Þýðing óskast.

"Skerðanlegur flutningur ekki afhentur". Stofnanamál sem ég óska eftir að einhver þýði fyrir mig á mannamál.
mbl.is Búið að finna bilunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðalaust.

Fyrir réttum 40 árum varð eldgos í Vestmannaeyjum. Eitt af höfuðverkefnum í þeirri baráttu sem þá fór fram var að reyna að bjarga Vestmannaeyjabæ og höfninni með því að hafa áhrif á hraunstruminn. Leitað var til fjölmargra sérfræðinga“ innlendra sem erlendra“ til að fá góð ráð svo sem að sprengja geil með sprengjum eða jafnvel eldflaugum í Eldfellið sem þá var að myndast, opna með sprengingum hraunjaðarinn sjávarmegin til að auðvelda rennslið í þá átt, byggingu varnargarða og kælingu hraunsins sem varð ofaná.

Við fengum í því efni „heimsfrægan“ eldfjallafræðing, útlending, til að leggja á ráðin, sem kom með eina dómsdagspánna eftir að hafa heimsótt Velstmannaeyjar í mýflugumynd. Hann hafði ekki einu sinni fyrir því að ræða við þau yfirvöld á Íslandi sem óskuðu eftir honum til ráðuneytis, áður en hann birti „dómsdagsummæli“ sín í viðtölum frá París þegar hann sagði að „Vestmannaeyjar væru dauðadæmdar.“

Tveim árum seinna var mér boðið til Napoli til að fjalla um reynslu okkar í björgunar- og varnarstarfinu í Vestmannaeyjum, ef nýta mætti hana til varna við Vesuvius. Lagði ég m.a. áherslu á hraunkælinguna og sýndi kvikmynd máli mínu til stuðnings. Á fyrirlestrinum og kvikmyndasýningu var þessi „heimsfrægi“ eldfjallafræðingur meðal fjölmargra annara. Snéri hann sér að mér að lokinni sýningu myndarinnar um hraunkælinguna og sagði svo allir mættu heyra. „Þarna gerðu íslendingar sig að mestu fíflum í heminum með að halda því fram að þetta bunupiss hafi haft áhrif á harunrennslið.“  Dæmi hver fyrir sig, en hér talaði þessi heimsfrægi eldfjallafræðingur fyrir daufum eyrum.

Tökum varlega mark á dómsdasspám útlendinga.


mbl.is Ísland er tifandi tímasprengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendir?

Ef þú stendur á 179 gráðum 59 mínútum og 59,99 sekundum v.lgd á miðnætti þegar 21. des. er að renna upp þar, þarft þú aðeins að stíga yfir 180 gráðu dagskiptabauginn, yfir á 179 gráður 59 mínútur og 59,99 sekundur a.lgd og þá er 22. des. að renna upp þar sem þú stendur. Þú missir þá af 21. des.

Hvernig fer þá um þinn heimsendi?


mbl.is Ragnarökleysan mikla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málvilla?

Það segir neðst á síðu fréttarinnar "ein manneskja mældi með þessu." Það á að vera "ein manneskja mælti með þessu."
mbl.is Umræðu um rammaáætlun frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvennaflug

Við hjónin flugum fyrir nokkrum árum með vél Icelandair frá Orlando til Keflavíkur. Áhöfnin var eingöngu skipuð konum í það sinn.
mbl.is Áhöfnin eingöngu skipuð körlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögun í verki

gullfoss_1182896.gifÞannig háttaði til á MS. Gullfossi að aftan til í brúnni voru stýrin. Handstýrið, sem var aðal stýri skipsins var fyrir miðju en sjálstýringin til hægri handar við það. Á sjálfstýringunni var líka stýrishjól sem notað var til að stilla stefnuna á sjálfstýringu og til frekari fínstillinga á henni. Ofan á sjalfstýringunni var stautur, sem bar kompásinn. Hann sýndi þær stefnutölur sem „gyrokompásinn“ niðri í skipinu sendi rafrænt upp í hann. Kompásnum mátti snúa á stautnum þannig að skífa hans væri sem best sýnileg þeim sem stæði við stýri eða þyrfti að fylgjast með stefnunni. Upp undir lofti við miðglugga brúarinnar var svo stýrisvísir sem sýndi stððu stýrisblaðsins hverju sinni og var mjög mikilvægur við stýringuna. Vinstra megin á sjálfstýringunni var handfang sem hægt var að færa í þrjár stöður. Fremsta staðan var merkt „auto,“ en þá var sjálfstýringin í sambandi, miðstillingin var merkt „hand,“ sem þýddi að þá var stýrið á sjálfstýringunni virkt og aftasta stillingin var merkt „out“ sem þýddi að sjálfstýringin væri úti (óvirk). Á aðalstýrinu var svo hægra megin handfang sem hafði tvær stöður, upp sem þýddi tengt og niður sem þýddi aftengt, en þá var það fast.

Nú var komið ágústkvöld árið 1957 og MS Gullfoss öslaði spegilsléttan sjóinn á 16 hnúta hraða út á Norðursjó. Fjarðarkjafturinn á Firth of Forth var að baki og búið að skila lóðsinum við Incholm Island. Leiðin lá enn einu sinni frá Leith (Edinborg) til Kaupmannahafnar og hvert rúm var skipað farþegum. Það var fjör meðal farþeganna um borð kvöldverður ný afstaðinn og glaðværð í vínstúkum skipsins og setusölum. Á stjórnpalli var búið að stilla á sjálfstýringu, stefnuna 70 gráður réttvísandi og tölurnar 070 komnar í minnisglugga á framvegg brúarinnar. Framundan var 27 tíma (437 sjómílna) sigling að Skagen á norðurodda Jótlands.

Þegar ég kom á átta tólf vaktina (2000 til 2400) ásamt öðrum háseta átti ég stýristörnina fyrsta klukkutímann. Yfirmaður á vaktinni var Erlendur Jónsson 2. stýrimaður, ljóshærður og snaggaralegur maður frá Látrum í vestur Barðastrandasýslu, sem gaf stuttorðar og skýrar fyrirskipanir. Þó hafði hann notalega nærveru. Hann þótti afbragðs sjómaður og sérlega nákvæmur, með að aga og góðri reglu væri fylgt við stjórn og siglingu þessa flaggskips íslenzku þjóðarinnar. Enda var borrin virðing fyrir honum sem var samt mjög ómeðvituð. Við hásetarnir skiptum stýristörninni á milli okkar á klukkutíma fresti. Þann klukkutíma bar okkur að stýra þegar handstýrt var, en þegar sjálfstýring var á áttum við að fylgjast með að hún ynni rétt, að rétt stefna væri stillt inn og að frávikin frá stefnunni (svansið), sem alda og vindur valda, væru sem jöfnust á bæði borð, en þá jöfnun mátti stilla á sjálfstýringunni sjálfri.

Þegar við komum á vaktina var vitinn á Bass Rock að hverfa afturundan og ljós frá nokkrum skipum voru sýnileg á bæði borð. Eftir að hásetarnir sem við vorum að leysa af voru búnir að vekja athygli okkar á öðrum skipum, stöðu þeirra og stefnu, sem og stefnunni sem við vorum á, kvöddu þeir með orðunum „góða vakt“. Stýrimennirnir voru lengur að skipta yfir vöktunum því að þeir þurftu ekki aðeins að gera grein því sem sýnilegt væri utan skipsins heldur líka fyrir stöðu þess, stefnu og hraða, þungadreifingu í tönkum, almennu ástandi um borð og svo framvegis.

Fyrsti klukkutíminn leið við venjubundin störf milli útkiks (kögunar), út um glugga brúarinnar og eftirilits með stefnu og sjálfstýringu. Þegar klukkan var níu um kvöldið og stýristörninni lokið hjá mér kom stutt fyrirskipun frá stýrimanninum. „Farðu á promenadedekkið og taktu saman teppin kall.“ Hann bætti oftast við orðinu „kall“ í enda skipana eða fyrirspurna með vingjarnlegum tón. Þetta kom mér ekkert á óvart því það var alvanalegt að hásetar á 8 til 12 vaktinni væru látnir taka saman væðarvoðirnar sem farþegarnir höfðu notað til að sveipa um sig á promenadedekkinu þegar kvöldkulið sótti að eftir heitan dag eins og nú var. Ég snaraðist því úr brúnni og aftur á promenadedekkið. Það var mannlaust á dedekkinu og gusturinn af ferð skipsins var volgur enda blæjalogn í lofti og spegilsléttur sjór. Á dekkinu heyrðist þungur dynur frá reykháfnum, sem kom frá öflugum átökum B&W aðalvélarinnar sem knúði skipið áfram auk þess sem heyra mátti hljómlist frá músiksalnum sem var beint undir promenadedekkinu aftanverðu. Á haffletinum merlaði hvít kjölrákin sem skipið markaði og teigði hún sig með örlitlum sveigjum aftur undan skipinu eins langt og augað eygði í kvöldrökkrinu, en fullt tungl var á skafheiðum himni.

Það var enginn tími til draumóra þótt fegurð kvöldsins gæfi tilefni til svo ég fór strax að taka til og brjóta saman fjöldann allan af rauðum teppum sem voru í sólstólum um allt dekkið og koma þeim fyrir í sérstökum leðurólum sem spenntar voru utanum teppastæðurnar inni á B dekki fyrsta farrýmis. Kæmi það fyrir að fólk væri í einhverjum þeim athöfnum í einstaka teppum, sem þyrfti að virða til friðhelgis, voru þau teppi geymd til síðari tíma samantektar. Var þá athugað vandlega hvort eitthvað það væri í teppinu sem kallaði á sérstaka hreinsun. Nú var enginn á dekkinu svo slíkrar nærgætni var ekki þörf. Næsta verkefni var svo að taka sólstólana saman og stafla þeim í sólskýlið þannig að þeir væru vel skorðaðir ef veltingur yrði. Klukkan var að verða tíu þegar þessu var lokið og seinni stýristörnin á þessari vakt að bresta á.

Þegar ég kom aftur í brúna sá ég strax bjarmann við hafsbrún. Framundan blasti við ljósadýrð frá tugum fiskibáta sem voru þarna að veiðum með reknetum. Stefna okkar var á miðjan flotann. Þegar skammt var eftir að fyrstu skipunum fór stýrimaðurinn að síma, sem var beintengdur niður í vélarúm, þar sem tveir vélstjórar stóðu vaktina við stjórntækin á 5000 hestafla 12 strokka aðalvélina. Fyrirmæli stýrimannsins í símanum voru stutt en skýr „upp með loggið, netabátar framundan.“ Loggið sem var stautur niður úr botni skipsins með skinjara sem mældi hraða þess í gegnum sjóinn og siglda vegalengd, myndi bogna rækist það í fyrirstöðu eins og fiskinet. Því næst sneri hann sér að mér og sagði „taktu handstýrið kall, stefna sjötíu gráður.“ Ég svaraði að bragði „taka handstýrið stefna sjötíu gráður.“ Þótt það væri skylt að svara fyrirmælum yfirmans orðrétt, til að ekki færi milli mála að rétt hafi verið tekið eftir, vogaði ég mér alls ekki að bæta við orðinu „kall“ þegar ég svaraði honum þótt, óneitanlega hefði verið gaman að sjá viðbrögðin. En þetta var fyrirskipun sem ég var búinn að bíða eftir og gekk því að sjálfstýringunni og færði handfangið vinstra megin frá „auto“ til „out“ í einu handtaki. Síðan steig ég þetta eina skref til vinstri sem var að handstýrinu til að taka stýringuna í eign hendur en það er þá fast. Hrekkur upp úr mér „stýrið er fast“ um leið og ég man að ég hafði gleymt að færa handfangið á handstýrinu upp. Ég teygði hendina eldsnöggt og svipti handfanginu upp og stýrið var komin í mínar hendur. Um leið sagði ég stundarhátt „handstýri á, stefna sjötíu gráður.“ Stýrimaðurinn hafði heyrt mig segja „stýrið er fast,“ en sagði ekki orð um það, enda gerðist þetta allt á innan við fimm sekúndum. Þetta var skipting sem ég var búinn að gera oftar en ég hafði tölu á.

Stýrimaðurinn og hinn hásetinn voru nú límdir við að sjá hvar og hvernig netin lágu út frá fiskibátunum. Frá stýrimanninum komu svo til viðstöðulaust fyrirmæli til mín, eins og „þetta margar gráður í bak eða stjór og þetta beint,“ meðan við sigldum í krákustígum gegnum fiskveiðiflotann. Þegar krappast var beygt fyrir bát eða net, hallaðist skipið undan með hægri hreyfingu sem engum gerði mein þótt sjóveikir væru. Agu mín flöktu stanslaust milli kompáss, stýrisvísis og hafflatar meðan á þessu stóð og hverri skipun var svarað að bragði orðrétt um leið og hún var framkvæmd. Um tuttugu mínútum síðar vorum við komin út úr flotanum og framundan blasti við spegilslétt víðátta hafsins og ég var búinn að meðtaka fyrirmælin „sjötíu gráður.“ Við vorum komin á beinu brautina og enn var handstýrt. Stýrimaðurinn hringdi nú niður í vélarúm og gaf fyrirkskipunina „loggið niður.“ Fór hann við svo búið inn í kortaklefann sem var aftan við brúnna bakborðsmegin til að taka staðarákvörðun með DECCA Navigator tækinu sem Gullfoss var útbúinn með. Þegar hann kom fram í brú aftur sagði hann, eftir að hafa litast um yfir hafflötinn, „stilltu á sjálfstýringu, stefna sjötíu gráður.“ Ég svaraði að bragði „stilla á sjálfstýringu, stefna sjötíu gráður.“ Aftengdi ég þá handstýrið með því að setja handfangið hægra megin á því niður, fór svo að sjálfstýringunni, færði handfangið vinstra megin á henni frá „out“ til „hand“ og var kominn með stjórnina í hendurnar. Þegar skipið lá nákvæmlega á stefnunni sjötíu gráður færði ég handfangið á „autao.“ Sjálfstýringin var tekin við og stóð ég stundarkorn kyrr og fylgdist með kompás og stýrisvísi til að fullvissa mig um að sjálfstýringin ynni rétt. Að því loknu gekk ég frá sjálfstýringunni áleiðis að brúargluggunum, en þá heyri ég stýrimannninn segja, „taktu handstýrið, stefna sjötíu gráður.“  Ég horfði út á hafið framundan skipinu um leið og ég svaraði „taka handstýri, stefna 070 gráður.“

Ég gekk að sjálfstýringunni og framkvæmdi aftur handbrögðin sem búið er að lýsa áður en nú færði ég hanfangið upp sem tengdi aðalstýrið og sagði „handstýri á, stefna 070 gráður.“ Sennilega hefur ekki liðið nema ein mínúta þegar ég heyrði næstu fyrirmæli „stilla á sjálfstýringu, 070 gráður.“ Ég svaraði eins og áður „stilla á sjalfstýringu, 070 gráður.“ Var nú allt endurtekið sem fyrr og að því loknu sagði ég „sjálfstýring á stefna 070 gráður“ um leið og ég gekk fyrstu skrefin í átt að brúargluggunum. Þá heyrði ég stýrimanninn segja „taktu handstýrið, stefna 070 gráður.“ Enn svaraði ég með sömu orðum, sama ferli tók við og þegar ég var kominn með handstýringuna í hendurna hljómaði „stilltu á sjálfstýringu, stefna 070 gráður.“ Þetta endurtók sig tíu sinnum, fram og aftur, með fyrirrskipununum taktu handstýrið og stilltu á sjalfstýringu. Alltaf var hlýtt án frekari orða nema því að svara orðrétt fyrirmælunum. Ég var auðvitað búinn að finna fljótlega að hér var á ferðinni ströng ögun sem búið hefur með mér allar götur síðan. Þú gerir ekki sömu mistökin nema einu sinni við stjórn skips. Eitt mistekið handtak, sem þú átt að kunna er of mikið. Önnur mistök gæti skipt sköpum  fyrir það sem þér er trúað fyrir.

Spuring er, er svona ögun einelti, níðsla eða einhverskonar mannvonska? Aldrei leit ég þeim augum á þennan atburð því hér var á ferðinni manngæska fræðara sem gerði sér grein fyrir mikilvægi þjálfunar frekar en umvöndunar. Ég hefði aldrei munað þetta atvik, til þeirrar eftirbreytni sem því var ætlað að leiða, ef Erlendur Jónsson 2. stýrimaður á Gullfossi hefði farið að fjasa í umvöndunartón um klaufaskap ég hefði átt að gera þetta en ekki hitt og ætti að vita betur.


Hvað vildu þeir sem heima sátu?

Þetta er skrítin samlíking. Það höfðu allir jafnan möguleika á að "kveikja í sínu fólki."

Í annan stað undrar mig að nú eru margir sem telja sig í stakk búna til að túlka vilja þeirra sem komu ekki á kjörstað. Við höfum engann rétt til að "túlka" þeirra vilja nema þann, að þau höfðu engan vilja að tjá, ekki einu sinni leynilega.


mbl.is Kirkjan kveikti í sínu fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vornótt á Vatnsendahæð

Þegar purpurarauður kvöldroðinn kyndir

kyrrlátan eldinn um himinsins djúp

og í fjöllunum flökta skuggar og myndir

sem fannhvítur Jökullinn steypir í hjúp.

Þá blundar hún borgin í vornætur blænum,

undir blámóðu himinsins óræða geim

og fjöllin í fjarska þau speglast í sænum

með fyrirheit til þín um friðsælan heim.

 

Á tjörnunum teygja sig fannhvítir svanir

og tipplar í hólma heimarík önd,

en vargfuglar sveima yfir varpinu vanir,

þótt verjist þeim kríur, sem námu þar lönd.

Í lofti þær leika á vængjunum sínum

þá list sem að bar þær norður um haf

og þú starir í furðu frá fótstalli þínum

á fegurð þess lands sem að drottinn þér gaf.

 

Við bryggjurnar liggja bátar og rugga,

um bakkana lækurinn liðast svo hljótt

og þú heyrir úr húsi stúlku að hugga,

harmþrungið barn sitt sem er ekki rótt,

en á steini í brekkunni sitja og kela

sælastir allra, ástfangið par,

og róna ræfill með vínlögg í pela

ráfar um götur sem útbrunnið skar.

 

Já farðu á Vatnsendann vinur og sjáðu

í vornætur húmi þessa sofandi borg,

sem frægir þá heppnu en fordæmir smáðu,

allt fólkið sem býr við þær götur og torg,

sem hagsæld því veitir og örlög þess vefur

en vægir þeim ekki sem eiga ei vörn.

Hennar tilvist er fögur, en hún tekur og gefur,

og hún typtar eða elskar sín sofandi börn.

 

 

 

Guðjón Petersen


Röng myndbirting

Með þessari frétt er birt mynd af einni af blokkunum sem hýsir þjónustuíbúðirnar í Mörkinni, Suðurlandsbraut 58 til 62, en ekki af hjúkrunarheimilinu sem er á Suðurlandsbraut 66.

Unglingarnir í hverfinu kalla íbúðarblokkirnar "STAR WARS" blokkirnar.


mbl.is Heimilismaður gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauji Pet

Höfundur

Guðjón Petersen
Guðjón Petersen
Fyrrverandi háseti á Gullfossi, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, framkvæmdasjóri Almannavarna ríkisins, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Skipstjórnarmanna. Núna bara ævintýramaður á eftirlaunum ásamt frú LILJU BEN með áhuga á svo til öllu. 
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...006_1240384
  • ...ngu_1240383
  • ...gullfoss
  • ...hulli
  • Skipstjóraborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 53416

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband