á um borð í Óðni fyrri hluta ársins 1966, eins og reyndar öll árin sem hann var í þjónustu lands og þjóðar. Verður hér fjallað um atburði á fyrstu mánuðum þess árs, atburði sem gefa dæmigerðan þverskurð af þeim „hversdagslegu“ verkefnum sem glíma þurfti við á Óðni sem og öðrum varðskipum á sjöunda áratugnum, milli þorskastríða.

Wire Conquerer strandar.

Óðinn lagðist við akkeri undir Eiðinu í Vestmannaeyjum að kvöldi mánudagsins 17. janúar eftir að hafa dregið nótabátinn Þorgeir GK þangað með nótina í skrúfunni. Var báturinn sóttur fyrr um daginn 14 sml. suður af Ingólfshöfða.  Kafari Óðins, sem var III. stýrimaður í þessari ferð, kafaði við bátinn og skar úr skrúfunni og var ekki öfundsverður af, því við lá að froskbúningurinn frysi utan á honum í frostinu. Næstum daglegt brauð á veiðislóðum bátaflotans á þessum tímum, sem sést m.a. á því að þrem dögum áður hafði verið skorið úr skrúfunni á Guðjóni Sigurðssyni VE 120, þar sem hann var staddur 21 sml. suður af Ingólfshöfða. Nú hafði veður versnað svo að draga þurfti Þorgeir GK í var áður en hægt var að skera úr skrúfunni. Það var búist við rólegheitum þarna um nóttina því veður átti frekar að ganga niður þar sem öflugur hæðarhryggur var að teygja sig frá Grænlandi og yfir landið með vaxandi frosti og éljagangi norðan- og austanlands.

Nóttin leið án tíðinda um borð í Óðni, en rétt fyrir kl. 0900 um morguninn kom kall frá breska togaranum Huddersfield Town sem tilkynnti að togarinn Wire Conquerer FD 187 hefði strandað um nóttina „1/2 N frá Portlandsvita“ (vitanum á Dyrhólaey) hvað sem það þýddi nú. Hafði Wire Conquerer strandað um kl. 0100 og þá kallað í breska togarann Dillingham, sem var skammt frá, til að athuga hvort þeir gætu komið til aðstoðar við að ná togaranum út, sem hann taldi sig ekki geta. Sendir Wire Conquerer var svo veikur að ekki náðist í nema næstu stöðvar. Skipstjórinn taldi litla hættu á ferðum enda Wire Conquerer á réttum kili og aðeins um 20 m. frá landi. Það var því ekki fyrr en kl. 0850, þegar Hudderfield Town kallaði í Óðinn, sem tilkynning um strandið barst til íslenskra björgunaraðila. Við boðin breyttist andrúmsloftið um borð í Óðni. Akkerið var híft í skyndi og stefnan sett grunnt austur með landinu til leitar að strandinu. Staðarákvörðunin sem gefin hafði verið var enganvegin marktæk. Var keyrt á fullri ferð móti austan 6-7 vindstigum. Haft var tafarlaust samband við Landhelgisgæsluna sem kom boðunum áfram til Slysavarnafélagsins. Kom Slysavarnafélagið boðunum áfram til björgunarsveitarinnar undir Eyjafjöllum um að togari væri sennilega strandaður vestan við Dyrhólaey. Byggði það mat á þeirri óljósu staðarákvörðun sem gefin hafði verið. Björgunarsveitin „Von“ fór því niður á Sólheimafjörur og greip þar í tómt, ekkert skip sást þar strandað. Var nú ákveðið að björgunarsveitir biðu átektar meðan Óðinn leitaði betur að strandinu. Um kl. 1030 var orðið ljóst af miðunum, sem framkvæmdar voru á Óðni, á senditæki Wire Conquerer, sem búið var að ná sambandi við, að hann væri orðinn nálægur og trúlega strandaður einhversstaðar í námunda við ósa Múlakvíslar, austan við Vík í Mýrdal, enda var ekki að sjá neitt strandað skip frá Óðni séð, sem búinn var að sigla grunnt með ströndinni austur undir Dyrhólaey. Var því kallað í Loranstöðina á Reynisfjalli og hún beðin að koma þessum upplýsingum til björgunarsveitarinnar í Vík. Eftir því sem Óðinn nálgaðist strandstaðinn varð miðunin nákvæmari og rétt fyrir kl. 1100 var komin nákvæm staðsetning á Wire Conquerer milli Múlakvíslar og Miðkvíslar á Mýrdalssandi. Þá var björgunarsveitinni beint á þann stað, en tíður éljagangur var búinn að hamla skyggni austur með Mýrdalssandi, frá bæjunum austan Víkur.

Þegar Óðinn lagði af stað frá akkerislæginu undir Eiðinu var strx farið að gera báta varðskipsins klára, línubyssu, björgunarvesti, tildráttartaugar og dráttarvíra ef á þyrfti að halda. Í brúnni stóð yfirstýrimaðurinn vaktina og skipherra var mættur til að hafa yfirumsjón með aðgerðum. Loftskeytamaðurinn var á sínum stað og annaðist öll talstöðvaviðskipti við land og önnur skip sem málið varðaði. Þegar komið var austur á strandstaðinn kl. um 1155 kom hins vegar í ljós að ógjörningur var að komast að togaranum frá sjó til að bjarga áhöfninni. Miklir brimskaflar voru svo til sleitulaust milli Óðins og strandaða skipsins, enda braut á tveim sandrifum sem togarinn hafði skrönglast yfir og beint upp í fjöruna. Var nú lagst við akkeri undan strandstaðnum enda kom í ljós að björgunarsveit Slysavarnafélagsins í Vík „Víkverji“ var komin í fjöruna ofan við togarann og voru togaramenn að fleyta línu í land fyrir björgunarmenn að koma fyrir björgunarstól með tildráttarlínum. Ekki kunnu togaramenn að festa blökkina um borð í togaranum með s.k. tildráttartaug og endaði það bras með því að einn björgunarmannana í landi, Reynir Ragnarsson, las sig eftir líflínunni sem komin var um borð og gekk frá björgunarstólnum þannig að björgun gat hafist. Gekk nú greiðlega að ná öllum 18 áhafnarmeðlimunum í land, auk Reynis þannig að kl. 1338 tilkynnti björgunarsveitin Óðni að björgun áhafnar væri lokið og farið yrði með hana til Víkur.

Því má bæta hér inn í að skipstjóri Wire Conquerer, Matthew Mecklenburgh og áhöfn hans voru að fara þessa einu ferð á Wire Conquerer, til veiða hér við land, en voru annars venjulegast á togaranum Imperialist við veiðar hérna. Hafði Matthew skipstjóri og áhöfn hans á Imperialist sýnt mikla hugdirfsku og áræðni við að bjarga níu manna áhöfn vélbátsins Stráks frá Grindavík, þegar hann var að reka upp í Krísuvíkurbjargið nákvæmlega þrem mánuðum fyrir þennan atburð. Var Matthews og áhöfn hans heiðruð sérstaklega af Slysavarnafélagi Íslands fyrir þetta afrek.

Um borð í Óðni var nú hafist handa við að undirbúa björgun togarans úr strandinu, en hann var óskemmdur. 5 tommu dráttarvír var tekinn úr vírageymslu undir skutþiljum og komið fyrir á 20 tonna dráttarspilinu. Sjósettur var vélbátur og handlóðað dýpið aftan við togarann og út frá honum, það teiknað upp og kortlagt með nýju byltingarkenndu tæki sem nýlega var búið að koma fyrir um borð í Óðni, s.k. „photo plot“, sem var samtengt Kelvin Huges ratsjánni. Þetta tæki, sem var sett í Óðinn 22. febrúar 1965, var í raun mjög hraðvirk myndavél, sem tók myndir af radarskjánum í sífellu, framkallaði og varpaði síðan upp á stóra borðplötu úr gleri. Rann filman af 16 mm. spólu í töku, þaðan í framköllun, síðan í sýningu og að því lokum á aðra spólu. Hægt var að strekkja gegnsæjan pappír á plötuna og skrifa inn á myndirnar athuganir og minnisatriði. Frá því að myndin var tekin, hún framkölluð og henni síðan varpað upp til skoðunar, liðu ekki nema 3 og ¾ úr sekúndu þannig að með því millibili mátti alltaf fá nýja mynd af radarskjánum til skoðunar. Þannig mátti skrá jafnóðum þær hreyfingar, sem komu fram á milli mynda, á pappírinn sem strengdur var á glerborðið. Myndirnar voru dag- og tímasettar svo auðvelt var að rekja atburðarásina síðar, eins og hún birtist á radarskjánum, t.d. fyrir dómstólum ef þurfa þótti. Þetta þótti mikil tækniframför, áður en stafræna myndbands- og tölvutæknin sem nú er notuð, við upptöku og varðveislu á gögnum, kom til sögunnar. Þótti tækið svo merkileg nýjung í siglingatækni að hálfu öðru ári eftir að þessi atburður átti sér stað, sem hér greinir, (12. ágúst 1967) var Haraldur krónprins Noregs (núverandi konungur) á ferð með Óðni, í opinberri heimsókn til Íslands. Varð hann svo uppnuminn af tækinu og innviðum þess að íslenskir ráðherrar, sem ólmir vildu bjóða krónprinsinum upp á veitingar í forsetastofu skipsins, fóru bónleiðir til búðar, krónprinsinn var hálfur inni í „photo plottinu“ þegar boðið kom og fékkst ekki til að víkja frá því. Haraldur krónprins var þá þegar orðinn siglingafræðingur og búinn að ljúka foringjaþjálfun í Norska flotanum. Hefur hann alla tíð verið mikill siglingakappi sjálfur. Nú var „photoplottið“ notað til að gera nákvæmt kort af ströndinni, staðsetningu togarans á henni og dýpistölum aftur af togaranum, eins og sandrifin leyfðu.

Um kvöldið var öllum undirbúningi að björgun Wire Conquerer lokið um borð í Óðni. Samkomulag var að Landhelgisgæslan sendi menn austur til að undirbúa skipið undir að vera dregið út og setja dráttarvíra fasta um borð, daginn eftir. Viðbúið var að bíða þyrfti einhverja daga eftir stærri straumi og var nú vonað að veður spilltist ekki, enda spáð norðlægum áttum með snjókomu norðan- og austanlands, en björtu sunnanlands. Reyndar var aust- norðaustan 6 - 7 vindstig og snjókoma á  strandstaðnum þetta kvöld. Var Óðinn því áfram við akkeri undan Kötlutanga þegar þreyttir menn gengu til hvílu um kvöldið eftir erfið undirbúningsverk. Aðeins vaktin hélt  verði sínum á stjórnpalli og í vélarúmi að venju þetta þriðjudagskvöld 18. janúar 1966.

Áframhald innan tíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 53406

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband