Með fulla vasa af grjóti við Surtsey.

38_vi_surtsey_1963.jpgSurtsey séð frá skutþiljum Óðins

Lokafærsla í þessari sögurispu.

25 til 27. janúar var Óðinn sendur með forseta Íslands, ráðherra og listamenn til Ísafjarðar og til baka. Var snarvitlaust veður allan tímann og lenti skipið í vandræðum vegna ísingar en kláraði sig auðvitað af verkefninu. Eftir þá ferð slitnaði Óðinn frá Ingólfsgarði í Reykjavík, í ofsaveðri og 31. janúar var siglt í ofsaveðri suður fyrir land og á Norðfjörð til að flytja lækni í vitjanir til fólks á Austfjörðum. 2. febrúar voru lestaðir 10 símastaurar á Djúpavogi til að gera við símalínuna til Borgarfjarðar Eystri, sem hafði gefið sig í veðurofsa. 5. febrúar var Óðinn sendur inn á Mjóafjörð til að athuga með íbúa fjarðarins, en ekkert samband var búið að vera við Mjóafjörð í heila viku og því talið brýnt að athuga með íbúa þar. Þegar ljóst var að allt var í lagi með íbúana og búið að þjónusta fólk við að koma brýnum boðum frá þeim og til, um talstöð skipsins, var stefnan sett á Loðmundarfjörð til að athuga með fólk þar líka. Skipið var nú við ýmis störf við austur og suðurland, flutti m.a. mjólk til Seyðisfjarðar, sem var einangraður vegna snjóa, þjónustaði Breskan togara með læknisaðstoð frá Norðfirði og tók fjóra togbáta að ólöglegum veiðum út af Suð- Austurlandi. Skorið var veiðarfæri úr skrúfunni hjá nokkrum bátum, sjúkrflutningum sinnt á Vestfjörðum og nokkrir landhelgisbrjótar teknir.

Með fulla vasa af grjóti í Surtsey.

Surtsey var fast viðfangsefni frá því að gos það sem myndaði eyjuna braust út á hafsbotni í nóvember 1963. Eitt af þeim verkefnum sem oft þurfti að sinna var að flytja vísindamenn og búnað þeirra til og frá eynni. Það var kominn 2. apríl 1966 þegar Óðinn fékk það verkefni að flytja 10 vísindamenn, þ.m.t. rjómann af jarðvísindamönnum þjóðarinnar, frá Þorlákshöfn til Surtseyjar og til baka. Var fólkið tekið eldsnemma morguns í Þorlákshöfn og ferjað í land í Surtsey kl. 0645 á tveim Zodiac gúmmíbátum skipsins. Við landtökuna var nokkurt brim og vildi ekki betur til að öðrum gúmmíbátnum hvoldi í lendingunni en hinn bilaði þegar splitti gaf sig í skrúfunni. III stýrimaður sem fór fyrir bátunum féll í sjóinn í hamaganginum en varð þó ekki meint af volkinu. Í ferðum sem þessum var alltaf verið með aukasplitti í skrúfurnar á utanborðsvélunum og eftir að búið var að skipta um splitti í bilaða bátnum og setja hinn á réttan kjöl komust þeir aftur út í skip. Vísindamennirnir urðu eftir í Surtsey og var meiningin að bíða þeirra og flytja til baka þegar liðið yrði á daginn. Var fólkið í talstöðvarsambandi við Óðinn.

Kl. um 1700 var kominn suð- austan stormur og brim að aukast mikið á ströndinni og var það mat Óðinsmanna að ófært myndi orðið að lenda á ströndinni og sækja mennina þannig. Á hinn bóginn var ljóst að koma þyrfti einhverjum vistum til mannanna ef þeir ættu að dveljast mikið lengur í eynni, t.d. næturlangt. Var nú haldin ráðstefna með skipherra og stýrimönnum uppi í loftskeytaklefanum, hvernig ætti að bregðast við þeim vanda sem upp var kominn með 10 manna hóp vísindamanna fastan í eynni, skjóllítinn og matarlausan, í brjáluðu veðri. Haft var samband við Landhelgisgæsluna og hún beðin að athuga hvort hægt væri að fá flugvél til að henda út vistum fyrir fólkið, en menn treystu sér ekki til þess í þessu veðri, enda náttmyrkur einnig að bresta á. Taldi hinn merki flugkappi Björn Pálsson algjört óráð að reyna það við þessar aðstæður. Að fenginni þessari niðurstöðu var ákveðið um borð í Óðni að freista þess að sækja mennina og koma þeim um borð. Var ákveðið að Óðinn færi í eins mikið var og hægt yrði að finna norð- vestan við Eynna og að þar yrði vélbátur skipsins sjósettur ásamt gúmmíbát. Yrði vélbátnum siglt eins nærri brimgarðinum og hægt væri, með gúmmibátinn í eftirdragi. Þegar þangað yrði komið myndi línu verða skotið í land með línubyssu skipsins. Áttu „strandaglóparnir“ síðan að draga gúmmíbátinn með línunni, upp í fjöruna til sín jafnóðum og slakað yrði á tógi sem tengdi gúmmibátinn við vélbátinn. Síðan átti fólkið að fara í gúmmibátinn og leggjast niður í botninn og halda sér sem fastast í bönd sem strengd eru með hliðum bátsins, meðan vélbáturinn drægi þau út í gegnum brimgarðinn. Var nú þessum boðum komið til fólksins, gegnum talstöðina auk þess sem fyrirmælin voru skýrt skrifuð og sett í plastvasa sem síðan yrði festur við gúmmíbátinn.

9_orarinn_bjornsson_skiph_vs_ni_iii_1966.jpgAllt gekk þetta eftir, siglt var noð- vestur fyrir Surtsey, vélbátur og gúmmibátur sjósettur og farið upp undir brimgarðinn. Á vélbátnum voru yfirstýrimaður II. stýrimaður, bátsmaður og IV. vélstjóri. sá hinn sami og hrataði í sjóinn við björgun Wire Conquerer. Línunni var skotið í land, fólkið dró til sín gúmmibátinn, lagðist niður í hann og gaf merki um að draga út. Báturinn hvarf nokkrum sinnum þegar hann fór í gegnum brimskaflana en birtist alltaf aftur stútfullur af sjó með fólkið liggjandi holdvott í botningum. Þegar gúmmíbáturinn var kominn að vélbátnum var fólkið drifið yfir í hann og í skjól inni í yfirbyggingunni, meðan bátunum var siglt yfir að Óðni. Eitthvað fanst varðskipsmönnum þó torkennilegt við fólkið, sem búið var að bjarga með þessum hætti í gegnum brimið, það var mun bústnara en þegar það fór í land. Við nánari athugun kom í ljós að fólkið hafð safnað í alla vasa grjóti úr eynni og ekki nóg með það heldu troðið grjóti líka í úlpur sínar og bundið fyrir að neðan, til að missa það ekki. Þegar þetta var ljóst reiddist yfirstýrimaðurinn skyndilega og jós úr skálum reiði sinnar yfir fólkið. Bent hann á að ef eitthvað hefði farið úrskeiðis hefð hvert og eitt þeirra sokkið eins og „steinn“ og enga björg sér getað veitt frá tafarlausri drukknun. Allir komust hins vegar heilir um borð í Óðinn þar sem fólkinu beið næring, skjól og kostur á heitri sturtu.

Myndin er af Þórarni Björnssyni skipherra á Óðni,  þess tímabils sem færslurnar fjalla um.


Wire Conquerer dreginn á flot

 "Photo Plot" skoðað um borð í Óðni.94_sama_og_88.jpg

Framhald frá 23. sept.

Óðinn flutti nú farðega TF EIR til Norðfjarðar og skilaði þeim þar á land. Var síðan haldið beint á strandstað Wire Conquerer því nú skyldi freistað að ná honum út á morgunflóðinu laugardaginn 22. janúar. Var skipið stanslaust keyrt á ýtrustu ferð. Um borð í Wire Conquerer voru búnir að vera þrír menn frá Landhelgisgæslunni til að undirbúa björgunina og höfðu nú skipstjóri, stýrimaður og 1. vélstjóri togarans bæst við. Kl. 0650 21. janúar var Óðinn kominn á strandstað Wire Conquerer og var nú tafarlaust byrjað að vinna að björgun togarans úr strandinu.

Var nú farið á vélbát Óðins og dýpið mælt alveg upp að ytra sandrifinu. Þegar þangað var komið skutu mennirnir á togaranum línu út til vélbátsins, sem áhöfn hans náði, en fljótlega varð ljóst að mikill straumur vestur með landinu myndi valda erfiðleikum með dráttarlínurnar. Þegar mennirnir á vélbátnum höfðu náð línunni drógu þeir að sér kaðal sem þeir settu svo fastan í vélbátinn og ætluðu að draga út að Óðni. En um leið og byrjað var að draga kaðalinn í áttina að Óðni hreyf straumurinn hann, þar sem hann flaut í yfirborðinu og hrakti bátinn út af stefnunni til skipsins, þar til Óðinn var orðin þvert af bátnum. Gáfust menn upp á að fara þessa leið og voru togaramenn beðnir að hífa kaðalinn aftur inn, en skotlínunni var haldið ósnertri milli Wire Conquerer og vélbátsins. Var vélbátnum nú siglt aftur upp undir ytra rifið og síðan vel austur með því þar til að um 45ᴼ horn var við stefnulínuna út í Óðinn frá Wire Conquerer. Voru nú togaramenn beðnir að slaka kaðlinum út með látum og hann dreginn inn í vélbátinn jafn óðum þar til nóg var komið til að leggja út í varðskipið. Var vélbáturinn keyrður upp í strauminn á meðan til að halda honum kyrrum á sama stað. Þegar búið var að innbyrða nægilegt af kaðlinum í vélbátinn var honum stefnt á Óðinn. Var kaðallinn látinn renna út af skutnum meðan siglt var á fullri ferð að Óðni og stóð það á endum að þegar kaðalspottanum var náð um borð í Óðinn, var hann byrjaður að mynda bugt vestur fyrir skipin, þar sem hann flaut á sjónum. En nú var komið nægilega traust samband milli skipanna svo hægt væri að hafjast handa við að koma dráttarvírum á milli.

Kaðlinum var nú brugðið á spilkopp um borð í Óðni og annar togvír togarans dreginn af togspili hans um borð í Óðinn. Að því loknu var 5 tommu dráttarvír Óðins lásað í togvír togarans sem dró hann svo með togspilinu um borð til sín. Um borð í Wire Conquerer voru menn búnir að gera öfluga „vírabrók“ utan um alla yfirbyggingu togarans og var nú dráttarvírnum lásað í þessa brók. Ekki þótti vogandi að treysta festingum á pollum togarans, því menn höfðu reynslu af að öflug dráttarskip gátu rifið pollana upp úr dekkinu í átökunum. Áttu menn eftir að sjá áþreifanlegt dæmi um slíkt áður en yfir lauk í þessum átökum.

Kl. var um 2020 um kvöldið þegar þessum undirbúningaðgerðum var lokið. Hafði undirbúningurinn tekið þrettán og hálfan tíma við tómt sreð og átök. Var nú ákveðið að bíða til morgunflóðsins og byrja að toga í togarann um hálf fjögur um nóttina 22. janúar.

Kl. 0320 varð ljóst að togarinn var byrjaður að heryfast undan öldunni á strandstaðnum og var þá byrjað að toga í togarann með hálfu vélarafli. Kl. 0345 tilkynnir Wire Conquerer að hann sé laus úr fjörunni og er þá vélaraflið í Óðni aukið á fullt til að rífa togarann yfir sandrifin. Kl. 0349 slitnar svo dráttavírinn með miklum látum svo Óðinn „hentist áfram, en var snarlega stöðvaður. Vélbátur Óðins, sem var hafður til taks á síðunni meðan átökin fóru fram fékk slikan slink á sig að IV. vélstjóri sem var um borð í bátnum hrataði fyrir borð og í sjóinn. Náði hann með naumindum taki á lensporti og hékk þar þangað til hann var aðstoðaður um borð án þess að verða meint af. Átökin á dráttarvírinn höfðu verið svo mögnuð að þegar fyrirstaðan af sandrifunum kom á Wire Conquerer reif vírinn út úr kefa bakborðsmegin á skut togarans, sem hann var tekinn inn um, og skar lunningu togarans, með styttum og öllu, aftur á skut eins og dósahnífur áður en hann slitnaði við ósköpin. En Wire Conquerer var laus úr strandinu og lagði af stað fyrir eigin vélarafli til Reykjavíkur kl. 0400.

Meðan allt þetta gekk á var „photoplottið“ haft í gangi og voru því varðveittar myndir af öllum hreyfingum skipanna miðað við ströndina. Komu myndirnar að góðu gagni í sjódómi Reykjavíkur þegar björgunarmálið var lagt þar fram.

32_komi_me_thyrluna_fra_sau_arkroki_1970.jpgÓðinn fylgdi Wire Conquerer áleiðis til Reykjavíkur og fékk áhöfnin nú kærkomið frí eftir erfiða daga og nætur. 24. janúar var þyrlan hífð í land af Óðni eftir að búið var að taka af henni spaðana. Var hún hálf aumkunarverð að sjá strípuð á vörubílspalli á leiðiini út á flugvöll.

TF EIR í pörtum á vörubílspalli


TF EIR skemmist í lendingu

 TF EIR lent á Óðni11_tf-eir_dekki_ins_iii_sja_lista.jpg

Framhald af búið um op á maga

Snemma um morguninn 20. janúar komu fyrirmæli frá Landhelgisgæslunni um að fara suður að Breiðamerkurlóni og taka þar við þyrlu Landhelgisgæslunnar TF EIR sem koma myndi með formann Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og formann Flugslysanefndar Flugmálastofnunar. Var Óðni falið að flytja þá þaðan austur á Norðfjörð. Þeirra hlutverk átti að vera að skipuleggja mun umfangsmeiri leit á grundvelli upplýsinga sem borist höfðu frá bæjum á austur- og suðausturlandi. Síðan var meiningin að nota TF EIR til leitar í fjöllunum á Austfjörðum þar sem snjókoman fór dvínandi.  Var mönnum í fersku minni leitin að millilandavélinni Geysi sem fórsta á Bárðarbungu í september 1950, sem lauk fimm dögum seinna með giftusamlegri björgun áhafnarinnar sem var öll á lífi. Það var loftskeytamaðurinn á varðskipinu Ægi sem hafði heyrt dauft kall frá neyðarsendi flugvélarinnar og gat beint leitarvélum á svæðið.

Óðinn var kominn undan Breiðamerkurlóni um hádegi þann 20. janúar og kom þyrlan austu nokkru síðar og hóf fljótlega aðflug að skipinu. Kyrrt var í sjóinn, í landvarinu undan ströndinni, og kom TF EIR aftan að skipinu undir 20 til 30ᴼ horni inn á þyrludekkið en Óðni var siglt á hægri ferð á meðan í norð- austlæga stefnu. Þyrlan gat því nálgast þyrlupallinn beint upp í vindinn, án þess að vindurinn væri truflaður af yfirbyggingu og reykháf skipsins. Á þyrludekkinu var II. stýrimaður sem leiðbeindi þyrlunni inn til lendingar með merkjaflöggum og þar að auki tveir hásetar, hver með sinn kaðalspotta til að hlaupa á þyrluna um leið og merki væri gefið um að bind hana fasta. Mjög áríðandi var að þyrlan væri strax bundin föst, eftir að hún væri tryggilega lent svo hún hrataði ekki fyrir borð ef eitthvað kæmi uppá. Annar háseti var til staðar með stórt slökkvitæki, brunaslanga var tengd við brunahana á skipinu, sem vatnsþrýstingur var á og Zodiacbátur var tilbúinn til tafarlausrar sjósetningar ef ná þyrfti mönnum úr sjó. Stýrimaðurinn hélt græna fánanum á lofti sem merki um að lending væri heimil og horfði beint á flugmanninn þegar hann lempaði þyrluna inn á dekkið og hlammaði henni svo niður, á svo til miðjan hvíta krossinn, sem málaður er á mitt þyrludekkið. Kl. var 1419 þennan fimmtudag 20 janúar. Styrkur þessa „teymisvinnu“ fólst m.a. í því að stýrimaðurinn var líka búinn að starfa á þyrlunni og þekkti því vel til vinnubragða um borð í henni, og flugmaðurinn var skipstjórnarmenntaður og búinn að starfa sem stýrimaður á varðskipum, m.a. Óðni, og þekkti því í þaula hegðun skipsins og vinnubrögð þar um borð. Um leið og véli hlammaði sér á þyrludekkið gaf stýrimaðurinn hásetunum tveim, sem voru í viðbragðsstöðu með kaðlana, merki og þeir hlupu tafarlaust á þyrluna og settu hana fasta við kengi sem eru á þyrludekkinu. Þá fyrst slökkti flugmaðurinn á mótor þyrlunnar og spaðarnir byrjuðu að hægja á snúningnum, sem tók smá tíma áður en flugmaðurinn gat farið að bremsa hann niður. En þá gerðist óhappið. Slinkur kom á þyrluspaðana og rakst annar þeirra með miklum hvell í stél þyrlunnar. Afleiðingin var svakaleg. Beygla kom í stélið og spaðinn skemmdist það mikið að ljóst var að þyrlunni yrði ekki flogið frá skipinu. „Tailrotorinn“ var þar að auki óvirkur eftir höggið. Sem betur fer var búið að binda þyrluna fasta þegar þetta varð, svo þrátt fyrir að mikið kast kæmi á hana haggaðist hún ekki á dekkinu.

Nú var ljóst að þyrlan yrði um borð næstu daga meðan sinna yrði brýnni skyldustörfum en að losa sig við hana. Var nú unnið að því að færa hana nær reykháfnum og þrælbinda hana niður á dekkið. Var böndum bætt á stélið og spaðana til að þeir gætu ekki heldur hreyfst. Reynt var að breiða yfir viðkvæmustu hluta „þyrlurótorsins“ til að vernd hann fyrir særoki sem væntanlegt var, enda ekkert þyrluskýli komið á skipið. Um leið og búið var að ganga tryggileg frá þyrlunni voru válar enn settar á fulla ferð og stefnan sett enn og aftur austur með landinu. Reyndar var leitin að TF AIS að taka miklum breytingum. Áherslan var að beinast að svæðum á landi s.s. að Eyjafjalla- og Mýrdalsjökli, norðanverðum Vatnajökli, ströndinni frá Hjörleifshöfða austur að Lóni og fjalllendinu á Lónsöræfum. Voru þessi viðfemu leitarsvæði byggð á fréttum frá bæjum þar sem fólk taldi sig hafa heyrt flugvéladyn um kvöldið 18. janúar. Slíkar upplýsingar höfðu borist frá Brú á Jökuldal, Seyðisfirði, Breiðdalsvík, Berunesi og Álftafirði svo einhverjir staðir séu nefndir. Var leitarsvæðið því orðið mjög víðfemt.

TF EIR lendir á Óðni 1966

 Framhald á morgun01_tf-eir_a_thilfari_ins_mai_1965.jpg


Nýja fílahjörðin

Þá er búið að skipta um fílahjörð í postulínsbúðinni. Á árunum 2000 til 2008 mölvaði fílahjörð Viðskiptaráðs flest sem mölva mátti í búðinni. Því er spurning hvort eitthvað sé eftir fyrir fílahjörð Alþingis að brjóta?
mbl.is „Lýsa ótrúlegri vanþekkingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er Alþingi

Ráðherra endurskoðar lög?? Síðan hvenær? Endurskoðar Alþingi ekki lög, lögjafasamkundan? Eða höfðu alþingismenn ekki græna glóru um galla á lögunum. Enginn hinna 62 utan Guðbjarts?
mbl.is Ráðherra endurskoðar lög um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið um op á maga

faskru_sfj_vetur.jpg

Mynd: Fáskrúðsfjörður um vetur.

Framhald frá  Beechcraft vélin TF AIS....

Um kvöldið var Óðinn staddur við bryggju á Fáskrúðsfirði og dokaði þar við eftir björgunarsveitarmönnum sem flytja átti milli fjarða vegna leitarinnar. Þegar ég var að koma af vaktinni kl. um 2000, til að fá mér kaffisopa í messanum áður en ég færi að hvíla mig eftir amstur dagsins, mætti  mér ókunnur maður sem hafði komið inn um dyrnar stjórnborðsmegin á ganginn þar sem íbúðir skipherra, yfirvélstjóra og yfirstýrimanns eru. Bauð maðurinn gott kvöld og tók ég eftir því að út úr vinstri nös mannsins lá bandspotti sem plástraður var á vinstri kinn mannsins. „Gott kvöld“ ansaði ég, með spurnarsvip á andlitinu. „Ég kem nú í óvenjulegum erindagerðum“ sagði maðurinn. „Þannig er að fyrir nokkru varð mér á að drekka lút sem brenndi vélindað og magaveggi alvarlega þannig að flytja þurfti mig nærri dauða en lífi með flugvél til Reykjavíkur. Þeim tókst að bjarga lífi mínu á Landsspítalanum, en ég verð að vera með kera niður í magann og op á sjálfum maganum sem ekki er enn gróið. Það er nauðsynlegt að skipta um umbúðir á þessu opi daglega, því það vessar úr maganum sem brennir holdið í kring. Hefur hjúkrunarkonan í þorpinu séð um það. Hún þurfti hins vegar að fara upp á Egilsstaði í fyrradag og hefur ekki komist til baka vegna snjóþyngslanna þannig að mér datt í hug að koma um borð og biðja ykkur um að  skipta um umbúðir á opinu því sömu umbúðir eru búnar að vera allt of lengi. Þið eigið að kunna slíkt eftir námið í Stýrimannaskólanum er það ekki?“. Mér varð fyrst fyrir að stara á þennan gest og hugsa með sér. „Það er annað að takast á við aðgerðir vegna slyss sem verður um borð í skipi út á sjó, þar sem áhöfnin verður að vera sjálfri sér nóg um allt, en að taka að sér hlutverk hjúkrunarkonu eða læknis í landi er allt annað“. Ég var svo sem búinn að sauma saman höfuðleður á einum háseta, eftir slys um borð í varðskipi og ganga frá opnu handarbroti á bátsmanni um borð í öðru. En þar var ekki um að ræða einhvern sem kom bara af götunni svo hér gat verið á ferðinni spurning um ábyrgð. Hvað ef eitthvað yrði gert rangt? Var hægt að baka Landhelgisgæslunni skaðabótaábyrgð? Bað ég því mannin um að bíða augnablik og tók þá ákvörðun að bera málið undir skipherrann. Niðurstaðan úr því samtali varð að  við skyldum sinna beiðninni og sagði ég manninum að ylgja mér niður í sjúkraklefann og leggjast á „aðgerðarbekkinn“. Náði ég svo í III. stýrimann mér til fulltingis við umbúðaskiptin eftir að hafa skoðað magaop mannsins og þær umbúðir sem fyrir voru, eins og þær voru orðnar kræsilegar eftir tveggja daga veru. Sem betur fer var yfirdrifið nóg af öllu og þ.m.t. umbúðum í sjúkraskáp Óðins til að þrífa, sótthreinsa og búa aftur um opið, auk þess sem okkur tókst að halda okkar verklagi og einbeitingu við það, þrátt fyrir mikinn fnyk sem lagði frá sárinu meðan það stóð opið. Fór maðurinn ánægður og hress í land eftir hjálpina. Óðinn yfirgaf svo Fáskrúðsfjörð skömmu seinna með björgunarsveitarmenn frá Fáskrúðsfirði sem áttu að leita svæði norðan Loðmundarfjarðar daginn eftir.

Framhald bráðlega


Beechcraftvélin TF AIS týnist út af Norðfirði.

Framhald af Wire Conquerer strandar:

beechcraft.jpg

Mynd fengin af www.beechcraftheritagemuseum.org

En ró næturinnar var skyndilega rofin þegar áríðandi skeyti barst frá höfuðstöðvum Landhelgisgæslunnar kl. 0325 þessa aðfararnótt miðvikudagsins 19. janúar. Beechcraft flugvélin TF AIS, sem var á leið til Norðfjarðar, frá Egilsstöðum eftir eldsneytistöku,  og átti að lenda kl. um 2200 var ekki komin fram, en síðast var haft samband við vélina kl. 2212. Var hún þá að lækka flugið yfir sjó, eftir að hafa flogið yfir radiovitann á Norðfirði, og taldi flugstjórinn að þeir sæju niður á sjóinn. Vélin hafði verið kölluð út til sjúkraflutnings og voru tveir menn um borð, flugstjóri og aðstoðarflugmaður. Dimm él gengu yfir Austfirði þetta kvöld og var þetta það síðasta sem heyrðist til vélarinnar. „Farið tafarlaust til leitar út af Norðfirði“ hljóðuðu fyrirmælin sem nú bárust um borð í Óðinn.

Enn fór allt á fullt. Akkerið var híft upp með hraði og vélarnar settar á ýtrustu ferð eftir að vinnsluhita var náð. Var stefnan sett áfram austur með Suð- Austurlandi og svo áfram norður með Austfjörðum. Óðinn rótaðist gegn vindi og sjó og ísing byrjaði að setjast á skipið fyrst í stað meðan særokið frussaðist yfir, en þegar líða tók að morgni lægði vind og sjó þannig að ísingin náði ekki að verða vandamál. Nú brá svo við hins vegar að snjókoma var orðin svo til sleitulaus og skyggni því lítið, þannig að treyst var á blindsiglingu eftir radar.

Óðinn kom á leitarsvæðið út af Norðfirði um kl. 1500 og hóf þá skipulagða leit að flugvélinni ásamt fleiri skipum, en leit þeirra var samræmd frá Óðni. Mikil snjókoma var búin að spilla færð á landi um alla Austfirði svo að Óðinn var líka notaður til að flytja björgunarsveitarmenn milli fjarða og á eyðistrendur til leitar á landi. Leið 19. janúar við stanslausan eril við leit og flutninga með björgunarsveitarmenn milli leitarsvæða. Leit úr lofti var útilokuð vegna snjókomunnar.

Framhald á morgun

 

 


Trúverðugleiki?

Var einhverjum trúverðugleika að tapa? Miðað við að 13% þjóðarinnar hafi haft traust til Alþingis fyrir mörgum mánuðum er varla nokkru hægt að tapa.
mbl.is Trúverðugleiki Alþingis í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt var þetta vitað og sjálfsvorkun til vansa.

Alþingi skipaði níu manna nefndina. Alþingi gerði sér fyllilega grein fyrir að svona gæti farið, að beitt yrði lögum um ráherraábyrgð og landsdóm. En þegar til alvörunnar kemur hrópar þingheimur um hversu erfiðar ákvarðanir þurfi að taka til afstöðu í málum samstarfsmanna og félaga.

Hugsa sér vesælddóminn. Hversu oft haldið þið að lögreglumenn þurfi að rannsaka sekt félaga, vinar, fjölskyldumeðlims  eða skólasystkyna svo dæmi séu nefnd? Hversu oft skyldi það henda sjúkraflutningamenn að koma að fársjúkum eða limlestum fjölskyldumeðlim, vini, kærustu eða samstarfsmanni, veita honum aðhlynningu, endurlífgun eða nábjargir? Eða fólkið í heilbrigðisstéttunum. Hversu oft þurfa slökkviliðsmenn að berjast við elda í eignum vina og vandamanna?

Ég veit að þingmenn í sínum sjálfhverfa hroka munu hugsa "þessi veit ekki hvað hann segir því þetta er allt annað". En það er ekki svo, eini munurinn er að það brennur ekki á ykkar eigin skinni.


mbl.is Ekki sammála Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wire Conquerer strandar í janúar 1966

Mynd af togurum við Vestmannaeyjar fengin af www.togarar.is

Togarar vi� Vestmannaeyjar

 Það gekk mikið á um borð í Óðni fyrri hluta ársins 1966, eins og reyndar öll árin sem hann var í þjónustu lands og þjóðar. Verður hér fjallað um atburði á fyrstu mánuðum þess árs, atburði sem gefa dæmigerðan þverskurð af þeim „hversdagslegu“ verkefnum sem glíma þurfti við á Óðni sem og öðrum varðskipum á sjöunda áratugnum, milli þorskastríða.

Wire Conquerer strandar.

Óðinn lagðist við akkeri undir Eiðinu í Vestmannaeyjum að kvöldi mánudagsins 17. janúar eftir að hafa dregið nótabátinn Þorgeir GK þangað með nótina í skrúfunni. Var báturinn sóttur fyrr um daginn 14 sml. suður af Ingólfshöfða.  Kafari Óðins, sem var III. stýrimaður í þessari ferð, kafaði við bátinn og skar úr skrúfunni og var ekki öfundsverður af, því við lá að froskbúningurinn frysi utan á honum í frostinu. Næstum daglegt brauð á veiðislóðum bátaflotans á þessum tímum, sem sést m.a. á því að þrem dögum áður hafði verið skorið úr skrúfunni á Guðjóni Sigurðssyni VE 120, þar sem hann var staddur 21 sml. suður af Ingólfshöfða. Nú hafði veður versnað svo að draga þurfti Þorgeir GK í var áður en hægt var að skera úr skrúfunni. Það var búist við rólegheitum þarna um nóttina því veður átti frekar að ganga niður þar sem öflugur hæðarhryggur var að teygja sig frá Grænlandi og yfir landið með vaxandi frosti og éljagangi norðan- og austanlands.

Nóttin leið án tíðinda um borð í Óðni, en rétt fyrir kl. 0900 um morguninn kom kall frá breska togaranum Huddersfield Town sem tilkynnti að togarinn Wire Conquerer FD 187 hefði strandað um nóttina „1/2 N frá Portlandsvita“ (vitanum á Dyrhólaey) hvað sem það þýddi nú. Hafði Wire Conquerer strandað um kl. 0100 og þá kallað í breska togarann Dillingham, sem var skammt frá, til að athuga hvort þeir gætu komið til aðstoðar við að ná togaranum út, sem hann taldi sig ekki geta. Sendir Wire Conquerer var svo veikur að ekki náðist í nema næstu stöðvar. Skipstjórinn taldi litla hættu á ferðum enda Wire Conquerer á réttum kili og aðeins um 20 m. frá landi. Það var því ekki fyrr en kl. 0850, þegar Hudderfield Town kallaði í Óðinn, sem tilkynning um strandið barst til íslenskra björgunaraðila. Við boðin breyttist andrúmsloftið um borð í Óðni. Akkerið var híft í skyndi og stefnan sett grunnt austur með landinu til leitar að strandinu. Staðarákvörðunin sem gefin hafði verið var enganvegin marktæk. Var keyrt á fullri ferð móti austan 6-7 vindstigum. Haft var tafarlaust samband við Landhelgisgæsluna sem kom boðunum áfram til Slysavarnafélagsins. Kom Slysavarnafélagið boðunum áfram til björgunarsveitarinnar undir Eyjafjöllum um að togari væri sennilega strandaður vestan við Dyrhólaey. Byggði það mat á þeirri óljósu staðarákvörðun sem gefin hafði verið. Björgunarsveitin „Von“ fór því niður á Sólheimafjörur og greip þar í tómt, ekkert skip sást þar strandað. Var nú ákveðið að björgunarsveitir biðu átektar meðan Óðinn leitaði betur að strandinu. Um kl. 1030 var orðið ljóst af miðunum, sem framkvæmdar voru á Óðni, á senditæki Wire Conquerer, sem búið var að ná sambandi við, að hann væri orðinn nálægur og trúlega strandaður einhversstaðar í námunda við ósa Múlakvíslar, austan við Vík í Mýrdal, enda var ekki að sjá neitt strandað skip frá Óðni séð, sem búinn var að sigla grunnt með ströndinni austur undir Dyrhólaey. Var því kallað í Loranstöðina á Reynisfjalli og hún beðin að koma þessum upplýsingum til björgunarsveitarinnar í Vík. Eftir því sem Óðinn nálgaðist strandstaðinn varð miðunin nákvæmari og rétt fyrir kl. 1100 var komin nákvæm staðsetning á Wire Conquerer milli Múlakvíslar og Miðkvíslar á Mýrdalssandi. Þá var björgunarsveitinni beint á þann stað, en tíður éljagangur var búinn að hamla skyggni austur með Mýrdalssandi, frá bæjunum austan Víkur.

Þegar Óðinn lagði af stað frá akkerislæginu undir Eiðinu var strx farið að gera báta varðskipsins klára, línubyssu, björgunarvesti, tildráttartaugar og dráttarvíra ef á þyrfti að halda. Í brúnni stóð yfirstýrimaðurinn vaktina og skipherra var mættur til að hafa yfirumsjón með aðgerðum. Loftskeytamaðurinn var á sínum stað og annaðist öll talstöðvaviðskipti við land og önnur skip sem málið varðaði. Þegar komið var austur á strandstaðinn kl. um 1155 kom hins vegar í ljós að ógjörningur var að komast að togaranum frá sjó til að bjarga áhöfninni. Miklir brimskaflar voru svo til sleitulaust milli Óðins og strandaða skipsins, enda braut á tveim sandrifum sem togarinn hafði skrönglast yfir og beint upp í fjöruna. Var nú lagst við akkeri undan strandstaðnum enda kom í ljós að björgunarsveit Slysavarnafélagsins í Vík „Víkverji“ var komin í fjöruna ofan við togarann og voru togaramenn að fleyta línu í land fyrir björgunarmenn að koma fyrir björgunarstól með tildráttarlínum. Ekki kunnu togaramenn að festa blökkina um borð í togaranum með s.k. tildráttartaug og endaði það bras með því að einn björgunarmannana í landi, Reynir Ragnarsson, las sig eftir líflínunni sem komin var um borð og gekk frá björgunarstólnum þannig að björgun gat hafist. Gekk nú greiðlega að ná öllum 18 áhafnarmeðlimunum í land, auk Reynis þannig að kl. 1338 tilkynnti björgunarsveitin Óðni að björgun áhafnar væri lokið og farið yrði með hana til Víkur.

Því má bæta hér inn í að skipstjóri Wire Conquerer, Matthew Mecklenburgh og áhöfn hans voru að fara þessa einu ferð á Wire Conquerer, til veiða hér við land, en voru annars venjulegast á togaranum Imperialist við veiðar hérna. Hafði Matthew skipstjóri og áhöfn hans á Imperialist sýnt mikla hugdirfsku og áræðni við að bjarga níu manna áhöfn vélbátsins Stráks frá Grindavík, þegar hann var að reka upp í Krísuvíkurbjargið nákvæmlega þrem mánuðum fyrir þennan atburð. Var Matthews og áhöfn hans heiðruð sérstaklega af Slysavarnafélagi Íslands fyrir þetta afrek.

Um borð í Óðni var nú hafist handa við að undirbúa björgun togarans úr strandinu, en hann var óskemmdur. 5 tommu dráttarvír var tekinn úr vírageymslu undir skutþiljum og komið fyrir á 20 tonna dráttarspilinu. Sjósettur var vélbátur og handlóðað dýpið aftan við togarann og út frá honum, það teiknað upp og kortlagt með nýju byltingarkenndu tæki sem nýlega var búið að koma fyrir um borð í Óðni, s.k. „photo plot“, sem var samtengt Kelvin Huges ratsjánni. Þetta tæki, sem var sett í Óðinn 22. febrúar 1965, var í raun mjög hraðvirk myndavél, sem tók myndir af radarskjánum í sífellu, framkallaði og varpaði síðan upp á stóra borðplötu úr gleri. Rann filman af 16 mm. spólu í töku, þaðan í framköllun, síðan í sýningu og að því lokum á aðra spólu. Hægt var að strekkja gegnsæjan pappír á plötuna og skrifa inn á myndirnar athuganir og minnisatriði. Frá því að myndin var tekin, hún framkölluð og henni síðan varpað upp til skoðunar, liðu ekki nema 3 og ¾ úr sekúndu þannig að með því millibili mátti alltaf fá nýja mynd af radarskjánum til skoðunar. Þannig mátti skrá jafnóðum þær hreyfingar, sem komu fram á milli mynda, á pappírinn sem strengdur var á glerborðið. Myndirnar voru dag- og tímasettar svo auðvelt var að rekja atburðarásina síðar, eins og hún birtist á radarskjánum, t.d. fyrir dómstólum ef þurfa þótti. Þetta þótti mikil tækniframför, áður en stafræna myndbands- og tölvutæknin sem nú er notuð, við upptöku og varðveislu á gögnum, kom til sögunnar. Þótti tækið svo merkileg nýjung í siglingatækni að hálfu öðru ári eftir að þessi atburður átti sér stað, sem hér greinir, (12. ágúst 1967) var Haraldur krónprins Noregs (núverandi konungur) á ferð með Óðni, í opinberri heimsókn til Íslands. Varð hann svo uppnuminn af tækinu og innviðum þess að íslenskir ráðherrar, sem ólmir vildu bjóða krónprinsinum upp á veitingar í forsetastofu skipsins, fóru bónleiðir til búðar, krónprinsinn var hálfur inni í „photo plottinu“ þegar boðið kom og fékkst ekki til að víkja frá því. Haraldur krónprins var þá þegar orðinn siglingafræðingur og búinn að ljúka foringjaþjálfun í Norska flotanum. Hefur hann alla tíð verið mikill siglingakappi sjálfur. Nú var „photoplottið“ notað til að gera nákvæmt kort af ströndinni, staðsetningu togarans á henni og dýpistölum aftur af togaranum, eins og sandrifin leyfðu.

Um kvöldið var öllum undirbúningi að björgun Wire Conquerer lokið um borð í Óðni. Samkomulag var að Landhelgisgæslan sendi menn austur til að undirbúa skipið undir að vera dregið út og setja dráttarvíra fasta um borð, daginn eftir. Viðbúið var að bíða þyrfti einhverja daga eftir stærri straumi og var nú vonað að veður spilltist ekki, enda spáð norðlægum áttum með snjókomu norðan- og austanlands, en björtu sunnanlands. Reyndar var aust- norðaustan 6 - 7 vindstig og snjókoma á  strandstaðnum þetta kvöld. Var Óðinn því áfram við akkeri undan Kötlutanga þegar þreyttir menn gengu til hvílu um kvöldið eftir erfið undirbúningsverk. Aðeins vaktin hélt  verði sínum á stjórnpalli og í vélarúmi að venju þetta þriðjudagskvöld 18. janúar 1966.

Áframhald innan tíðar.


Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Sept. 2010
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 53422

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband